15.12.1972
Neðri deild: 24. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1293 í B-deild Alþingistíðinda. (930)

121. mál, launaskattur

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Ég vildi aðeins vekja athygli á því, sem hæstv. fjmrh. sagði reyndar, að með þessu frv. væri verið að gera þennan skatt að varanlegum tekjustofni fyrir ríkissjóð. Það segir í grg., að brýna nauðsyn beri til að gera þetta að varanlegum tekjustofni. Fram að þessu hefur þessi skattur verið framlengdur við hverja verðstöðvun, og hann hefur gegnt hlutverki sínu með þeim hætti. Ég sé ekki, að það sé nokkur þörf á því að breyta lögunum eins og hér er gert með því að gera þetta að varanlegum tekjustofni.

Það er eðlilegt, að þessi skattur, eins og margir aðrir, sé tekinn til athugunar, þegar um efnahagsráðstafanir er að ræða. Ég vil vekja athygli þeirrar nefndar, sem fær þetta mál til meðferðar, á því, hvort hún vill ekki taka þetta mál til athugunar og ganga úr skugga um, hvort það sé rétt, sem hér stendur í grg., að það sé óhjákvæmilegt, eins og nú háttar, að þessi 11/2 % launaskattur verði gerður að varanlegum tekjustofni ríkissjóðs og það sé þess vegna, sem verið sé að breyta ákvæðum laganna frá 1965 um þetta efni. Það þarf nánari og fleiri skýringar en hæstv. ráðh. gaf hér áðan til þess að sannfæra hv. alþm. um, að þetta sé óhjákvæmilegt, og ég vænti þess, að hv. n. athugi þetta mál gaumgæfilega.