15.12.1972
Neðri deild: 24. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1298 í B-deild Alþingistíðinda. (936)

122. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar 1973

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt hv. 3. þm. Sunnl. að flytja brtt. á þskj. 179 um landshafnir. Það er þess vegna, sem ég kveð mér hljóðs við þessa umræðu um frv. til l. um heimild fyrir ríkisstj. til lántöku vegna framkvæmdaáætlunar fyrir árið 1973. Við héldum fund, þm. Sunnl., um þetta mál, eftir að frv. var útbýtt og augljóst var, að Þorlákshöfn hafði verið strikuð út. Við vorum allir jafnóánægðir með þetta og höfðum allir jafnmikinn áhuga á því, að þetta væri tekið upp á ný, þótt við séum aðeins tveir flm.

Það var í haust, sem við, allir þm. Sunnl., gengum á fund hæstv. samgrh. út af þessu máli, og tók hann okkur vel og af skilningi og sagðist þekkja þetta mál og skilja nauðsynina á því að hefja þessar framkvæmdir við Þorlákshöfn, þ.e. að lengja ytri garð hafnarinnar. Þetta er nauðsynlegt, vegna þess að þeim bátum er alltaf að fjölga, sem nota Þorlákshöfn. Bátarnir hafa einnig stækkað, það er ekki lengur pláss í höfninni, og ytri garðurinn er of stuttur, þannig að það er mikið sog í höfninni, þegar illt er í sjó og stormur er, og bátarnir eru þá í hættu. Það var í fyrravetur, sem við þm. Sunnlendinga og hafnarstjórn Þorlákshafnar áttum fund í Þorlákshöfn með hæstv. samgrh. einmitt um þetta mál. Og ég er ekki í nokkrum vafa um, að hæstv. ráðh. hefur skilning á þessu og hefur áhuga á þessu, eins og kom fram hjá honum í morgun, þegar við þm. Sunnlendinga vorum á hans fundi. En hans góði vilji dugði ekki enn til þess, að málið væri tekið með í frv. Það var fyrir nokkrum vikum, sem við þm. Sunnlendinga og sveitarstjórnarsamband Suðurlands vorum á fundi á Stokkseyri. Þar mætti einn af framkvæmdastjórum Framkvæmdastofnunarinnar. Ég gat ekki skilið hann öðruvísi en svo, að þetta mál væri efst á blaði eða mjög ofarlega á blaði í Framkvæmdastofnuninni. Þess vegna voru þetta okkur mikil vonbrigði, að sú upphæð, sem þarf á næsta ári til þess að lengja garðinn, er ekki með. Vitamálastjóri hefur gert athuganir á þessari framkvæmd. Hann telur, að það sé nauðsynlegt að lengja hafnargarðinn um 75–80 metra til þess að fá skjól í höfninni og hún geti orðið viðunandi. Hann segir, að undirbúningi að þessum framkvæmdum sé lokið og það sé heppilegt að framkvæma þetta verk á tveimur árum, á árunum 1973 og 1974. Þetta var okkar áætlun, þegar við ræddum við hæstv. samgrh.

Þorlákshöfn er landshöfn, eins og allir vita. Hún er ekki aðeins fyrir útgerð frá Þorlákshöfn. Hún er einnig fyrir Stokkseyri og Eyrarbakka, þegar ekki er hægt að lenda þar. Hún er einnig mikið notuð fyrir útgerð frá Suðurnesjum, kannske eins mikið og útgerð austan fjalls. Allir, sem kynna sér þessi mál, skilja það, að þessi eina höfn á suðurströndinni, landshöfnin í Þorlákshöfn, þarf endurbóta við. Þessi höfn gegnir svo mikilvægu hlutverki, að þetta má ekki vera ógert. Ég treysti því, að hæstv. samgrh. beiti áhrifum sínum áfram. Ég veit, að hann vildi gera þetta, en hann hefur ekki gert það enn. Ég treysti því líka, að hæstv. fjmrh., sem hlustar á mig, taki þessu máli með skilningi. Það er landshöfn á Rifi. Ég ætla ekki að telja eftir það, sem fer í hana. En það er stutt á milli Rifs og Ólafsvíkur, en það er langt til hafnar hjá Sunnlendingum, ef Þorlákshöfn dugir ekki. Þess vegna höfum við flutt þessa brtt. í von um það, að málið verði endurskoðað og það verði teknar upp í frv. 38–40 millj. kr., til þess að þessu megi ljúka á næstu tveimur árum.

Ég þarf ekki að segja meira um þetta. Bæði hæstv. ráðh. og þm. þekkja þetta mál, játa, að þetta sé nauðsynlegt, viðurkenna, að það er brýn nauðsyn. Þess vegna má þetta ekki bíða. Og ekki meira um það.

Ég reyndi að hlusta á hæstv. fjmrh. áðan, en hann hafði stundum svo lágt, að ég heyrði ekki það, sem hann sagði. En ég talaði við hann á eftir og spurði hann, hvort ég hefði heyrt rétt, að það ætti að breyta vegal. og fá þannig auknar tekjur, sem næmu 250 millj. kr. Hæstv. ráðh. sagði, að þetta væri rétt og það væri von á frv. og bann væri hissa á því, að frv. skyldi ekki hafa verið útbýtt. Ég ætla ekki að fara að ræða þetta núna, ekki fyrr en frv. hefur verið tekið á dagskrá. En ég vil þó benda á, að þetta kemur mér á óvart, að það eigi að fara að hækka benzín og þungaskatt. Við munum, að bifreiðar voru hækkaðar mikið í byrjun þessa árs. Þá var lagður á svokallaður jeppaskattur. Þá hækkuðu dísil- Land-Rover-jeppar um 75 þús. kr. og þeir, sem eru ekki allt of góðir í garð ríkisstj., kalla þetta bændaskatt. Aðrar bifreiðar, fólksbifreiðar, hafa hækkað frá 45 upp í 100 þús. kr. og vörubifreiðar frá 150 og upp í 300 þús. kr. Og til viðbótar þessu á að hækka þungaskattinn og benzínið. Það er eðlilegt, að umr. um það mál bíði þangað til frv. kemur til umr. Það mætti segja, að það væri næstum því utan dagskrár að hefja miklar umr. um það í sambandi við þetta mál. En ég var þó búinn að hugsa mér, áður en hæstv. ráðh. sagði frá þessari fyrirætlan, að benda á, að með þessu frv. væru ekki fjármagnaðar allar framkvæmdir í vegáætluninni fyrir næsta ár, þar sem er aðeins gert ráð fyrir 75 millj, kr. lántöku.

Ég sé ekki ástæðu til þess að segja meira um þetta, en ég sé nú fram á, að það verður mikil annavika, næsta vika, ef á að ljúka frv. um breytingu á vegal., á að ljúka fjárl., á að ljúka þessu frv., sem nú er til umr., á að ljúka tvennum eða þrennum frv, um skattamál og víst ýmsu fleiru. Það verður annavika. Ég get tekið undir það, sem hv. 1. þm. Reykv. sagði hér áðan, að þótt þetta frv. biði fram yfir áramót, þá væri enginn skaði skeður. Það mundi hafa alveg jafnmikið gildi fyrir ríkisstj. og fyrir fjármögnun framkvæmdanna fyrir næsta ár, þótt þetta yrði ekki gert að lögum fyrr en í jan. eða febr. n.k. Og ég held, að það sé eðlilegt, að það verði farið að hugsa í alvöru um þessi mál. hvort það sé hægt að afgreiða öll þessi frv. þannig, að það geti verið sómasamlega og vel af hendi leyst. Hæstv. ríkisstj. veit vitanlega miklu betur en ég um það, hvað líður tekjuöflunaráætluninni í samhandi við fjárl. Út í það skal ég ekki fara. En það virðist samt sem áður, þótt samkomulag yrði með bezta móti á stjórnarheimilinu, mikið verk óunnið í sambandi við fjárlögin.