15.12.1972
Neðri deild: 24. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1302 í B-deild Alþingistíðinda. (938)

122. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar 1973

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Ég ætla mér ekki að reyna að ræða þetta frv. hér í heild. Það hefur komið fram hjá fyrri ræðumönnum, að til þess eru lítil efni af augljósum ástæðum, bæði vegna ástands efnahagsmálanna og vegna þeirrar óvissu, sem fjármál ríkisins eru almennt í. En það voru tvö atriði, sem ég ætlaði að gera að örlitlu umræðuefni.

Það mun hafa orðið einhver misskilningur á milli okkar hæstv. fjmrh. í gær út af fsp. minni um Ólafsfjarðarhöfn, en ég las hér bréf frá Framkvæmdastofnun, sem var svar hæstv. forsrh. til mín um samgönguáætlun Norðurlands, þ.e.a.s. þann þátt, sem snýr að höfnum og flugvöllum, og þar var gert ráð fyrir 25 millj. kr. til hafna í þessari áætlun og 25 millj. til flugvalla. Nú, þegar þetta frv. kemur fram, er ljóst, að hér hafa verið skornar af 8 millj. kr. til hafna, og það hefur einmitt gerzt vegna framkvæmda í Ólafsfirði. Ég spurði hæstv. fjmrh. í gær, hvort það væri rétt skilið hjá mér, sem mér hefur skilizt á hæstv. forsrh., að það hefði verið ætlunin, að þessi framkvæmd yrði tekin inn á fjárl. Hæstv. fjmrh. svaraði mér því til í gær, að það væri ætlunin, að þetta kæmi á framkvæmdaáætlun. En það er misskilningur, eins og ég var að segja áðan. Hér stendur það svart á hvítu, að skera á þessa framkvæmt niður. Og það, sem ég vildi fá upplýst í sambandi við þetta er: Var ætlunin að taka þetta inn á fjárlög? Urðu einhver mistök í sambandi við þetta, eða er það ætlun ríkisstj., að engar hafnarframkvæmdir verði í Ólafsfirði í ár? Nú er svo ástatt, að þangað eru að koma tvö stór skip, 500 tonna skip. Þau koma þangað á þessu ári, og sjómenn segja mér, að þeir muni ekki geta varið þessi skip við þau hafnarskilyrði, sem nú eru í Ólafsfirði, en þar er svo ástatt, að byrjað er á nýrri hafnarkví, en þar er ekki aðstaða enn til viðlegu. Ég vildi sem sagt í allri vinsemd óska eftir upplýsingum um þetta mál.

Síðara málið, sem ég vildi gera hér að umræðuefni, er framlag til rannsókna á stofnlínu Norðurland-Suðurland, 13 millj. kr. Hér er um að ræða upphæð, sem einungis fer til rannsókna á línulögn frá Sigölduvirkjun og norður yfir heiðar, en síðan er gert ráð fyrir því, að ríkisstj. verði heimilað sérstaklega að taka 60 millj. kr. að láni út af þessari framkvæmd. Hæstv. ráðh. hefur upplýst hér, að mig minnir, að þessi línulögn muni kosta nokkur hundruð millj., það geti skipt nokkrum hundruð millj., hvort hún verður hönnuð fyrir mikla eða litla orkuflutninga, þannig að hér er einungis um byrjunarfjárveitingar að ræða í þetta verkefni. En það, sem ég vil gagnrýna og undirstrika mjög rækilega í sambandi við þetta mál, er, að hvernig sem á það hefur verið bent frá hálfu heimamanna, þá hefur hæstv. ríkisstj. ekki fengizt til að rannsaka aðra kosti til orkuöflunar fyrir Norðurland. Hún hefur tekið pólitíska ákvörðun um það að leggja stofnlinu norður, án allra hagkvæmisathugana um það, hvort hægt væri að afla þessarar orku á annan og hagkvæmari hátt á Norðurlandi sjálfu.

Ég vil taka skýrt fram, að ég er hér ekki að tala um framhaldsvirkjanir í Laxá. Það er aðeins einn kosturinn, og hæstv. ráðh. hefur lýst því hér skýrt og skilmerkilega, að ekki verði farið í slíka virkjun. Það er algerlega því máli óviðkomandi, að ríkisstj. hefur ekki fengizt til þess að gera athuganir á fleiri orkuöflunarleiðum á Norðurlandi. Hún hefur að vísu talað um Dettifoss. En það vita allir, að Dettifoss er svo mikil virkjun, að hún kemur ekki til neinna álita fyrir Norðlendinga og mundi alls ekki koma til álita, nema það kæmi orkufrekur iðnaður á Norðurlandi eða yrði hönnuð það mikil flutningslína milli Suður- og Norðurlands, að hún gæti flutt verulega mikla orku. Þetta vil ég gagnrýna. Ég held, að það hefði verið réttara, að í þessari framkvæmdaáætlun hefði verið heimilað að veita 13 millj. kr. til orkurannsókna á Norðurlandi og þá jafnframt á þessari leið, sem hér um ræðir, og það hefði verið gerð sú athugun, sem heimamenn eru allir sammála um og var samþ. shlj. á síðasta Fjórðungsþingi Norðlendinga, að það bæri að stefna að því að kanna, hvort hagkvæmara — og þá yrði að fara fram athugun á því — að virkja fremur í fjórðungnum sjálfum heldur en fara nú á þessu stigi í orkuflutning á milli Norður- og Suðurlands. Ein ástæðan fyrir þessu er sú, að menn gera sér ljóst, að ef þessi leið verður farin í orkuöflunarmálum Norðlendinga, verður að koma upp mikilli varaaflsstöð í fjórðungnum, dísilstöð eða gastúrbínstöð eða einhverri slíkri stöð, sem kostar mikla fjármuni, vegna þess að það hefur aldrei verið gert áður að flytja orku milli landsfjórðunga hér á landi, og við vitum ekki, hvernig það tekst, og það er fullkomið óréttlæti, ef á að bjóða fólki norður í landi að flytja þangað orku um eina línu, þegar ekki er hægt að bjóða Reykvíkingum minna en tvær línur frá Búrfelli. Þannig er þetta mál vaxið, og ég tel, að það hefði verið sæmra fyrir hæstv. ríkisstj, að gera ráð fyrir því í þessari framkvæmdaáætlun, að þessu fé yrði varið til orkurannsókna, en ekki aðeins til rannsókna á einum kostinum af mörgum, sem fyrir hendi eru.