15.12.1972
Neðri deild: 24. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1303 í B-deild Alþingistíðinda. (939)

122. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar 1973

Gunnar Gíslason:

Herra forseti. Hv. 5. þm. Norðurl. e. tók raunar af mér ómakið með sinni ræðu, því að hann ræddi einmitt það atriði í þessu frv., sem ég ætlaði að gera að höfuðefni máls míns. Ég er honum algerlega sammála um, að það er miklu nær að verja þeim 13 millj. kr., sem ætlaðar eru til stofnlínu á milli Norður- og Suðurlands, til virkjunarrannsókna á Norðurlandi. Það er rétt, sem hv. þm. sagði, það er fyrst og fremst vilji okkar Norðlendinga, að það verði virkjað heima í héruðunum á Norðurlandi, að við fáum virkjun þar. Það hefur raunar verið sagt af mönnum í háum stöðum, að það væri ekki neitt aðalatriði, hvar virkjanirnar væru. Ég er á gagnstæðri skoðun. Það er ekkert aukaatriði, hvar virkjanirnar eru. Þær eru einmitt meginundirstaðan undir því, að sjálfstæði byggðanna haldist, að byggðirnar haldist. Þær eru sjálfstæðismál byggðarlaganna. Þess vegna tek ég mjög undir orð hv. þm. Lárusar Jónssonar um þetta atriði.

Ég ætla ekki, þó að það væri kannske ástæða til. að ræða þær framkvæmdir, sem voru á döfinni í sumar, þegar verið var að leggja raflínu frá Eyjafirði til Skagafjarðar. Við áttum dálítið örðugt með að skilja þessar framkvæmdir þarna nyrðra, því að við vissum, að í Norðurl. e. var engin afgangsorka. Þaðan var ekkert rafmagn að fá fyrir okkur í kjördæminu vestra, nema þá að byggja stórar og miklar dísilstöðvar norður á Akureyri. Okkur fannst, að það hefði alveg eins mátt byggja dísilstöðvar heima í okkar kjördæmi, eins og fara að leggja þessa línu og fá rafmagn frá dísilstöðvum norðan Öxnadalsheiðar.

Það var einhvern tíma sagt frá því í sumar að hæstv. forsrh. hefði raunar verið algerlega á móti þessari framkvæmd, en hæstv. meðráðh. hans, iðnrh., hefði ekki spurt hann og farið í þessar framkvæmdir upp á eigin spýtur. Hæstv. félmrh. sagði það, sem alveg rétt er, að það vantar fé bæði hér og þar, og það er ákaflega erfitt fyrir okkur einstaka þm. að vera að impra á einhverjum till., einhverjum hækkunartill. eða fjárveitingum til einstakra starfsemi í okkar kjördæmum, eins og stendur, allra sízt meðan við höfum ekki hugmynd um, hvernig afgreiðsla fjárl. verður.

Ég vil þó aðeins leyfa mér að benda hv. n., sem fær þetta frv. til athugunar, á það, að til Norðurlandsáætlunar eru ætlaðar á frv. 38 millj. kr. Af þessum 38 millj. kr. eru ætlaðar 13 millj. kr. til hafna, og er þá að ræða um framkvæmdir á Drangsnesi, Skagaströnd og Hofsósi. Það var drepið á það hér í gær í umr. um fjárlagafrv. af samþm. mínum hv. 5. þm. Norðurl. v., að honum þóttu fjárframlög til hafnargerða í okkar kjördæmi heldur smávaxin, og var það víst ekki ofsagt, því að meðan öll önnur kjördæmi, án þess að ég vilji fara í meting, fá til hafnargerða mismunandi marga tugi millj., þá er ætlað, að í kjördæmi okkar fari rétt rúmar 7 millj. kr. til hafnarframkvæmda. Nú lá þó fyrir beiðni um það, að veitt væri, — ég held, að ég megi fullyrða það, — meira fé til hafna í kjördæminu heldur en þetta. En ég veit, að það er ekki hægt að fullnægja öllum óskum. En það má segja, að hér sé bætt um. Nú eru ætlaðar 13 millj. kr. af framkvæmdaáætlun í hafnir í okkar kjördæmi og þó ekki alveg, því að ein framkvæmdin á að vera í Strandasýslu. En nú í morgun barst mér í hendur bréf, sem ég vil raunar segja, að er nokkuð síðkomið, norðan af Siglufirði, þar sem er óskað eftir fjárveitingu til hafnarframkvæmda í Siglufirði vegna þeirra framkvæmda, sem útgerðarfélagið Þormóður rammi er nú að ráðast í. Ég vil aðeins leyfa mér að benda á þessa beiðni. Ég veit ekki á þessu stigi, hvað hér er um mikla upphæð að ræða, en ég vil biðja hv. n. að athuga, hvort ekki væri unnt að veita eitthvert fé til Siglufjarðar, án þess þó að skorið sé niður af því fé, sem ritað er til þeirra hafna, sem nefndar eru í þessu frv., því að þeim mun ekki af því veita.