15.12.1972
Neðri deild: 24. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1306 í B-deild Alþingistíðinda. (941)

122. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar 1973

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Út af þeim umr., sem hér hafa farið fram, langar mig að segja aðeins nokkur orð og í fyrsta lagi út af því, sem hv. 1. þm. Reykv. sagði hér um afgreiðslu málsins. Það verður að sjálfsögðu af hálfu ríkisstj. haft samband við stjórnarandstöðu um afgreiðslu þeirra þingmála, sem nauðsyn ber til, að verði afgreidd fyrir áramót, og þau verða tekin fyrst, sem nauðsynlegust eru. Það er rétt, að þetta frv. er ekki eins nauðsynlegt að afgreiða fyrir áramót og tekjuöflunarfrv., sem ég talaði fyrir áðan. Verður það að sjálfsögðu haft til athugunar. Þó að æskilegt hefði verið að afgreiða málið nú, er það ekki eins nauðsynlegt og hin málin, sem ég áður talaði fyrir, mun verða reynt að hafa vinsamlegt samstarf um það.

Það er eins og oft vill verða í sambandi við slíka framkvæmdaliði, sem eru á þessari skrá, að þar togast á löngunin til þess að koma í framkvæmd þeim nauðsynjaverkum, sem eru í hverju byggðarlagi, og möguleikarnir til að fjármagna þá, og líka möguleikarnir til að fá vinnuafl til að geta leyst verkefnin af hendi. Það hefur verið deilt á núv. ríkisstj. fyrir það, að hún væri of athafnasöm í þessa átt og framkvæmdi of mikið, sækti þess vegna of mikið fé til þegnanna, og ekki nóg með það, heldur lánsfé líka, og tæki of mikið vinnuafl til verklegra framkvæmda. Um þetta má að sjálfsögðu alltaf deila, en þannig fer það, að þegar hver og einn kemur að sínum stað og sínu áhugamáli, þá finnst honum það ekki geta beðið, heldur eitthvað annað, og þetta eitthvað annað er þá áhugamál og nauðsynjamál annars aðila. Þannig er verið að reyna að velja og hafna í þessum efnum.

Það, sem var lagt til grundvallar í sambandi við þessa framkvæmdaáætlun, er í fyrsta lagi að halda áfram við þau verk, sem nú er verið að vinna að. Þannig er það með þær rafmagnsveitur, sem eru hér stærsti liðurinn, 236 millj. kr., í ríkisframkvæmdunum. Þar eru áframhaldandi verk við Lagarfossvirkjun og Mjólkárvirkjun. Þetta tekur um 126 millj. kr. af heildarfjáröfluninni, og það blandast engum hugur um, að það er með öllu óhugsandi annað en halda áfram við þessi verk vegna þess fjármagns, sem þarna er komið, og nauðsyn ber til að halda þeim áfram og koma á þann rekspöl, að nýting geti átt sér stað.

Í öðru lagi er svo verið að styrkja flutningslínur, sem eru orðnar þannig, að það er orðin stórhætta á því, að þær bresti, og það er verið að reyna að meta það, hvar hættan er mest. Í þessu sambandi vil ég segja það, að eitt af þeim álitamálum, sem mjög var verið að velta fyrir sér var flutningslína frá Andakílsárvirkjun vestur á Snæfellsnes, sem er talið hið mesta nauðsynjaverk. Og það er ekkert ánægjulegt að þurfa að beita skurðarhnífnum til þess að draga úr þessari framkvæmd. En það var ekki talið framkvæmanlegt, ef átti að koma þessari áætlun saman með sæmilega skynsamlegum hætti með tilliti til fjármagnsútvegunar og mannafla til framkvæmda. Þetta veít ég, að hv. þm. er öllum ljóst. Þess vegna er það ekki spurning um vilja eða viljaleysi, sem hér er að verki, heldur spurning um það, hvað hægt er að útvega af fjármagni og hvað framkvæmanlegt er að vinna að af stórum verkum án þess að trufla atvinnureksturinn í landinu.

Þegar kom að landshöfnunum, var það alveg rétt, að það var áhugamál samgrh., að Þorlákshöfn kæmi inn í það dæmi. Í raun og veru þýddi ekkert að vera að fást við Þorlákshöfn nema til frekari rannsókna kæmi, því að það var viðurkennt af vitamálastjóra, að frekari rannsókn þyrfti að eiga sér stað í Þorlákshöfn, áður en til framkvæmda kæmi, og þess vegna var hann með 2 millj. kr. fjárupphæð til þessara rannsókna. En það allra minnsta fjármagn, sem hægt var að hugsa sér til framkvæmda, var 40 millj. kr. Ég efast ekkert um, að það er vel hægt að rökstyðja, að það er nauðsyn á því að hefja þetta verk og koma þessum fjármunum þar fyrir, sem yrðu meira en 40 millj. a.m.k. 80–100 millj. kr. Nú er tiltölulega stutt síðan gert var stórt átak í Þorlákshöfn. Það kom líka fram í þeim skýrslum, sem voru til meðferðar, þegar var verið að vinna að þessu máli, að í Njarðvík mætti með 11 millj. kr. framkvæmd breyta verulega notagildi hafnarinnar. Njarðvík hefur orðið út undan í framkvæmdum nú upp á síðkastið, og hvort tveggja var, að verkið var talið af þeirri stærðargráðu, að það væri viðráðanlegt, og svo hitt, að það gæti kannske breytt miklu, og í þriðja lagi, að þessi höfn hefði beðið lengur en aðrar, og þá var ekki talið eðlilegt að taka aðrar fram yfir hana í þessum efnum. Ef hins vegar Þorlákshafnardæmið hefði verið tekið inn í framkvæmdaáætlunina, hefði orðið að leggja hin til hliðar, því að það að fjármagna þetta allt saman var a.m.k. talið lítt viðráðanlegt og ekki skynsamlegt, þó að fjármagn hefði verið til. vegna annarra framkvæmda. Þess vegna vil ég undirstrika það, að hér er ekki spurning um vilja eða viljaleysi, heldur spurning um það, hvað framkvæmanlegt er, hvað hægt er að fjármagna og hvað skynsamlegt er að framkvæma mikið á þessu ári á þessum sviðum sem öðrum. Það, sem um er að ræða í Rifi, er aðeins frágangur á því, sem unnið var á s.l. ári, ganga raunverulega frá því verki, svo að það sé ekki hætta á, að það skemmist, sem búið er að vinna. Þetta vona ég, að hv. 1. þm. Sunnl. meti og skilji og aðrir hv. þm. Sunnl. í sambandi við það, sem kom fram í ræðu hv. 1. þm. Sunnl.

Út af því, sem hann vék að vegaskattinum, þá skal ég ekki fara að ræða það mál núna, því að það verður hér síðar til umr. En eitt hef ég þó verið alveg sannfærður um, að öruggur bandamaður úr liði stjórnarandstöðu í því máli yrði hv. 1. þm. Sunnl., því að svo vel og dyggilega var hann studdur, þegar hann þurfti á slíku að halda og þurfti þá eins og við nú að afgreiða það mál á skömmum tíma. En um það skulum við ræða, þegar það mál verður hér til umr. (Gripið fram í.) Ég heyrði ekki, hvað hv. hm. sagði.

Um hafnarframkvæmdirnar í Ólafsfirði, þá má vel vera, að við höfum ekki skilið hvor annan, hv. 5. þm. Norðurl. e. og ég, en ég taldi mig hafa sagt, að það hefði verið tekið af hafnarframkvæmdum í Ólafsfirði, sem var innan þeirra marka að vera 75%, en ekki það, sem mundi liggja í 40% framkvæmdum, því að vegna fyrirhugaðra breytinga á lögum þar um, var talið hyggilegt að láta það bíða.

Út í raforkumálin ætla ég ekki að fara. En út af því, sem hv. 2. þm. Reykn. og hv. 11. landsk. þm. sögðu um Reykjanesbrautina, þá vil ég segja það, að því máli var bjargað á yfirstandandi ári með því að lengja lán, sem gert var ráð fyrir í upphaflegri áætlun, að greidd yrðu. Og sú leið er helzt hugsanleg til að bjarga þessu máli og ná endum saman við þá framkvæmd, sem hugsanleg er, að fara enn inn á þá braut og geta þannig bjargað því, sem þarf, til þess að verkinu skili sæmilega, án þess að um frekari fjáröflun þurfi að vera að ræða. Ég vil svo segja það út af þessu máli, að hæstv. samgrh. hefur leitað eftir því, að ég tilnefni mann í n. til þess að ræða á ný samkomulag við Kópavogskaupstað út af þessari vegagerð, þar sem það samkomulag, sem á sínum tíma var gert þar um, sé gengið sér til húðar, eða a.m.k. þurfi endurskoðunar við, og mun ég reyna að verða við því.

Þessar skýringar taldi ég nauðsynlegt að gefa hér út af því, sem fram hefur komið við þessa umr., og skal svo ekki eyða fleiri orðum að þessu.