15.12.1972
Neðri deild: 24. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1309 í B-deild Alþingistíðinda. (945)

39. mál, orlof

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Þetta frv. til l. um breyt. á l. um orlof felur í sér þrjár smávægilegar breytingar.

Í fyrsta lagi er lagt til, að þetta orðalag verði tekið inn í 7. gr.: „Eigi skal reikna orlofsfé af orlofslaunum og orlofsfé.“ Þessi breyt. er fram borin vegna þess, að sjómenn þóttust verða fyrir nokkurri kjaraskerðingu að því orðalagi, sem er nú í gildandi lögum, og er orðið við óskum sjómannasamtaka um breyt. að þessu leyti og þessum óskum þar með fullnægt. Þá er enn fremur það atriði, að vangreitt orlofsfé megi taka lögtaki. Það er til þess að gera innheimtuna á orlofsfénu auðveldari, en þetta er nauðsynlegt í sambandi við það, að orlofsfé fer nú aðrar brautir en hefur verið til þessa samkvæmt gildandi lögum og fyrirkomulagi. Við höfum gefið út orlofsbækur, og við það hefur verið ærið mikill kostnaður og fyrirhöfn og skriffinnska. Nú er ætlunin að gera samkomulag við Póst- og símamálastjórnina um, að þetta verði afgr. í gegnum gíróreikninga, og ég vænti, að af því verði mikið hagræði.

Þá segir í 2. gr., að kostnaður við framkvæmd þessarar gr. greiðist úr ríkissjóði, að svo miklu leyti sem vaxtatekjur af orlofsfé hrökkvi ekki til að bera kostnaðinn. Þetta mun þó varla kosta ríkissjóð nokkurt fé, því að það er jafnvel talið, að ávöxtun fjárins hjá landsímanum muni skila meiri vaxtatekjum en kostnaðinum nemi. Samt er talið vissara að hafa þetta orðalag. En það mun ekki valda ríkissjóði útgjöldum, svo að neinu nemi a.m.k., og þá aðeins í undantekningartilfellum.

Nú um gildistöku þessa frv. er það að segja að fyrsta atriðið, sem snertir orlofsfé, er ætlunin, að taki gildi 1. janúar, í byrjun skattárs, en að öðru leyti taki lögin gildi 1. maí 1973, en þá byrjar hið nýja innheimtufyrirkomulag á orlofsfénu með nýju orlofsári, og þannig stendur á þessum mismunandi tímasetningum á gildistökunni.

Ég hef ekki fleiri orð um þetta, legg til, að verði vísað til hv. félmn. Frv. var lagt fram í hv. Ed. og hefur það verið afgr. þar shlj.