15.12.1972
Neðri deild: 24. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1310 í B-deild Alþingistíðinda. (947)

108. mál, þörungavinnsla á Reykhólum

Heilbr.- og trmrh. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að fylgja þessu frv. um undirbúning á þörungavinnslu á Reykhólum úr hlaði í hv. Nd. aðeins með örfáum orðum. Í Ed. gerði ég allítarlega grein fyrir þessu máli og baksviði þess, enda er hér um að ræða að minni hyggju forvitnilegt og merkilegt mál. Þar urðu allmiklar umr. um málið, og ég hygg, að þær umr. allar liggi hér á borðum þm. prentaðar, þannig að ég sé ekki ástæðu til að endurtaka það, sem þar var sagt. Önnur ástæða fyrir því, að ég ætla aðeins að hafa fá orð um þetta, er sú, að ég hef mikinn hug á því að koma frv. til n. og fara fram á það við hv. alþm., að þeir afgr. þetta mál sem lög fyrir jól. Lm ástæðuna fyrir þessum hraða og því undarlega fyrirkomulagi, sem segja má, að sé á þessu frv., vil ég fara nokkrum orðum.

Rannsóknir á þörungavinnslu á Reykhólum hafa staðið yfir 2 áratugi eða raunar lengur. Þær beindust lengi vel að þaravinnslu eða vinnslu á þaramjöli, og á því komu fram ýmsir annmarkar, en að undanförnu hefur athyglin beinzt að þangvinnslu og þangmjöli, og þar hafa komið í ljós mjög athyglisverðir möguleikar. 8. nóv. s.l. skilaði Rannsóknaráð skýrslu til ríkisstj. um þessar rannsóknir sínar, og um miðjan nóv. eða fyrir u.þ.b. mánuði var iðnrn. falið að fjalla áfram um þetta mál. Ég sendi það þá til verkfræðiskrifstofu Baldurs Líndals til könnunar á niðurstöðum Rannsóknaráðs, og enn fremur fór ég fram á það við Framkvæmdastofnunina, að hún athugaði fjárhagshliðar málsins og markaðinn. Í sjálfu sér hefði verið eðlilegt, að ég hefði beðið með að leggja þetta mál fyrir þing, þangað til þessar kannanir lægju fyrir. Þá fyrst hefði verið eðlilegt, má segja, að ég hefði lagt málið hér fram. En ástæðan fyrir því, að reynt er að hafa hraðari gang á, er sú, að við erum þarna í tímaþröng. Það liggur fyrir tilboð frá skozku fyrirtæki, Alginate Industries, um að kaupa verulegt magn af skolnðu, þurrkuðu og möluðu þangi á árinu 1974, 4000 tonn, og halda síðan áfram þeim viðskiptum í vaxandi mæli um 10 ára skeið þar á eftir. Þessi kaupandi þarf hins vegar á þessari vöru að halda á árinu 1974, og ef hann getur ekki fengið hana hér, þá verður hann að leita eftir henni einhvers staðar annars staðar. Ef það kemur í ljós, að hagkvæmt sé að reisa slíka verksmiðju, þá tel ég, að við verðum að leggja áherzlu á að tengja framkvæmdir við þetta tilboð og reyna að hafa þann hraða á, sem þarf til þess, að við getum haft þessa vöru á boðstólnum á árinu 1974. Þess vegna er þetta fyrirkomulag á frv. Það er sniðið eftir lögum sem samþ. voru á sínum tíma um undirbúningsfyrirtæki að stofnun hugsanlegrar olíuhreinsunarstöðvar, og ætlunin með þessu fyrirkomulagi er sú, að ef það kemur í ljós við þær kannanir, sem ég var að tala um, að þetta sé álitlegt fyrirtæki, þá sé hægt að hraða framkvæmdum svo mjög, að það verði unnt að framleiða þessa vöru á árinu 1974. Einmitt þess vegna fer ég þess á leit við hv. alþm., að þeir geri þetta frv. að l. fyrir jól. svo að hægt sé að hafa þennan hraða á, ef athuganir leiða í ljós, að það sé skynsamlegt. Það má minna á það í því sambandi, að þarna þarf að leggja einnig í annars konar fjárfestingar. Hið opinbera þarf að ráðast í hafnarmannvirki, vegagerð, jarðhitavirkjun og raflinu, og má áætla, að kostnaðurinn við það verði á næsta ári um 50 millj. kr., ef af þessu verður, þannig að þarna er um að ræða allverulegar fjárbagslegar skuldbindingar. Hins vegar eru kostirnir við þetta mál svo margvíslegir, — ég veit, að ég þarf ekki að taka þá fram neitt frekar, — að ég legg mikla áherzlu á, að þetta mál nái fram að ganga.

Í hv. Ed. var algjör samstaða um málið milli allra flokka, og menn unnu sameiginlega að því að greiða götu þess gegnum Ed., og ég þykist vita, að sama verði raunin hér í hv. Nd. Ég legg til, herra forseti, að málinu verði að lokinni 1. umr. vísað til 2. umr. og hv. iðnn.