15.12.1972
Neðri deild: 24. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1311 í B-deild Alþingistíðinda. (948)

108. mál, þörungavinnsla á Reykhólum

Pétur Pétursson:

Herra forseti. Aðeins nokkur orð um þetta frv., sem ég er algjörlega samþykkur, og mér finnst haldið mjög rétt og vel á þessu máli, þar sem gert er ráð fyrir, að meiri hl. hlutafjár í fyrirtækinu verði í höndum Íslendinga, en minni hl. e.t.v. í höndum erlendra aðila. En það er eitt atriði, sem mig langar til að vekja sérstaklega athygli á í þessu sambandi, og það er, að ég held, að grundvöllurinn undir þessu fyrirtæki sé í raun og veru sá, að sölusamningur hefur verið gerður til langs tíma, um þá framleiðslu, sem þarna á að verða. (Gripið fram í: Kann að verða gerður.) Kann að verða gerður. Það liggur nokkurn veginn í augum uppi, að það er a.m.k. meiningin, og einhvers staðar sá ég hér afrit af bréfi, fskj. með frv., þar sem því er hreinlega lýst yfir að viðkomandi fyrirtæki sé tilbúið að gera samninga. Það er þannig alveg augljóst, að hér eins og viða annars staðar eru það markaðsmálin, sem eru grundvöllurinn undir því, að hægt sé, að ráðast í iðnaðarframleiðslu eins og þessa.

Auðvitað er þetta fyrirtæki hluti af hinni margumtöluðu iðnbyltingu, sem ég styð hæstv. ráðh. dyggilega í. Ég vildi mega benda á, að það mætti kannske leggja meiri áherzlu á það að reyna að vinna meira úr íslenzku hráefni eða íslenzkum jarðefnum með það fyrir augum að koma upp verksmiðjum viðar um landið. Það segir sig sjálft, að þetta fyrirtæki verður mjög mikils virði fyrir það byggðarlag, sem það ris í. Við eigum hér á landi marga og góða vísindamenn á mörgum sviðum og rannsóknarstofnanir. Við ættum þannig, finnst mér, að geta lagt nokkru meiri áherzlu á margs konar hráefni, eins og t.d. vikur, perlit, basalt o.fl., sem ég veit, að verið er að vinna að, en mér finnst að þyrfti að leggja dálítið meiri kraft í.

Ég er sem sé algjörlega samþykkur frv., en legg áherzlu á, að það sé lagt í auknar rannsóknir á fleiri sviðum.