16.12.1972
Sameinað þing: 32. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1312 í B-deild Alþingistíðinda. (950)

Umræður utan dagskrár

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Í umr. utan dagskrár í Sþ. í fyrradag vakti ég athygli hæstv. ríkisstj. og þingheims á því, að hjá því gæti ekki farið, að það hefði mjög alvarlegar afleiðingar í för með sé fyrir viðskipta- og gjaldeyrismál þjóðarinnar, ef sú óvissa, sem þá var, héldist áfram varðandi efnahagsráðstafanir hæstv. ríkisstj. Ég benti á, að það væri algerlega óeðlilegt, að ríkisstj. sæti við völd og það væri vitað af alþjóð, að ágreiningur væri innan hennar sjálfrar og innan stuðningsflokka hennar um það, hvaða leiðir skyldi fara í efnahagsmálum, og þessi ágreiningur varaði dögum saman, þar eð enginn vissi, hver niðurstaðan yrði. Ég lagði áherzlu á, að brýna nauðsyn bæri til, að höggvið yrði á þennan hnút sem fyrst, helzt strax, ef komast ætti hjá mjög alvarlegum atburðum í gjaldeyris- og viðskiptamálum þjóðarinnar. Nú er það altalað hér í Reykjavík, var altalað í gærkvöld og hefur verið altalað í morgun, að í gær hafi átt sér stað stórkostlegur fjárflótti úr íslenzkum bönkum, þ.e.a.s. að stórkostlegar fjárhæðir hafi verið yfirfærðar í erlendan gjaldeyri úr ísl. kr., að greiddar hafi verið skuldir, sem ekki voru gjaldfallnar, svo að tugum, ef ekki hundruðum millj. skiptir. Um það vil ég leyfa mér að spyrja hæstv. ríkisstj., hvort hún geti upplýst þingheim og þjóðina nokkuð um þetta. Ef það er rétt, þá er það staðfesting á því, að þau varnaðaorð, sem ég mælti í fyrradag, voru ekki að nauðsynjalausu töluð. Ef þetta reynist rétt, sem ég held, að sé, þá undirstrikar það enn nauðsyn þess, að ákvarðanir verði teknar í þessum málum nú þegar, þannig að þjóðin viti, hvar hún stendur í efnahagsmálum sínum, þannig að þjóðin viti, hvers hún má vænta í byrjun næstu viku, við hvað hún á að vakna upp á mánudagsmorgun. Ef ríkisstj. tekur ekki ákvörðun í þessum efnum í dag eða á morgun, tel ég það tvímælalausa skyldu hennar að segja þegar í stað af sér.