16.12.1972
Sameinað þing: 32. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1314 í B-deild Alþingistíðinda. (952)

Umræður utan dagskrár

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Mér finnst, að hæstv. forsrh. ætti ekki að haga orðum sínum eða athöfnum þannig, að hann bæti fleiri ávirðingum á sínar herðar en hann hefur gert með frammistöðu sinni undanfarna daga. Hæstv. forsrh. hefur djörfung í sér til þess að koma hér upp í ræðustól á Alþ. og ásaka stjórnarandstæðinga fyrir orðróm um, að gengislækkun kynni að vera í vændum. Ekkert stendur um það í stjórnarblöðum, nei, nei. Það er bara í Morgunblaðinu og Vísi. — Þetta er auðvitað minni háttar atriði, hvað í blöðum stendur, en í forustugrein Tímans s.l. sunnudag var hins vegar sérstaklega bent á gengislækkun sem eina af valkostaleiðunum, og þegar alltaf er verið að tala um, að hér sé um hugsanlega valkosti að ræða, þá er þetta auðvitað ábending um, hvað e.t.v. kunni að koma til álita. En þetta er minna atriðið.

Hæstv. forsrh. stóð sjálfur fyrir nokkrum dögum í þessum sama ræðustól og var að gefa skýringar fyrir alþjóð, — sem allir hafa nú reyndar brosað að, — um það, að hann hefði ekki meint það í stjórnarsáttmála sínum, að núv. ríkisstj. mundi ekki grípa til gengislækkunar. Hún væri ekkert bundin af því að gera það ekki. Að vísu sagði ráðh.: Ég er ekki þar með að segja, að við gerum það. — Hvað er þetta annað en að koma af stað orðrómi? Þetta er hæstv. forsrh. til mikillar skammar, framkoma hans hér í dag.