16.12.1972
Sameinað þing: 32. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1322 í B-deild Alþingistíðinda. (955)

Umræður utan dagskrár

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég ætlaði mér ekki að blanda umr. um hugsanlega gengislækkun inn í þetta mál og ætlaðist ekki til þess, að aths. mínar í upphafi þingfundar yrðu til þess að efna til almennra umr. um gengisbreytingu, um það, hvað menn hefðu sagt eða hefðu ekki sagt. En það var hæstv. forsrh., sem vék málinu inn á þessar brautir, og af því tilefni finnst mér ég þurfa og eiga rétt á að gera örfáar aths.

Það var að ýmsu leyti nýr maður, sem stóð hér í ræðustólnum áðan sem hæstv. forsrh., allt annar og mun betri maður en hér stóð oft áður í 12 ár sem leiðtogi og forustumaður stærsta stjórnarandstöðuflokksins. Nú var það kjarni í málí hans, að það væri aukaatriði, hvað menn hefðu sagt, það væri algert aukaatriði, hvað hann hefði sagt um hugsanlega gengisbreytingu, aðalatriðið væri að gera rétt. Um þetta er ég honum fullkomlega sammála. Ég hef löngum haldið því fram, að það væri stjórnmálatal á sérstaklega lágu stigi, þegar röksemdir væru byggðar á því, hvað menn hefðu sagt fyrir 20 árum, fyrir 10 árum, jafnvel fyrir einu ári, ef það, sem áður hefur verið sagt, var sagt undir allt öðrum kringumstæðum en þeim, sem ríkja á þeirri stundu, sem síðustu orðin eru töluð. Hingað til hefur þetta ekki þótt mikil speki í herbúðum þeirra, sem nú mynda ríkisstj. á Íslandi. En mér þykir vænt um að heyra, að nú hefur hæstv. forsrh. lært svo mikið af tæplega tveggja ára setu í sínu virðulega embætti, að hann tekur undir þessi orð, og ég vona, að hann geri það af heilu hjarta, og efast raunar ekki um, að svo sé. En ástæðan til þess, að ég vek athygli á þessu, er sú, að maður hefur þurft að lesa það meira en þúsund sinnum í blaði hæstv. forsrh., hversu óskaplegir óbótamenn þeir Bjarni Benediktsson og Gylfi Þ. Gíslason hafi verið að viðhafa þau ummæli haustið 1968, að gengi krónunnar skyldi ekki breytt, og svo hafi því samt verið breytt. Ég hef ekki lagt það á mig að telja það og mun aldrei gera, hversu oft við höfum verið bornir sökum, þyngstu sökum, fyrir þetta í blaði hæstv. forsrh. Þegar hann nú heldur því fram réttilega hér, að slíkur málflutningur sé ósamboðinn skynsömum mönnum, þá öfunda ég ritstjóra Tímans og formann þingflokks Framsfl. ekki af þeim vitnisburði.

Sannleikurinn var sá, að þegar við Bjarni heitinn Benediktsson gáfum þá yfirlýsingu haustið 1968, að gengislækkun væri ekki fyrirhuguð, þá var hún auðvitað gefin í góðri trú og af heilum hug. Það vita allir, sem þeim málum voru kunnugir, að það var ætlun þáv. ríkisstj. að reyna að leysa þann efnahagsvanda, sem þá var fyrir dyrum, með öðrum hætti en gengisbreytingu. Við höfðum uppi tilburði í þá átt, og það vissi stjórnarandstaðan eflaust, það vissi stjórn Alþýðusambandsins, að það var vilji okkar að reyna að komast hjá gengisbreytingu og taka öðruvísi á þeim vanda, sem beið. Hitt er annað mál, að það tók enginn orð okkar um það, að ekki yrði gengisbreyting eða að við vildum komast hjá henni haustið 1968, þannig, að við værum almennt að fordæma gengisbreytingu. Það er munurinn á ummælum okkar þá og ummælum ýmissa valdamanna nú. Öll þjóðin vissi þetta Við skömmuðumst okkar ekkert fyrir það, að við höfðum áður á áratugnum beitt okkur fyrir gengisbreytingu sem einu skynsamlegu leiðinni úr þeim vanda, sem þá var við að etja. Við höfum aldrei nokkurn tíma, hvorugur okkar Bjarna Benediktssonar, sem hér hafa verið nefndir í þessu máli, sagt eitt einasta orð, sem væri almenn fordæming á gengisbreytingu sem hagstjórnartæki. Þvert á móti, við höfum sannað það með gerðum okkar hvað eftir annað, að við teldum, að undir vissum kringumstæðum væri gengisbreyting það eina rétta, sem hægt væri að gera til þess að leysa efnahagsvandann. Þess vegna þýddu orð okkar haustið 1968 ekkert annað en það, við þær kringumstæður, sem þá voru, að þótt við viðurkenndum, að gengisbreyting gæti verið öldungis rétt og hið eina rétta í mörgum tilfellum, þá teldum við, að við þáverandi aðstæður ætti að reyna önnur ráð en gengisbreytingu. hetta sögðum við, og þetta meintum við.

Þá gerist það, að Bretar breyta sínu gengi, lækka gengi pundsins. Ég held, að engum viti bornum manni hafi þá getað dottið í hug annað en að við fylgdum pundinu. Þar með var krónan lækkuð gagnvart dollar og öðrum dollaramyntum. Þá tók ríkisstj. þá ákvörðun að leysa þann vanda, sem við var að etja, með viðbótargengislækkun. Gengi krónunnar hlaut að falla, og þá sannfærðumst við um, að þann vanda, sem beið, væri hyggilegast að leysa með þeim einfalda hætti að lækka gengið nokkru meira en nauðsynlegt var og allir voru sammála um, að nauðsynlegt væri að gera vegna gengisbreytingar pundsins. Þetta er sannleikurinn um þá atburði, sem gerðust þetta margumtalaða haust.

En því miður hafa hæstv. núv. ráðh. aldrei hagað orðum sínum um gengisbreytingu og gengismál yfir höfuð að tala eins og við í fyrri ríkisstj. gerðum allan þann tíma, sem við vorum í ríkisstj., í 12 ár. Þvert á móti var meginárásarefni núv. stjórnarflokka á okkur það, að við skyldum hafa notað gengið sem hagstjórnartæki, að við skyldum hafa beitt gengisbreytingu til þess að mæta utanaðkomandi erfiðleikum og aflabresti. Í 12 ár höfum við orðið að hlusta á gagnrýni, auðvitað rangláta og auðvitað fullkomlega ósanngjarna, en í 12 ár höfum við orðið að hlusta á gagnrýni fyrir það að hafa breytt genginu til þess að leysa efnahagsvanda. Ég kvarta ekki undan gagnrýni, það eiga stjórnmálamenn auðvitað ekki að gera, jafnvel þó að hún sé ósanngjörn og heimskuleg, eins og þessi gagnrýni var. Því verður að taka. Maður verður að búast við hverju sem er af þeim, mönnum, sem átt er í höggi við, eftir því við hverja er við að eiga. En getur nokkur verið hissa á því, að ég skuli núna ekki láta eins og vind um eyru þjóta, að allt í einu skuli vera það hljóð komið í strokkinn, að nú komi gengisbreyting sannarlega til greina og sé jafnvel líklegasta úrræðið. Eftir 12 ára tal gegn gengisbreytingu er hún nú allt í einu talin koma til greina af hálfu þessara sömu manna, sem stór orð hafa notað í þessum efnum. M.ö.o.: ef genginu verður breytt núna, sem ég er auðvitað enginn maður til að spá neinu um og ætla mér ekki að spá neinu um, þá felst í þeirri ráðstöfun alger og endanleg ómerking á öllum þeim orðum, sem sögð hafa verið í Tímanum og Þjóðviljanum, sögð hafa verið af hálfu Framsfl., Alþb. og SF, af þeim fyrrnefndu í 12 ár og af hálfu hinna frá því að þeir fæddust. Við skulum bara bíða alveg rólegir eftir því, hvað hæstv. ríkisstj. kemur til með að gera. Það verður mikill grautur, sem þá þarf að borða, og ég vildi ekki þurfa að leggja það á mig að láta hann allan ofan í mig. En við skulum sjá, hvað kokvíðir sumir reynast.

Það síðasta, sem ég segi um málið, skal vera það að minna á, að jafnvel þó að hæstv. forsrh. sé nú orðinn svo sanngjarn og réttlátur og skynsamur að segja, að auðvitað geti gengisbreyting komið til greina, þá á hann fortíð í þessum efnum. Ég fagna því vissulega, að hann skuli hafa tekið þessum mikilsverðu sinnaskiptum, og vona, að þau taki einnig til formanns Framsfl. En ég kemst ekki hjá að minna á, að þangað til fyrir rúmlega viku var það skoðun Framsfl., að það ætti ekki að breyta genginu. Þangað til fyrir rúmlega viku var Framsfl. eins og Alþb. uppbótaflokkur, fylgjandi gömlu, ömurlegu uppbótaleiðinni, sem við margir höfum hörmulega reynslu af. En hvernig stendur á sinnaskiptunum? Tók hæstv. forsrh. sinnaskiptunum sjálfur? Tók hann þeim sjálfur? Og hefur hæstv. viðskrh. tekið sinnaskiptum og hæstv. iðnrh.? Það vitum við ekki? Ég heyri, að hæstv. forsrh. er á miklum batavegi. En aftur á móti heyri ég ekkert um, hvort hinum tveimur, viðskrh. og iðnrh., er nokkuð að skána. Það veit maður ekki enn. Ég get vel unnt þeim þess, að þeir skáni svolítið líka. (Gripið fram í: Það kemur allt í ljós.) Það kemur allt í ljós, það er ágætt. Við fáum heilbrigðisskýrslur eftir helgina. En það, sem ég vildi vekja athygli á, er, að afturbati hæstv. forsrh. er ekki af sjálfsdáðum. Það er ekki eigin líkamsstyrkur, það er ekki eigin andlegur þróttur, sem hefur læknað hann. Það er sessunautur hans í ráðherrastólnum, sem það hefur gert. Það vita bæði guð og menn núna, að hæstv. — (Gripið fram í: Hvernig væri að gleðjast yfir heilsubótinni?) Ég gleðst yfir henni. Þess vegna liggur svona vel á mér.

Nei, sannleikurinn er sá, að því miður hefur batinn ekki komið innan að, hann hefur komið utan að. Það vita allir, að það, sem gerzt hefur í stjórnarherbúðunum, er það, að Frjálslyndir sýndu þann stjórnmálakjark, það stjórnmálahugrekki, að varpa gömlum hugmyndum fyrir borð, varpa gömlum hugmyndum um gengismál fyrir borð og leggja fram till. um breytingu á genginu innan ríkisstj. Þetta er ekkert leyndarmál lengur. Þetta hefur komið í blöðum og því hefur ekki verið mótmælt, svo að ég er hér engu að ljóstra upp. Þá fyrst tók Framsfl. að átta sig. Þá fyrst hófust sinnaskiptin, sem mér heyrist núna, að séu orðin alger. En enn þá vitum við ekkert um ráðh. Alþb. Þeir þegja enn þá þunnu hljóði. En sem sagt, ég óska jafnvel þeim alls hins bezta í þessum efnum.

Síðustu orð mín skulu svo vera þau að leiðrétta það, sem hæstv. forsrh. fór með um þann mæta mann, Sir Stafford Cripps, þegar hann var fjmrh. á sínum tíma. Frásögn hans var ekki alveg rétt, en rétt er sagan svona: Pundið var í mikilli hættu. Sir Stafford hélt útvarpsræðu að kvöldi dags um það, að gengi pundsins yrði ekki breytt. Þar talaði brezkur fjmrh. Því var breytt um nóttina. Þegar menn vöknuðu morguninn eftir, hafði Sir Stafford sagt af sér.