16.12.1972
Sameinað þing: 32. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1326 í B-deild Alþingistíðinda. (958)

33. mál, efling Landhelgisgæslunnar

Frsm. minni hl. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Eins og fram kemur í nál. minni hl. fjvn., sem við stöndum að, fulltrúar Sjálfstfl. í fjvn., þá erum við samþykkir samþykkt þessarar till. Þegar hún kom fyrst til umr. í fjvn., bentum við á, að 1. þm. Reykv. ásamt nokkrum öðrum þm. Sjálfstfl. hafði flutt frv. til l. um breyt. á l. um Landhelgisgæzlu Íslands, sem er á þann veg, að í Landhelgissjóð skuli renna sektarfé og andvirði upptækra verðmæta vegna brota á fiskveiðilöggjöfinni og enn fremur björgunarlaun, svo sem segir í 12. gr., og jafnframt, að ríkissjóður leggi Landhelgissjóði til árlegt framlag, 75 millj. kr. Þetta frv. var flutt á síðasta þingi síðla þings og varð þá ekki útrætt, en var flutt aftur í byrjun þessa þings og vísað til allshn. Nd. 18. okt. Ég sé í fundargerðarbókum allshn., að frv. hefur verið tekið fyrir þar 7. nóv. og ákveðið að kalla á fund n. forstjóra Landhelgisgæzlunnar og ráðuneytisstjórann í dómsmrn. 14. nóv. koma þeir á fund n. til viðræðna við n., og að þeim fundi loknum er í raun og veru ekkert eftir annað en að afgreiða málið.

Fulltrúar Sjálfstfl. í fjvn. lýstu því yfir, að þeir væru algerlega sammála þeirri till., sem lægi hér fyrir frá ríkisstj. og fylgt var úr hlaði af hæstv. forsrh. og er á þá leið, að Alþ. álykti að heimila ríkisstj. að stofna til byggingar eða kaupa á nýju varðskipi fyrir Landhelgisgæzluna. En það er ekki stafkrókur um það, á hvern hátt eigi að kaupa skip eða efla starfsemi Landhelgisgæzlunnar fjárhagslega. Við vitum, hvernig staða Landhelgissjóðs er. Við höfum fengið um það upplýsingar, og þegar þetta frv., sem ég minntist á áðan, kom hér til 1. umr. í hv. þd., tók forsrh. því mjög jákvætt, en við fulltrúar Sjálfstfl. vildum fá vitneskju um það og inntum eftir því við meiri hl. fjvn., af því að þeir ættu, eins og eðlilegt er, greiðari aðgang að skoðunum hæstv. forsrh. en við, hvort hann hygðist beita sér fyrir því, að þetta frv. um að efla Landhelgissjóð yrði samþ. eða þá að það verði tekið inn í fjárlög álitleg upphæð til þess að standa undir þessum framkvæmdum og sömuleiðis að gera ákveðna áætlun um eflingu Landhelgisgæzlunnar. Þetta fékkst ekki fram. Fulltrúar meiri hl. töldu, að þetta skipti ekki máli í sambandi við samþykkt þessarar till. En við hinir erum á öðru máli. Við teljum, að það skipti afar miklu máli, hvernig eigi að standa undir kostnaðarsömum framkvæmdum og mikilvægum framkvæmdum eins og væntanlegum framkvæmdum Landhelgisgæzlunnar. Það kemur mér því á óvart, að 12. des. sé ég, að varaformaður allshn. Nd., sem gegndi störfum í n. í fjarveru formanns, skýrir frá því, að hann hafi ítrekað beiðni n. til forstjóra Landhelgisgæzlunnar um kostnaðaráætlun fyrir nýtt varðskip og fyrir endurbyggingu gæzlunnar í landi. Fulltrúar Sjálfstfl. í n. óskuðu eftir því, að afgreiðslu málsins væri hraðað og það kæmi fyrir Alþ. fyrir afgreiðslu fjárl. Mér finnst þessi bókun vera mjög einkennileg, því að það liggur fyrir hjá fjvn. ljósrit af bréfi, sem er lauslegt tilboð eða réttara sagt upplýsingar, hvað kostnaðarverð er á skipi eins og systurskipi Ægis, sem er nýjasta varðskipið. Þetta bréf fékk formaður fjvn. sent, og ég skil ekki í því, að það hefði ekki verið hægur vandi að koma þessu bréfi, þessu eina ljósriti, á milli herbergja á 1. hæð Þórshamars, til þess að allshn. hefði getað fengið að sjá þetta ljósrit, en það er á þá leið, að slíkt skip muni kosta um 22 millj. danskra kr., en þegar Ægir var byggður, var umsamið kaupverð hans um d. kr. 13 millj. 850 þús. Hækkun hefur orðið á byggingarkostn. um 59%.

Hins vegar er talið sjálfsagt að hraða mjög afgreiðslu á till. um að stofna til byggingar eða kaupa á nýju varðskipi, þar sem ekki er minnzt einu orði á fjármálahliðina, á sama tíma og frv. liggur fyrir n. allan þennan tíma, sem fjallar um það að efla Landhelgissjóðinn til þess m.a. að standa undir kaupum eða byggingu á slíku skipi eins og hér er um að ræða. Allshn. Nd. hefur ekki afgr. þetta mál og hefur í raun og veru engan rökstuðning fyrir því að vera ekki búin að afgreiða þetta mál fyrir löngu. Við eigum auðvitað enga heimtingu á því, að meiri hl. allshn. afgreiði þetta frv. algerlega breytingalaust. Þar hefur meiri hl. fullan rétt til að leggja til, að það verði fellt, ef hann vill leysa fjármál Landhelgisgæzlunnar með öðrum hætti. En á sama tíma, sem knúið er á, sem eðlilegt er, af hæstv. forsrh. að afgreiða þá till., sem ríkisstj. leggur fram, þá eigum við fullan rétt á því, flm. þessa máls, að það sé knúið á um afgreiðslu málsins í n. Það eru engin frambærileg rök fyrir því að liggja á þessu máli, eins og átt hefur sér stað.

Mér þykir leitt til þess að vita, að það þurfi að koma til karps um málefni Landhelgisgæzlunnar. En okkur er ekki sama um það, á hvern hátt þessi mál verða leyst. Það er ekki nóg að flytja till. upp á tvær línur, en láta svo ekki fylgja neitt meira, hvernig á að standa undir fjáröflun, á sama tíma og við vitum, að Landhelgissjóðurinn, eins og hann er núna, stendur engan veginn undir þeirri fjáröflun, sem þarf til þess að standa undir lánum vegna síðasta skips, hvað þá heldur að taka á sig nýjar skuldbindingar, nema bann fái aukið fjármagn. Tekjur Landhelgissjóðs á árinu 1971 voru ekki beysnar. Sektir, andvirði upptæks afla og veiðarfæra voru ekki nema 2 millj. 365 þús., björgunarlaun voru 7 millj. 297 þús., vextir 541 þús. og framlag ríkissjóðs 17 millj. 982 þús., eða alls 28 millj. 185 þús. En vextir og afborganir vegna varðskipsins Ægis námu á árinu 1971 hvorki meira né minna en 23 millj. kr. Á árinu 1972 eru sektir og andvirði upptæks afla og veiðarfæra 3 millj. 431 þús. og björgunarlaun 1 millj. 264 þús. Ég held, að menn geti ekki búizt við að öllu óbreyttu, að tekjur Landhelgissjóðs aukist mikið, a.m.k. ekki á meðan ekki eitt einasta skip er tekið í landhelgi og fært til hafnar og sektað, heldur er það eina, sem hefur verið gert, að beita veiðiþjófana hrekkjum á miðum úti með því að klippa á togvírana. En ég held, að framtíðin til friðunar íslenzkri landhelgi liggi ekki í því að hrekkja þjófana. Ég held, að það væri talin heldur skrýtin löggæzla, ef lögreglan biði við glugga á húsum, þar sem innbrotsþjófar eru, ef hún ætlaði ekki að gera annað en að klípa í rassinn á þeim og sleppa þeim svo. Ég tel, að það sé kominn tími til. að það verði látið til skarar skríða gagnvart erlendum veiðiþjófum í íslenzkri landhelgi.