24.10.1972
Sameinað þing: 6. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 232 í B-deild Alþingistíðinda. (96)

13. mál, bændaskóli í Odda

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Þessari fsp. á þskj. 13 er fljótsvarað, því að í þessu máli hefur ekkert verið unnið á þessu ári. Ég býst við, að hv. fyrirspyrjandi hafi gert sér það ljóst, að svo væri, því að það var ekki gert ráð fyrir því, að sú fjárveiting, sem var sett inn á fjárlög í fyrra til bændaskóla á Suðurlandi, væri til annars heldur en að viðurkenna, að þar skyldi bændaskóli rísa. En hún var á allan hátt of lítil, til þess að það væri hægt að nota hana til nokkurrar framkvæmdar á þessu ári. Enn fremur er það nú svo, að þegar n. sú starfaði, sem fjallaði um staðarval o.fl. í sambandi við bændaskóla á Suðurlandi, þá mun meiri hl. hennar hafa lagzt gegn því, að sá skóli yrði staðsettur í Odda, og fleiri atriði eru, sem þarf að athuga, áður en til framkvæmda kemur við bændaskóla á Suðurlandi, en að sjálfsögðu verður að því unnið.