16.12.1972
Sameinað þing: 32. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1328 í B-deild Alþingistíðinda. (960)

33. mál, efling Landhelgisgæslunnar

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Fyrst hv. 2. þm. Vestf, fór að lesa upp úr bókum allshn., get ég upplýst, að það er rétt, að allshn. óskaði eftir skýrslu frá forstjóra Landhelgisgæzlunnar um, hvað þyrfti háa upphæð til að standa straum af skipi, sem keypt yrði og væri á stærð við Ægi, en auk þess, hvað væri líklegt, að þyrfti í vexti og afborganir og til þess að byggja yfir Landhelgisgæzluna, þannig að það væri sómasamlegt að hans mati. Það er alveg rétt, að við kölluðum hann fyrir og óskuðum eftir þessu, og það er búið að ganga eftir því að fá þessa grg., en hún hefur ekki borizt okkur í hendur enn. Við erum nefnilega ekki eins glöggir fjármálamenn og hv. þm., þannig að við getum ákveðið upphæðina og sett inn í frv. án þess að kanna nánar, hvað eðlilegt væri að stæði þarna. Hann upplýsti hins vegar, að vextir og afborganir af Ægi mundu nú nema um 23 millj., en byggingarkostnaður á slíku skipi hefði hækkað um 50%. Ég veit því ekki, hvaðan hv. flm. hafa fengið þessar 75 millj., því að þeir reiknuðu með, að 50 millj. færu í að kaupa þetta skip, en síðan 25 millj. á hverju ári í að byggja yfir Landhelgisgæzluna. Mér finnst eðlilegt, að n., sem starfa, reyni að fá sem gleggstar upplýsingar um áætlanir í þessu skyni, áður en þær afgreiða sín mál. Það er ekki hægt að átelja allshn, fyrir slæleg vinnubrögð í þessu efni, og ég held, að það séu þá fleiri n., sem hafa ekki afgreitt mál, og meðferð þessa máls sé með eðlilegum hætti.