24.10.1972
Sameinað þing: 6. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 232 í B-deild Alþingistíðinda. (97)

13. mál, bændaskóli í Odda

Fyrirspyrjandi (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Ég er nú ekki með grg. frá n., sem benti á Odda sem skólastað. En ég minnist þess ekki, að meiri hl. n. hafi lagzt gegn því, að skólinn yrði reistur í Odda. N. ferðaðist mikið um Suðurland um veturinn og vorið og benti á þrjá staði, sem kæmu til greina, og öll n. taldi Odda koma til greina alveg skilyrðislaust. Þetta vildi ég taka fram, en það liggur fyrir í skjölum landbrn., og getur hæstv. landbrh. þá sannfært sig um, hvort það er rétt, sem ég hér segi.

Hitt er rétt, að þær 700 þús. kr., sem eru á fjárl. þessa árs, voru ekki ætlaðar til framkvæmda í Odda, heldur til undirbúnings búnaðarskóla í Odda. Ég tel, að það hafi vel verið hægt að nota þessar 700 þús. kr. til undirbúnings. Það er margt, sem þarf að gera, m.a. að gera skipulagsuppdrátt af staðnum, og það þarf að gera sér grein fyrir því, hvernig byggingum skal haga og hvers konar, þannig að n. gat vel hafizt handa að vinna að undirhúningi málsins. Ég vænti þess, að hæstv. landbrh. geri það, sem í hans valdi stendur, til þess að undirbúningi verði hraðað, þannig að það verði mögulegt að hefjast handa á árinu 1974 um framkvæmdir, eftir því hvaða fjármagn verður veitt á fjárlögum það ár. Það fer vel á því, að á árinu 1974 verði framkvæmdir hafnar við skólabyggingu í Odda í minningu um fyrsta skólasetur á Íslandi, sem var í Odda. Það er verðugt í sambandi við Oddastað. Að lokum má geta þess, að biskupinn og ýmsir kirkjunnar þjónar eru þessu mjög hlynntir.