16.12.1972
Neðri deild: 25. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1332 í B-deild Alþingistíðinda. (976)

4. mál, Stýrimannaskólinn í Vestmannaeyjum

Frsm. (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Menntmn. leggur til, að frv. verði samþ. óbreytt, en einstakir nm, hafa áskilið sér rétt til að flytja brtt. eða fylgja brtt., ef fram kæmu.

Megintilgangur þessa frv. er að samræma löggjöfina um Stýrimannaskólann í Vestmannaeyjum lögum um Stýrimannaskólann í Reykjavík, eftir því sem við á. Menntmn. tekur eindregið undir nauðsyn slíkrar samræmingar. Það er óhjákvæmilegt, að stýrimannaskólarnir geri sömu kröfur, hvort heldur um er að ræða inngönguskilyrði og kennslu á sömu námsstigum o.s.frv. eða þegar um að ræða sambærilega skólastarfsemi. En því verður auðvitað ekki breytt, að Vestmannaeyjaskólinn heldur aðeins uppi kennslu á 1. og 2. námsstigi.

Það kom fram í umr. í menntmn., að menn höfðu vissar áhyggjur út af því ákvæði stýrimannaskólanna og þar með þessa frv., að krafizt sé gagnfræðaprófs til inngöngu í stýrimannaskóla. Áhyggjur manna út af þessu ákvæði stafa af því, að telja má líklegt eða næstum vist, að til séu menn með góða skipstjórnarhæfileika, þótt ekki hafi þeir lokið gagnfræðaprófi. Hér getur t.d. verið um að ræða vana sjómenn eða bátaformenn, sem sýnt hafa dugnað og fiskimannshæfileika á smærri skipum, sem þeir hafa rétt til að stjórna. Slíkum mönnum kann að verða meinað að öðlast réttindi til skipstjórnar á stærri og betri fiskiskipum, ef inntökuskilyrðum laganna er fylgt eftir ströngustu bókstafstúlkun. Menntmn.- menn munu sammála um það, að rétt sé að túlka ákvæðin um inntökuskilyrðin af sanngirni og réttsýni, þegar sérstaklega stendur á, enda gerir stýrimannaskólalöggjöfin og þetta frv. sjálft ráð fyrir slíku frjálslyndi, þar sem er heimildin til þess að víkja frá skilyrðum um gagnfræðapróf og veita sérstaklega undirbúningskennslu í nauðsynlegustu námsgreinum þeim mönnum, sem hafa ekki gagnfræðamenntun. Ég held, að mér sé óhætt að fullyrða, að forráðamenn stýrimannaskólanna gera sér grein fyrir því mannlega vandamáli, sem hér er um að ræða, og það eigi ekki að vera nein sérstök hætta á því, að efnilegir skipstjórnarmenn séu útilokaðir frá inngöngu í stýrimannaskólann, vegna þess að þeir hafi ekki lokið gagnfræðaprófi. Með skynsamlegri og réttsýnni framkvæmd Stýrimannaskólalaganna á að vera hægt að koma í veg fyrir slíkt. En n. leggur sem sé til, að þetta frv. verði samþ.