18.12.1972
Efri deild: 27. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1335 í B-deild Alþingistíðinda. (984)

129. mál, Háskóli Íslands

Menntmrh. (Magnús T. Ólafsson):

Herra forseti. Hv. alþm. hafa áreiðanlega orðið þess varir, jafnvel öðrum landsmönnum fremur, síðustu árin, hve ört Háskóli Íslands hefur fært út kvíarnar. Mest er að sjálfsögðu áberandi fjölgun námsmanna. Á fjögurra ára bili, frá 1968–1972, fjölgaði innrituðum stúdentum úr 1300 í 2145 s.l. haust. Kennurum hefur fjölgað að sama skapi og þá sérstaklega stundakennurum. en reynslan sannar, bæði í Háskóla Íslands og annars staðar, að þegar mikið er um stundakennslu, þá vaxa stjórnunarstörf við skólastofnanirnar meira en annars væri, ef samsvarandi fjölgun fastra kennara ætti sér stað. Nýjar háskóladeildir og námsbrautir hafa tekið til starfa. Við háskólann eiga sér stað mjög umfangsmiklar byggingarframkvæmdir. Rannsóknarstöðum hefur fjölgað verulega, og lagt hefur verið kapp á að breyta kennsluháttum og bæta þá í mörgum greinum. Þrátt fyrir byggingarframkvæmdir er langt frá því, að þær fullnægi þörf háskólans fyrir kennsluhúsnæði af ýmsu tagi. Orðið hefur að útvega leiguhúsnæði í ýmsum borgarhlutum, koma því í kennsluhæft ástand, fylgjast með því, búa það húsgögnum og annast viðhald og umsjá kennslutækja.

Þessi öra útþensla Háskóla Íslands hefur átt sér stað með samþykki og fyrir atbeina Alþingis. Það er ljóst, að stórauknum umsvifum hlaut að fylgja aukin starfsbyrði fyrir yfirstjórn háskólans, sem fæst við æ fleiri og umfangsmeiri verkefni og vandamál. En svo er mál með vexti, að yfirstjórnin er sá þáttur í starfsemi háskólans, sem orðið hefur út undan. Það árabil, sem ég tilgreindi áðan og námsmönnum hefur fjölgað um næstum 2/3, hefur viðbót starfsmanna á skrifstofu háskólans aðeins verið ein skrifstofustúlka. Ákvarðanataka fyrir Háskóla Íslands og yfirstjórn stofnunarinnar er enn í verkahring tveggja manna, háskólarektors og háskólaritara, alveg eins og var, þegar námsmenn voru fá hundruð og kennarar fáir tugir. Ég býst við, að öllum, sem til þekkja, hafi verið ljóst, að við svo búið gæti ekki staðið öllu lengur, og það kom afar glöggt í ljós, hvílíkar veilur eru í æðsta stjórnkerfi háskólans, þegar háskólarektor veiktist skyndilega. Þá kom upp tvenns konar vandi. Bæði kom á daginn, að engin skýr ákvæði eru í háskólalögunum um, hver koma skuli í stað háskólarektors, þegar hann forfallast um stundarsakir, og í öðru lagi kom í ljós, að mjög torvelt er að valda verkefnum, sem fyrir liggja í háskólanum á verksviði rektors og háskólaritara yfir mesta annatímann, þegar aðeins einn maður, sem málum er kunnugur, er í starfi.

Þessir atburðir ýttu svo á, að háskólaráð tók málið til meðferðar og beitti sér fyrir samantekt þess frv. til breyt. á háskólal., sem hér er borin fram og hefur að markmiði að bæta úr þessum augljósu ágöllum á stjórnkerfi háskólans. Meginatriði frv. er, að stofnað skuli nýtt starf, embætti kennslustjóra, hliðstætt embætti háskólaritara. Í 1. gr. er kveðið á um starfssvið þessa nýja embættismanns háskólans og starfsskiptingu milli hans og háskólaritara og þeirra beggja gagnvart háskólarektor. Er ætlazt til, að háskólaritari og kennslustjóri hafi eftirlit með daglegri starfsemi háskólans. Þeir hlutast til um framkvæmd á samþykktum háskólaráðs og háskóladeilda og þeim ákvörðunum stjórnvalda, sem háskólann varða. Í umboði rektors og háskólaráðs hefur háskólaritari heimild til að skuldbinda háskólann og háskólastofnanir fjárhagslega. Hann hefur yfirumsjón með gerð fjárhagsáætlunar háskólans og framkvæmd hennar samkv. fjárl. og hefur umsjón með sjóðum hans. Kennslustjóra aftur á móti er ætlað að annast í umboði rektors og háskólaráðs málefni, er snerta kennslu og kennara, húsnæði háskólans og búnað þess.

Síðan er í 2. gr. ákvæði, til að fylla þá gloppu í háskólalögunum, sem í ljós kom s.l. sumar og ég hef áður getið. Í háskólal., eins og þau eru nú úr garði gerð, er ákvæði um, að varaforseti háskólaráðs taki við starfi rektors, ef hann fellur frá eða hverfur úr embætti. Hér er lagt til, að sama skipan verði lögfest, þegar svo vill til, að háskólarektor forfallast um stundarsakir eða er fjarverandi.

Komið hefur fram sú hugmynd, að bezta skipunin til frambúðar væri, að kosinn yrði vararektor á sama hátt og háskólarektor og samtímis, varamaður, sem ævinlega gæti hlaupið í skarðið fyrir rektor og hefði í starfi sínu svipaðan bakhjarl og hann í kjöri aðila, sem atkvæðisrétt hafa um kjör háskólarektors. Þessi hugmynd verður athuguð nánar ásamt öðrum í könnun, sem hafin er innan háskólans á stjórnsýslu stofnunarinnar fyrir frumkvæði rektors og háskólaráðs. En þær breytingar á háskólal., sem lagðar eru til í frv., sem hér er lagt fram, eru svo brýnar, að ótækt þykir að láta þær bíða niðurstöðu heildarendurskoðunar háskólastjórnkerfisins.

Ég leyfi mér, herra forseti, að óska eftir að málinu verði að þessari umr. lokinni vísað til hv. menntmn.