18.12.1972
Efri deild: 28. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1338 í B-deild Alþingistíðinda. (989)

131. mál, vegalög

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Vissulega er þetta mál seint á ferðinni, nú þegar svona margt ber að. Þrátt fyrir yfirlýsingu hæstv. ráðh. er það auðvitað angi af því heildardæmi, sem hæstv. ríkisstj. er að káka við að reyna að leysa. Það gefur auðvitað auga leið. Það kemur einnig fram í sambandi við frv. um lántökur eða framkvæmdaáætlun að það var auðvitað reiknað með þessu, þó að þetta sé svona geysilega seint á ferðinni, að það vinnst nánast ekki almennilegur tími til að afgreiða málið. Það er ekki nýtt, að benzín hafi hækkað hér á landi, og má búast við, að slík þróun eigi sér stað áfram. Þegar fyrrv. samgrh. lagði hliðstætt frv. fram, hafði hann ítarlega skýrslu um verðlag á benzíni annars staðar í Evrópu, og gátum við haft hana til samanburðar. Ef til vill getur samgn. fengið slíka skýrslu, þó að tími sé naumur. Ég á sæti í n., og mun a.m.k. fara fram á að fá að sjá, hvernig þróunin hefur átt sér stað í því efni í öðrum löndum. En hins saknaði ég í ræðunni, hvort endalaust á að vera að hækka bifreiðarekstur landsmanna. Ef ég man rétt, þá er svo komið, að ein bifreið er á, ef við teljum í tölum, 4.4 eða 4.5 manns.

Það óumdeilanleg staðreynd, að bíllinn er orðinn þarfasti þjónninn hér á landi. Það snertir því hverja fjölskyldu meira og minna, hvernig verðlag er í kringum bílinn, innkaupsverð og rekstrarverð. Það kom ekkert fram, á einn eða annan veg, að nokkuð væri á döfinni annað en að bíllinn hækkaði fullum fetum í sambandi við gengisbreytingar og aðrar álögur, sem í vændum eru. Þetta tel ég mjög miður. Ég trúi því ekki, fyrr en ég tek á, að hæstv. ráðh. leggi því lið, að bílarnir hækki. Hverja vantar bíl? Hvaða fjölskyldur eru það, sem eiga ekki bíl? Eru það ekki fjölskyldur, sem þessi hæstv. ráðh. hefur æ ofan í æ talið sig vera talsmann fyrir? Auðkýfingarnir, þessir með breiðu bökin, eru ekki á fjórum fótum núna og í vandræðum með að kaupa bíl, heldur fólkið, sem hæstv. ráðh. hefur viljað bera önn fyrir skv. eigin orðum á undanförnum árum á þinginu. Ég get fallizt á að hækka benzínið, ef því fylgir það, að aðrar kvaðir á bílnum lækki, ella er hér aðeins verið að auka mjög verulega skattheimtu og þyngja rekstur bílsins fyrir almenning, sem er gersamlega óhjákvæmilegur. Ef maður hugleiðir þetta með tilliti til hinna dreifðu byggða, sem ráðh, er einmitt umboðsmaður fyrir hér á hv. Alþingi, þá er þetta enn tilfinnanlegra. En það eru einmitt margir sem hafa átt í erfiðleikum og vantar 50–100 þús. kr. til þess að geta eignazt bílinn, og nú vantar á 200 þús. Þeir hafa ekki tök á því eftir þetta og því síður ef þeir sjá, að allur kostnaður vex einhliða í sambandi við bílinn.

Tekjuöflun í vegasjóð er auðvitað óhjákvæmileg. Við gerum allir kröfur um góða vegi, við viljum allir leggja til að hafa góða vegi. Það hafa verið teknar í það lántökur erlendis og safnað í það fé innanlands. Við stöndum allir að því meira og mínna og erum tilbúnir að taka á okkur ónot fyrir það. Ég er alveg sammála hæstv. ráðh. í þessu sambandi, að það kostar vissa gagnrýni að leggja mikið fé í vegi. Sumir segja, að við förum of hratt, aðrir segja, að við förum of hægt og jafnvel mismunum svæðum á landinu. Þetta er matsatriði. En það hefur verið ríkjandi sú stefna, að við leggjum beztu vegina næst þéttbýlinu, þar sem mest umferðin er, vegna þeirrar einföldu staðreyndar, að gífurlegt álag á vegunum fletur þá bókstaflega út, gerir þá svo óhæfa í rekstri vegna viðhalds. Ekki er kostur annars en að koma varanlegu slitlagi á sem fyrst, sbr. veginn Grindavík–Keflavík, er stendur engan veginn undir því álagi, sem á veginn er lagt, enda er þess nú skammt að bíða, að menn sjái, að ekki er hægt að komast hjá því að setja þar varanlegt slitlag.

Ég vil ekki lengja þessar umræður, málið er algerlega á síðasta snúning, ef á að koma því gegnum Alþingi. Ég vildi koma þessum athugasemdum á framfæri við 1. umr. og einnig, að samgn. eigi þess kost að gera samanburð við verðlag í öðrum löndum varðandi þá þætti, sem frv. fjallar um.