18.12.1972
Efri deild: 28. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1340 í B-deild Alþingistíðinda. (990)

131. mál, vegalög

Eggert G. Þorsteinsson:

Herra forseti. Það er náttúrlega að snúa hlutunum við, þegar fullyrt er af hæstv. félmrh., að innihald þessa frv. sé ekki hluti af stærra vandamáli. Að sjálfsögðu stendur það í beinu sambandi við þann vanda, sem ríkisstj. er að glíma við. Skulum við ekki blekkja okkur á því. Það er einnig blekking að halda því fram, að bíll sé lengur eitthvert lúxustæki, sem menn geti verið án. Sannleikurinn er sá, og það kom fram í ræðu hæstv. félmrh. áðan, að hann teldi það ekki vera erfiðan bita fyrir sig að kingja að bera þetta frv. fram, þótt það þýði stórkostlegar álögur á allan almenning í landinu. Bíll er orðinn nánast eitt af þeim heimilistækjum, sem talið er hverri fjölskyldu nauðsyn. Það er ekki eingöngu vegna þessara aðila, sem hafa komizt yfir bíl, sem ég hef áhyggjur. Getur hæstv. ráðh. upplýst okkur t.d. um, hvað gjöld með almenningsvögnum, langferðabílum og strætisvögnum Reykjavikur muni hækka? Hvað hyggst ríkisstj. leyfa mikla hækkun á þessum daglegu útgjöldum almennings út á þær auknu tekjur, sem menn í landinu eiga að fá? Þetta vildi ég gjarnan, að yrði gert heyrinkunnugt, því að það er óumdeilanlegt, að það er lægst launaða fólkið, sem notar þessa almenningsvagna, og hver á kjararýrnunin með tilkomu þessa frv. að verða? Við þessu vildi ég gjarna fá einhver svör, áður en málið heldur miklu lengra.