06.12.1973
Neðri deild: 37. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1107 í B-deild Alþingistíðinda. (1000)

129. mál, kaupstaðarréttindi til handa Bolungarvíkurkauptúni

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Fyrir Alþingi liggja nú 3 frv. um sama efni, þ. e. a. s. um kaupstaðarréttindi til handa 3 sveitarfélögum: Seltjarnarneshreppi, Dalvíkurkauptúni og það mál, sem hér er verið að ræða, Bolungarvík, Hólshreppi. Félmn. hefur haft þessi mál til athugunar, og þar hafa komið til athugunar og umr. öll þau atriði, sem hafa dregist inn í þessa umr., um vandkvæði þeirra sveitarfélaga, sem eftir eru í sýslufélögunum, og hvernig byrðar færast til á þau hök, sem þá eru eftir, og mörg fleiri atriði. Það hefur líka verið athugað í n., að ein 10–12 sveitarfélög eru með svipaða íbúatölu og sum miklu hærri íbúatölu en þau sveitarfélög, sem nú sækja um kaupstaðarréttindi, og má því búast við, að hvað af hverju kunni þau að sækja um kaupstaðarréttindi, þau sveitarfélög, sem nú sækja um þann rétt, öðlast hann, svo framarlega sem fólkið þar kærir sig um það. Með þessu létta þau af sér byrðum, eins og hér hefur verið nefnt, og takast á hendur aðrar byrðar, sem fylgja kaupstaðarréttindunum.

Það er líka lítandi á það, að verði þessi 3 sveitarfélög kaupstaðir, þá stofnast ný embætti og nýjar embættisskrifstofur. Bæjarfógetaembættinu fylgir starfslið, sjálfsagt, og þannig skrifstofuhald, og þó að menn tali mikið um, að þeir séu mjög andvígir útvíkkun embættismannakerfisins, ríkisbáknsins, þá myndast þetta nú svona. Það er verið að verða við óskum hinna og þessara um aukna þjónustu, svo sem fylgir t. d. þessu, að sveitarfélag gerist kaupstaður. Þarna yrðu þá 10–12 bæjarfógetaembætti, að vísu Bolungarvík með lögreglustjóraembætti fyrir. Einstöku sveitarfélög, sem hér koma til greina, eru máske þannig sett, en í flestum tilfellunum mundi þessu fylgja stofnun bæjarfógetaembættis, bæjarfógetaskrifstofu og sýnilega margra tuga embættismanna í kerfið í viðbót við það, sem nú er.

Vissulega er rétt, að það er sjálfsagt að taka öll þessi mál til athugunar og einnig það, hvernig sýslufélögin verða stödd að þessari breytingu gerðri.

Mig minnir, að frv. um kaupstaðarréttindi til handa Dalvíkurkauptúni sé flutt af þm. úr því kjördæmi og 1. flm. sé einmitt hv. þm., sem hér talaði áðan, Stefán Valgeirsson, og vil ég því spyrja hann nú, því að það skiptir nokkuð n., sem fjallar um þessi mál. hvort hann sé að mæla gegn þessu frv., sem hann er flm. að. Það getur haft áhrif á okkur í n. um afgreiðslu þessara mála allra.