06.12.1973
Neðri deild: 37. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1107 í B-deild Alþingistíðinda. (1001)

129. mál, kaupstaðarréttindi til handa Bolungarvíkurkauptúni

Jón Skaftason:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð í tilefni þeirra umr., sem hér hafa orðið um frv. um kaupstaðarréttindi fyrir Bolungarvík. Ég hafði ætlað að minnast örfáum orðum á þá, — ég vil segja dálítið skrýtnu ræðu, sem hv. 3. þm. Norðurl. e. flutti áðan, sérstaklega með hliðsjón af því, að hann mun vera 1. flm. að frv. um kaupstaðarréttindi fyrir Dalvík, en síðasti ræðumaður vék að því, svo að ég skal láta það vera.

Ástæðan til þess, að ég kveð mér hljóðs um þetta mál, er sú, að ég vil varpa þeirri spurningu fram til íhugunar fyrir hv. þm., hvort þeir telji það yfirleitt rétta afstöðu, að Alþingi neiti fjölmennum sveitarfélögum um að stofna hjá sér kaupstað, þegar fyrir hendi er alger samstaða heima fyrir hjá þeim, sem búa í viðkomandi sveitarfélagi. T. d. í sambandi við Seltjarnarnesið eru allir flokkar og allir hreppsnefndarfulltrúar sammála um að æskja eftir kaupstaðarréttindum, og ekki einasta það, heldur leggja heimamenn svo mikla áherslu á, að þetta geti orðið, að þeir bjóða það fram, sem ég held, að sé einsdæmi, eða ég þekki ekki dæmi um það, — þeir bjóða það fram að greiða sjálfir mjög verulegan hluta af þeim kostnaði, sem kann að verða fyrir ríkisvaldið við þá breytingu, að á Seltjarnarnesi komi kaupstaður í stað hreppsfélags. Hreppsnefnd Seltjarnarneshrepps hefur skrifað bréf til alþm. Reykn. a. m. k., og ég hygg, að nm. í félmn. Nd. hafi fengið afrit af því bréfi, þar sem þeir taka það fram og bjóða sérstaklega að leggja væntanlegu bæjarfógetaembætti til húsnæði fyrir rekstur bæjarfógetaembættisins á sinn kostnað. (Gripið fram í: Um aldur og ævi?) Það er ekkert tímamark í bréfinu, svo að það verður að skilja það þannig væntanlega.

Ég skal viðurkenna, að það geta á sumum stöðum komið upp nokkur vandamál við það, að hreppsfélagi er breytt í kaupstað, og hér hefur verið bent á nokkur þeirra. En ég hygg, að ekkert þessara vandamála sé fyrir hendi í Kjósarsýslu, eins og raunar hv. 11. landsk. þm. vék hér að áðan, þó að sú breyting yrði gerð, að Seltjarnarnes yrði gert að kaupstað. Og af því að sumir ræðumenn hafa vikið að því, að leggja bæri aðaláhersluna á mannfjöldann í viðkomandi sveitarfélagi, þá er augljóst mál, að það eru ekki mörg hreppsfélög í landinu, sem hafa fleiri íbúa en Seltjarnarnes hefur í dag, og fer þeim mjög fjölgandi ár frá ári, þannig að það er ráðgert, að í lok yfirstandandi kjörtímabils verði fast að 4000 íbúar í Seltjarnarnesi.

En aðalatriðið er þetta: Er það skynsamleg afstaða á Alþingi að standa gegn óskum sveitarfélaga, þar sem allir eru sammála um að æskja eftir breytingu? Lög um sveitarstjórnarmál hafa verið mörg ár í endurskoðun, að því er ég best veit, og fyrirkomulag þessara mála í heild þyrfti vafalaust að endurskoða og koma betri skipan á þau mál. En ég teldi það jaðra við það að ráðast á sjálfsákvörðunarrétt íbúa viðkomandi sveitarfélaga, ef Alþingi t. d. neitaði um það, að Seltjarnarneshreppur gæti orðið að kaupstað.