06.12.1973
Sameinað þing: 31. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1110 í B-deild Alþingistíðinda. (1013)

41. mál, fjárreiður stjórnmálaflokka

Flm. (Ragnar Arnalds) :

Herra forseti. Á þskj. 42 flytjum við þrír þm. Alþb., Jónas Árnason, Helgi F. Seljan og ég, till. til þál. um rannsókn og lagasetningu varðandi fjárreiður stjórnmálaflokka.

Eins og fram kemur í grg., er það tilefni þessarar till., að af hálfu Sjálfstfl. hefur að undanförnu verið kastað mjög alvarlegum aðdróttunum í garð tveggja annarra stjórnmálaflokka, Framsfl. og Alþb. Morgunblaðið, málgagn flokksins, hefur hvað eftir annað að undanförnu rætt um fasteignabrask og dularfullar fjárreiður þessara flokka, og formaður Sjálfstfl. hefur tekið mjög hraustlega undir þessar ásakanir í ríkisútvarpinu og sérstaklega sakað Alþb. eða fyrirtæki í tengslum við það um að hafa komist yfir fasteignir með grunsamlegum hætti. Nú er það að vísu svo, að fyrrnefnt blað, sem kennir sig við morguninn, hefur heldur illt orð á sér hvað varðar umgengni við sannleikann, enda er það öllum kunnugt og varla í frásögur færandi, að blaðið stendur fyrir kraftmikilli fjöldaframleiðslu á ýmiss konar óhróðri og vandlega undirbúnum lygafréttum um athafnir og störf pólitískra andstæðinga. Fáir hefðu því kippt sér upp við þessar órökstuddu, en stóryrtu aðdróttanir, ef þær hefðu aðeins komið fram í hinum venjubundna og nafnlausa ósannindavaðli Morgunblaðsins, sem æ færri taka mark á, sem betur fer. Hitt er að sjálfsögðu miklu alvarlegra, þegar formaður stærsta stjórnmálaflokksins kemur fram fyrir þjóðina í útvarpi og hefur uppi slíkar ásakanir. Þá er gerð krafa um rökstuðning. Það er gerð sú lágmarkskrafa, að einhver grein sé gerð fyrir málavöxtum. Menn ganga út frá því, að stærsti stjórnmálaflokkurinn hafi ekki valið einhvern venjulegan gasprara í formannsstöðu, heldur mann, sem getur gert grein fyrir fullyrðingum sinum og hefur einhverja hugmynd um, hvað hann er að segja. Tilgangurinn með flutningi þessarar till. er því einkum og sér í lagi að gefa Sjálfstfl. og formanni hans tækifæri til þess að færa rök fyrir máli sínu við opinbera rannsókn, sem fram yrði látin fara um fjárreiður og eignir stjórnmálaflokkanna.

Okkur Alþb.-mönnum er það beinlínis ánægjuefni, að fjárreiður flokks okkar séu nákvæmlega rannsakaðar. Þar höfum við engu að leyna. Hitt kæmi þá berlega í ljós, sem ekki á að vera neitt leyndarmál, að stjórnmálaflokkar, sem ekki hafa til annarra að leita en almennra stuðningsmanna úr hópi íslenskra launamanna, búa raunverulega við þröngan fjárhag.

Morgunblaðinu verður tíðrætt um dularfullar tekjur stjórnmálaflokka. En þá fyrst nálgast menn að sjálfsögðu sannleikann um fjárreiður flokkanna, ef reynt er að kanna útgjöld þeirra og þ. á m. starfsmannafjölda. Hvað Alþb. snertir, þá segir það sína sögu, að ef undan er skilinn starfsmaður þingflokks Alþb., hefur flokkurinn og flokksfélög hans ekki að jafnaði greitt meira í launakostnað en sem nemur launum eins starfsmanns, nema í 1–2 mánuði fyrir hverjar kosningar, þegar fleiri starfsmenn hafa verið ráðnir með launum.

En hver eru svo útgjöld og umsvif annarra stjórnmálaflokka? Sjálfsagt hafa Alþfl. og SF svipaða sögu að segja og við Alþb-. menn, að ég nú tali ekki um nýjasta flokkinn, þann Frjálslynda, en starfsmannafjöldi hjá Framsfl. mun vera aðeins meiri en hjá þeim flokkum, sem minni eru. Aftur á móti er enginn vafi á því, að forvitnilegast af öllu er einmitt að skoða fjárreiður þeirra, sem í glerhúsinu búa og steinunum kasta, fjármál Sjálfstfl., sem bersýnilega ræður yfir margfalt meira fjármagni en nokkur annar íslenskur stjórnmálaflokkur, enda starfsmannafjöldinn eftir því.

Það er einmitt einn megintilgangurinn með flutningi þessarar þáltill., sem vafalaust verður samþ. með atbeina sjálfstæðismanna eftir það, sem á undan er gengið, að tækifæri fáist til þess að kanna tengslin milli Sjálfstfl. og undirheima fjármálalífsins á Íslandi.

Hv. þm. Matthías Bjarnason, játaði í umr. á Alþ. hinn 12. nóv., s. l., að Sjálfstfl. hefði árlega haldið mikla veislu fyrir fjárhagslega styrktarmenn sína, og varð nokkuð tíðrætt um þessa veislu. Enginn þarf að efast um, að framlög þessara ágætu styrktarmanna hafa verið býsna há, úr því að ekki dugði minna til sem kvittun fyrir framlagið en ágæt veisla, sem vafalaust hefur kostað þúsundir kr. á hvern boðsgest. En spurningin er: Fyrir hvaða þjónustu af hálfu Sjálfstfl. hafa fjármálamennirnir verið að gjalda með þvílíkum stórgjöfum, að ekki dugði minna til en veisluboð sem kvittun og ofurlítill þakklætisvottur fyrir viðskiptin? Það er einmitt þetta, sem þarf að rannsaka, og það verður að sjálfsögðu að gera með náinni hliðsjón af stjórnmálaferli Sjálfstfl. undangengin ár.

Annað meginatriði till. er, að undirbúið verði frv. til 1. um fjárreiður stjórnmálaflokkanna og eftirlit með þeim. Ég vil taka það skýrt fram, að enda þótt þess sé ekki sérstaklega getið í till., er að sjálfsögðu við það miðað, að stjórnmálaflokkarnir allir verði hafðir með í ráðum við undirbúning þessarar löggjafar. Samkv. þáltil. er ráð fyrir því gert, að ríkisstj. leggi fram stjfrv. um þetta efni, en við undirbúning málsins yrði að sjálfsögðu starfandi n. skipuð fulltrúum allra stjórnmálaflokka.

Hið fyrsta, sem skilgreina þyrfti í lögum þessum, er þá að sjálfsögðu það, til hverra lögin eiga að ná og hvað þarf til, að um stjórnmálaflokk sé að ræða samkv. skilningi l. Það er einmitt kominn tími til, að sett sé ítarleg löggjöf um stjórnmálaflokkana, réttindi þeirra og skyldur, enda í rauninni stórfurðulegt, hve íslensk löggjöf er fátæk af ákvæðum um stjórnmálaflokka, jafnveigamiklu hlutverki og þeir gegna í þjóðfélagi okkar. Í stjórnarskrá lýðveldisins er satt að segja hvergi minnst á stjórnmálaflokka, en hins vegar eru þingflokkar einu sinni nefndir á nafn í tengslum við úthlutun uppbótarþingsæta. Í kosningalögum eru aftur á móti nokkur ákvæði, sem snerta stjórnmálaflokka, og í l. um sérfræðilega aðstoð við þingflokka. Þetta eru einu ákvæðin, sem til eru í l. um stjórnmálaflokkana, og sjá allir, sem til þekkja, að þetta ern harla fátækleg ákvæði og brotakennd.

Staðreyndin er sú, að hugtakið stjórnmálaflokkur á sér skemmri sögu í íslenskri löggjöf en margir halda. Í stjórnarskrá og lögum var hvergi minnst yfirleitt einu einasta orði á flokka, hvorki þingflokka né stjórnmálaflokka, fyrr en með setningu stjórnskipunar- og kosningalaga 1934, en þá voru í fyrsta skipti sett ákvæði um uppbótarþingsæti til jöfnunar milli þingflokka. Þá höfðu að vísu verið í l. um 19 ára skeið ákvæði um landskjörna þm., frá 1915, að landskjör 6 þm. var ákveðið, og það kom í staðinn fyrir konungkjörna þm. Var það í fyrsta sinn, sem hlutbundnar kosningar komu inn í löggjöf um kosningar til Alþingis. En landskjör var þó aðeins tengt framlögðum listum, en ekki viðgreindum stjórnmálaflokkum. Landskjörið átti þó áreiðanlega meiri þátt í því en nokkuð annað að grundvalla varanlega flokkaskipan.

Einmitt þetta, hvað löggjafinn hefur verið hirðulaus um að setja ákvæði um réttindi og skyldur stjórnmálaflokka, veldur því, að oft koma upp margs konar vandamál og alvarleg ágreiningsefni, sem valda óþægilegri óvissu. Svo að dæmi séu nefnd, má nefna réttinn til nafns stjórnmálaflokks og það náskylda vandamál. þegar tveir andstæðir aðilar gera tilkall til þess að fara með umboð flokks. Minna má á andstæða úrskurði landskjörstjórnar og yfirkjörstjórnar varðandi atkv. Alþb. í kosningunum 1967 og deilur um flokksfélag SF í Reykjavík fyrir einu ári. Það er einnig staðreynd, að hugtakið þingflokkur hefur tvenns konar merkingu í lögum. Samkv. kosningal. getur einn þm. kjörinn í kjördæmi talist þingflokkur, en samkv. l. um sérfræðilega aðstoð við þingflokka er þingflokkur samkv. 3. gr. l. samtök a. m. k. tveggja eða fleiri þm., sem eru fulltrúar stjórnmálaflokks, sem hér hefur komið á fót landssamtökum, en einn þm. telst utan flokka, þó að hann hafi myndað um sig stjórnmálaflokk. Að sjálfsögðu er þetta augljóst ósamræmi í lagasetningu um stjórnmálaflokka. Eins má nefna opinbera styrki til blaðaútgáfu. Aðeins þau blöð hafa fengið fram að þessu framlög, sem tengd eru stjórnmálastarfsemi með fulltrúa á Alþ. En vegna þess að ekki er við nein lagaákvæði að styðjast í þessu efni, hafa komið upp ýmiss konar álitamál og ágreiningsefni við skiptingu fjárins. Þessi atriði og mörg fleiri þarf að taka afstöðu til með setningu sérstakrar löggjafar um réttindi og skyldur stjórnmálaflokkanna. En í þessari löggjöf yrði þá jafnframt kveðið sérstaklega á um fjárreiður stjórnmálaflokkanna og eftirlit með þeim og jafnframt fjallað um fjárhagslegan stuðning ríkisins við starfsemi flokkanna.

Í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins sunnudaginn 4. nóv. s. l. var fjallað um þetta efni með nokkuð óvenjulegum hætti, og þar var m. a. ritað, með leyfi forseta:

„Auðvitað þurfa stjórnmálaflokkar í nútíma þjóðfélagi að hafa talsverðar tekjur. Lýðræðislegri stjórnskipun verður ekki haldið uppi, nema stjórnmálaflokkar starfi. Þeir þurfa á að halda allmiklu starfsliði, og þeir þurfa að kosta margháttaða útbreiðslustarfsemi. Í sumum löndum hefur sá háttur verið upp tekinn, að ríkisvaldið greiði fé til starfsemi stjórnmálaflokkanna. Sá háttur er þó heldur ógeðfelldur, því að vissulega á að mega gera ráð fyrir því, að flokksmenn í hinum ýmsu stjórnmálaflokkum vilji nokkuð á sig leggja til að treysta þær hugsjónir og efla þá baráttu, sem þeir telja, að muni leiða til farsældar. Í stað ríkisstyrkja væri miklu geðfelldara, að stjórnmálaflokkarnir öfluðu alls þess fjár, er þeir þurfa á að halda, með frjálsum samskotum. Virðist ekkert eðlilegra en að slíkar gjafir til stjórnmálaflokka séu skattfrjálsar að vissu marki, með sama hætti og er um gjafir til líknar- og menningarmála. Stjórnmálaflokkarnir gæfu þá upp, hverjir það væru, sem lagt hefðu fram fé til þeirra, og gefandanum væri heimilt að draga fjárframlögin frá tekjum sínum á skattskýrslum.“

Hér er sem sagt boðað berum orðum, að stjórnmálaflokkarnir eigi fyrst og fremst að lifa á sníkjum. Bréfritari Morgunblaðsins gerir sér grein fyrir því, að stjórnmálaflokkarnir geta ekki haldið uppi þeirri margbrotnu starfsemi, sem nútímaþjóðfélag gerir kröfu til. með almennum félagsgjöldum, eins og venjuleg félög í landinu, a. m. k. ekki almennum félagsgjöldum einum saman, og þá er það till. hans, að flokkarnir lifi fyrst og fremst á gjafmildi skjólstæðinga sinna og umbjóðenda. Og þetta kallar Morgunblaðið geðfelldara skipulag.

Ég vil leyfa mér að varpa fram þeirri spurningu, hvort það sé þá ekki með sömu rökum geðfelldara skipulag, að embættismenn ríkisins hafi lifibrauð sitt af gjöfum frá þeim, sem þeir veita almenna þjónustu, í stað þess að þiggja laun frá ríkinu, sem eru nú orðin býsna há og talsverður baggi á ríkissjóði. Ég skal ekki segja, hverju Morgunblaðið svarar spurningu eins og þessari. En víst er, að ýmsir þeir, sem Morgunblaðið hefur dáð hvað mest, svo sem Agnew, fyrrv. varaforseti Bandaríkjanna, hafa einmitt talið þetta geðfellda lausn á fjárhagsvandræðum embættismanna. Hins vegar láðist Agnew varaforseta algerlega að benda á það snjallræði, sem bréfritari Morgunblaðsins kemur fram með, að gjafir gefnar í stjórnmálalegum tilgangi eigi að vera skattfrjálsar ofan á allt annað fyrir gefandann. Svo langt gekk hann ekki, enda að sjálfsögðu nokkuð óvíst, hvort hugmynd Morgunblaðsins hefði mikið bætt fyrir honum. (Gripið fram í: Ef hann er talinn til líknarfélaga.) Já, e. t. v.

Ég vil þá að lokum spyrja: Hvað felur þessi hugmynd Morgunblaðsins um skattfrelsi gjafa til stjórnmálaflokka raunverulega í sér? Hver á raunverulega að borga brúsann? Ég held, að menn þurfi ekki að velta þessari spurningu lengi fyrir sér. Að sjálfsögðu er það ríkið. Hér er sem sagt ljóslega um að ræða till. um beinan ríkisstuðning við stjórnmálaflokka, að vísu ekki stuðning, sem greiddur er beint úr ríkiskassanum, en minnkar tekjurnar í ríkiskassann, þannig að það kemur nokkuð út á eitt. Munurinn er hins vegar aðeins sá, að samkv. till. Morgunblaðsins á ekki að skipta framlögðu fé til stjórnmálaflokkanna eftir einhverjum lýðræðislegum reglum, heldur eiga fjármálamennirnir í þjóðfélaginu raunverulega að ráða því, hvert þessi ríkisstuðningur rennur. Slíkt skipulag væri ekki aðeins til þess fallið að ýta undir mútugjafir og ýmiss konar spillingu í stjórnmálalífi, heldur væri um leið verið að trygg,ja, að stuðningur ríkisvaldsins við stjórnmálaflokka yrði framkvæmdur á eins óréttlátan og ólýðræðislegan hátt og nokkur leið er að hugsa sér.

En hver er svo sem hissa á því, að Morgunblaðið og ritstjórar þess komi með till. eins og þessa? Hitt tel ég öruggt, að þessi till. Morgunblaðsins mun ekki fá mikinn hljómgrunn í öðrum flokkum en Sjálfstfl., heldur tel ég talsverðar vonir til þess, að samstaða náist um það, að stuðningur við stjórnmálaflokkana af almannafé verði veittur á eðlilegan og lýðræðislegan hátt, eftir föstum, sanngjörnum reglum.

Herra forseti. Ég þarf ekki að hafa fleiri orð um þessa till. Ég vil leyfa mér að leggja til, að að lokinni þessari umr. verði umræddri till. vísað til hv. allshn.