06.12.1973
Sameinað þing: 31. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1121 í B-deild Alþingistíðinda. (1017)

43. mál, samgönguáætlun fyrir Norðurland

Flm. (Lárus Jónsson) :

Herra forseti. Hæstv. forsrh. talaði í þessu máli, sem hér er til umr., síðast þegar það var hér á dagskrá, og gerði nokkrar aths. við mál þetta og kom þar fram með ýmislegt, sem ég vildi koma fram leiðréttingu við. Hæstv. ráðh. var ekki hér, þegar taka skyldi þetta mál síðast á dagskrá, þannig að ég tel, að þótt ég hefði viljað gjarnan, að hann væri hér viðstaddur, þegar ég gerði þessar aths. við hans mál, þá tel ég, að málið megi ekki dragast öllu lengur, og því vil ég koma hér örstuttum aths. á framfæri, sem verða miklu minni, vegna þess að hæstv. ráðh. er ekki viðstaddur.

Hann taldi, að ýmislegt af því, sem hefði fram komið í máli mínu, hefði heldur mátt bíða framboðsfunda á Norðurlandi en það ætti erindi inn á Alþ. Nú var margt af því, sem ég sagði, í þeim skilningi þingmál, að ég henti þar á m. a., að Alþ. hefði gert ákveðnar samþykktir um samgönguáætlun fyrir Norðurland, sem hefðu ekki verið framkvæmdar af hæstv. ríkisstj., og ég fæ ekki annað séð en það sé mál, sem hreyfa eigi á hv. Alþ., sjálfu. Hér á ég m. a. við það, að 20 millj. kr., sem hið háa Alþ. samþykkti að verja til samgöngubóta á Norðurlandi á árinu 1972, þeim fjármunum var aldrei varið það ár til þessara hluta og ekki heldur á árinu 1973. Hann ræddi um það, að það væri ekki raunhæft að tala um tölur, sem settar væru fram í undirbúningsvinnu áætlanagerðar. Hann talaði um, að þær væru ekki skornar niður. Að vissu leyti er þetta rétt. En samgönguáætlun fyrir Norðurland var þannig unnin, að 1972 og 1973 var áætlunin gerð aðeins fyrir eitt ár í senn og tíminn notaður fram á vor til þess að skera niður einstaka verkþætti áætlunarinnar. Hér er að sjálfsögðu ekki um að ræða eðlileg áætlanavinnubrögð, og það er ekki hægt að verja þetta með því að segja, að það sé eðlilegt að skera niður slíkar framkvæmdir fram í rauðan dauðann, þegar einungis er áætlað eitt ár fyrir fram. Allt annað væri, ef áætlun væri í undirbúningi fyrir 4 eða 5 ár og það kæmu fram ýmsar till. á undirbúningsstigi hennar og endanleg áætlun, sem yrði samþykkt, yrði framkvæmd. Það er allt annað mál en þegar skorið er niður eitt ár í senn af áætlun, sem á að vera til lengri tíma.

En það, sem ég ætlaði nú fyrst og fremst að leiðrétta hjá hæstv. forsrh., var það, að hann talaði hér um atvinnumálaþátt Norðurlandsáætlunar, og það virtist vera skoðun hans, að þarna væri um þarft og gott ritverk að ræða, en væru tómar hugleiðingar, eins og hann sagði, um það, sem gera þyrfti, en ekki neinar áætlanir, sagði hann orðrétt, þannig að þær væru tengdar neinu fjármagni. Hér er um algera missögn að ræða og í rauninni furðulega vanþekkingu af einum þm. Norðlendinga að halda þessu fram, því að í atvinnumálaáætlun fyrir Norðurland er sett fram, hversu miklu fjármagni á að verja á áætlunartímabilinu. Þar var um 483.4 millj. að ræða, og af því voru 176 millj. lánsfé, sem útvegað var sérstaklega í þessu skyni erlendis frá. Einnig var hér um að ræða atvinnumálaáætlun og útilokað að gera annað en það, sem var gert í henni, að leggja til, að ákveðin stefna yrði tekin upp í atvinnumálum, bæði með því, hvernig þessu fjármagni yrði varið, og á annan hátt. Þessi stefna er sett mjög skýrt fram í þessari áætlun og í 12 liðum. Ég tel ekki þess þurfa við að fara að gera mönnum grein fyrir því hér á hinu háa Alþ., hvernig þetta var gert. Menn fengu þessa skýrslu á sínum tíma, og þessu er nákvæmlega lýst í þessari áætlun.

Ég vil svo láta lokið máli mínu um þetta efni, en mér þykir fyrir því, að hæstv. ráðh. skyldi ekki geta verið við hér, þegar þetta mál kom á dagskrá, hvað eftir annað.