06.12.1973
Sameinað þing: 31. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1132 í B-deild Alþingistíðinda. (1025)

103. mál, þjónusta hjá héraðsdómstólum við neytendur

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Þar sem síðasti hv. ræðumaður skírskotaði nokkuð til lögfræðinga og sýslumanna, vil ég leyfa mér að segja um þetta mál örfá orð.

Það er alveg rétt, að meðferð mála hjá dómstólum landsins er í mörgum tilvikum allt of hæggeng. Einmitt þess vegna verður maður oft var við það, að uppi eru hugmyndir um að koma málum manna af með einhvers konar afbrigðilegri og hraðari meðferð. Þetta er eðlilegt. Fólk vill fá skorið úr sínum málum fljótt og vel, og það er á allan hátt æskilegast. Á hinn bóginn vil ég þó vekja athygli á því, að ég held, að það sé almenn skoðun þeirra manna, sem við þessi mál fást, að það sé mjög óæskilegt að velja þá leið út úr þessum málum að koma upp mörgum sérdómstólum, sem fjalla um sérstaka málaflokka. Það er nú svo, að vitanlega hvílir á dómurum leiðbeiningarskylda við allan almenning, sem þarf að fá umsögn um sín mál eða gera reka að sínum málum. Og ég held, að mér sé óhætt að fullyrða, að það sé rétt, sem segir í grg., að það mun mála sannast, að þeir, sem best þekkja til og vinna að dómarastarfinu, séu yfirleitt andvígir sérdómstólum. Þetta vil ég alveg sérstaklega ítreka sem mína skoðun einnig.

Ég geri ráð fyrir, að þessi till. verði send til umsagnar þeirra manna, sem hér er vikið að í grg., og ætla því ekki að hafa um hana fleiri orð á þessu stigi, en aðeins ítreka þessa skoðun mína og benda á, að áhugamönnum um þessi efni væri nær að leggja lóð sitt á vogarskálina, þannig að betur væri búið að hinum almennu dómstólum landsins um starfsfólk og annan aðbúnað en nú er, svo að málum manna megi þess vegna hraða eins og unnt er.