06.12.1973
Sameinað þing: 31. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1145 í B-deild Alþingistíðinda. (1035)

123. mál, nýting raforku til húshitunar

Flm. (Guðlaugur Gíslason) :

Herra forseti. Ég hef ásamt hv. 5. þm. Vesturl. leyft mér að flytja hér till. á þskj. 151 um nýtingu raforku til húsahitunar og verðjöfnun á raforku. Að sjálfsögðu er okkur flm. kunnugt um þær áætlanir, sem uppi hafa verið á undanförnum árum, og þá stefnumörkun að stefna að því að taka í æ ríkari mæli raf.orku til hitunar húsa í stað olíukyndingar. Allar hafa þessar áætlanir þó verið við það miðaðar, að þetta gæti gerst með eðlilegum bætti þróast á nokkru árabili og skiptin því tekið nokkuð langan tíma. Hins vegar liggur það fyrir nú í dag, að viðhorf öll í þessu sambandi gerbreyst við þá verðhækkun, sem orðið hefur á olíu, og þá verðhækkun, sem fyrirsjáanleg er fram undan, ef aðstæður breytast ekki aftur í hið fyrra horf. Það má segja, að við séum kannske ekki í neinni beinni hættu í sambandi við okkar orkumál í bili, þó getur alltaf það að borið, t. d. ef til styrjaldar drægi, að við værum mjög illa settir ef ekki væru gerðar fljótvirkari ráðstafanir til orkuöflunar heldur en nú eru áætlanir uppi um. Og þó að svo færi, að jafnvægi kæmist á í olíumálunum, er það eitt atriði, sem liggur alveg ljóslega fyrir, en það er, að stofnkostnaður allur við byggingu nýrra húsa er mun minni, ef gert er ráð fyrir í upphafi, að um raforkuhitun verði að ræða, í stað olíukyndingar, eins og nú er víðast úti á landsbyggðinni.

Það liggur nokkur reynsla fyrir í þessu sambandi um kostnað miðað við verð á olíu, eins og það var, áður en verðhækkunin skall yfir, og þær upplýsingar, sem ég hef um það benda mjög ótvírætt í þá átt, að séu húsin í upphafi vel einangruð og með raforkuhitun reiknað, þá muni raforka ekki þurfa að verða dýrari en olíukynding og jafnvel mun ódýrari, ef vel er að staðið. En í sambandi við það viðhorf, sem nú hefur skapast vegna verðhækkunar á olíu, þá hefur enn mjög breyst í þá átt, að aðstöðumunur verður enn tilfinnanlegri í sambandi við hitun húsa fyrir þá, sem úti á landsbyggðinni búa og hafa ekki aðstöðu til að njóta hitunar frá hitaveitum eða jarðvarma, og hlýtur því einnig þetta atriði að verða tekið til rækilegrar endurskoðunar. Það hlýtur að verða um það spurt, hvernig slíku verður við komið. Ég tel, að tæknilega sé hægt að koma þessu fyrir á fleiri en einn hátt, og hygg ég, að þegar mætti á fyrsta stigi í sambandi við heildsöluverð gera þá jöfnun á, að raforkuverð yrði það sama, hvar á landinu sem væri, a. m. k. ef um húsahitun væri að ræða.

Ég minntist á það áðan, að verðhækkun sú á olíu, sem orðið hefur, hefði leitt í ljós, enn þá betur en flest annað geysilegan aðstöðumun þess fólks á mörgum sviðum, sem býr úti á landsbyggðinni, og þess fólks, sem býr hér á þéttbýlissvæði og hefur hitaveitu eða á öðrum stöðum, þar sem um hitaveitu er að ræða. Þess hefur verið getið í blöðum að undanförnu og komið upplýsingar um það frá borgaryfirvöldum, að hitunarkostnaður íbúða á Reykjavíkursvæðinu mundi aðeins nema 1/4 hluta af hitunarkostnaði miðað við það, ef olía væri notuð til upphitunar. Það er talið, að þetta nemi 50–60 þús. kr. á meðalfjölskyldu á ári, og tölur hafa verið birtar um það, að þetta mundi spara íbúum Reykjavíkursvæðisins um 1500–1600 millj. kr. Ég held, að þegar þessi hlið er skoðuð á málinu einnig, þá hljóti Alþ. að gera sér ljóst, að þarna verður að gripa inn með jöfnun á milli þeirra aðila, sem annars vegar hafa aðstöðu til þess að búa við hitun frá jarðvarma, og hinna, sem ekki hafa aðstöðu til þess og verða að nota olíu. Ef sú leið væri farin, sem lagt er til í þeirri till., sem hér liggur fyrir, þá mundi þarna vissulega komast verulegur jöfnuður á, og er það það, sem hlýtur að verða að stefnt, ef ekki eiga að falla um sjálfar sig allar umr. og allar hugmyndir, sem þm. á undanförnum árum hafa verið með um jafnvægi í byggð landsins og uppbyggingu landsbyggðarinnar.

Ég tel, að það sé mjög nauðsynlegt fyrir Alþ. að gera sér grein fyrir, hvað raunverulega hefur verið að gerast á undanförnum árum í sambandi við þetta mál. Eftir því sem ég held, er eitt af tíðræddustu málum hér í sölum Alþ. byggðajafnvægið og hvaða ráðstafanir sé nauðsynlegt að gera í því sambandi. En ég held, að Alþ. hafi á undanförnum árum og kannske um nokkuð langt árabil ekki gert sér það ljóst, að samtímis því sem verið er að tala um byggðajafnvægi og jafnvægi í byggð landsins, þá hafa verið gerðar ráðstafanir hér í sambandi við þéttbýlið, sem vinna þar gersamlega á móti. Ég á við þær ráðstafanir, sem hafa verið gerðar í sambandi við húsnæðismál, því að það er ekkert leyndarmál, að það hefur verið hægara fyrir fólk að eignast íbúðir hér á þéttbýlissvæðinu heldur en víða úti á landsbyggðinni, og kemur þar til hinn beini stuðningur ríkisvaldsins á undanförnum árum, sem hefur gert þetta kleift. Þó að það sé svo, að menn, sem flytjast hingað á þéttbýlissvæðið, geti kannske ekki beint fallið inn í það kerfi, þá hefur kerfið á undanförnum árum losað um íbúðarhúsnæði í stórum stíl á þéttbýlissvæðinu, sem þá hefur verið til ráðstöfunar fyrir þá, sem hingað hafa viljað flytjast.

Húsnæðismálin eru án efa eitt það viðkvæmasta fyrir fólk í sambandi við hugmyndir þess um búsetu, og allt, sem gert er á einum stað til þess að gera mönnum hægara og gera mönnum kleift að eignast húsnæði, það auðvitað dregur fólkið til sín annars staðar frá. Ég vil á það benda, að hér í Reykjavík einni hafa á undanförnum árum, 5–6 árum, ef ég man rétt, risið upp heil borgarhverfi, sem eru á stærð við stærstu kaupstaði landsins, og á ég þar bæði við Breiðholt og Hraunbæ. Þetta hlýtur óneitanlega að hafa það í för með sér, að byggð dregst saman úti á landsbyggðinni, samtímis því sem Alþ. yrði að gera beinar ráðstafanir og leggja fram verulega fjármuni til að reyna að halda fólkinu þar kyrru. Ég fékk hjá Hagstofunni upplýsingar um, hvernig þróun þessara mála hefur verið á undanförnum 10 árum, og ég verð að segja, að sú þróun er ekki vænleg fyrir hv. Alþ., ef við eigum í alvöru að halda áfram að ræða um byggðamálin og jafnvægi í byggð landsins á sama grundvelli og gert hefur verið að undanförnu. Þessi skýrsla Hagstofunnar sýnir, að árið 1963 var 51% af landsmönnum staðsett á þéttbýlissvæðinu, þ. e. a. s. Reykjavík, Seltjarnarnesi, Kópavogi, Garðahreppi, Hafnarfirði og Mosfellshreppi. Árið 1972 er þessi tala komin úr 51% upp í 55.6%. Það er áberandi, að þetta er mjög ákveðin þróun, það virðast ekki vera neinar stökkbreytingar á milli ára, heldur fjölgar fólki sífellt hlutfallslega á þéttbýlissvæðinu. Þetta hlutfall hefur hækkað, eins og þessar tölur sýna, um nær 5%. Nú búa á þessu svæði 5% fleiri landsmanna, miðað við heildartölu þeirra, heldur en gerðu á árinu 1963. Ef svo heldur fram sem nú horfir, verður þetta upp úr árinu 1980 komið upp í nær eða um 60%, og ég hygg, að þá megi Alþ. fara að gá að sér í sambandi við byggðamálin, því að þegar svo er komið, að 60% af þjóðinni er komið í einn þéttbýliskjarna, þá hlýtur það að verka til þess, að fólksflutningar verða enn örari en þeir þó áður voru frá strjálbýlinu og til þéttbýlisins. Og það, sem kannske er eftirtektarvert í sambandi við skýrslu Hagstofunnar, er hvað gerst hefur á Vestfjörðum, þar sem byggðaáætlun var fyrst tekinn upp. Ef ég man rétt, var það í kringum 1965–1966, sem þar var farið að vinna skipulega að byggðamálum og fengið til þess erlent fé og lagt fram verulegt fjármagn úr ríkissjóði til þess að halda þar jafnvægi í byggð landsins og reyna að halda fólkinu þar áfram með búsetu, eins og það hafði áður verið. Það sorglega er, að skýrsla Hagstofunnar sýnir, að flutningur frá Vestfjörðum er meiri en meðaltalið er annars staðar frá af landinu. 1. des. 1963 voru búsettir í Vestfjarðakjördæmi 10586 manns, en er komið niður í 9925 manns 1. des. 1972. Þetta er um 6.25% fækkun fólks á þessum stað.

Mér hnykkti nokkuð við, þegar ég sá þessar tölur Hagstofunnar, og maður hlýtur að vera nokkuð uggandi yfir því, þegar þetta liggur fyrir í opinberum skýrslum, að þannig skuli fara, þar sem fjármagn er fyrst og fremst veitt til uppbyggingar á skipulegan hátt, þar skuli fólksfækkunin verða yfir meðaltali af því, sem hún er annars staðar í strjálbýlinu.

Ég held, að Alþ. verði að fara að gera sér það alveg ljóst, að sá aðstöðumunur, sem verið hefur á milli þeirra, sem búa í þéttbýli, og þeirra, sem búa í strjálbýli, hefur verið þess valdandi, að fólksstraumur hefur þrátt fyrir allar aðgerðir stjórnvalda átt sér stað frá landsbyggðinni og hingað á þéttbýlissvæðið. Og við þá breytingu, sem sjáanleg verður í sambandi við kyndingu íbúðarhúsa, sem er mjög viðkvæmt mál, eins og allir vita, og einn af stærri útgjaldaliðum hverrar fjölskyldu, ef sama ósamræmið á að halda áfram og verið hefur og aukast í hlutfalli við verðhækkun á olíu, þá tel ég, að það sé mjög mikil hætta á því, að Alþ. standi hreinlega frammi fyrir því innan til þess að gera stutts tíma, að flutningar verði það miklir frá landsbyggðinni, frá strjálbýlinu og hingað á þéttbýlissvæðið, að það hljóti að teljast mjög varhugavert fyrir þjóðarbúið í heild. Maður getur ímyndað sér, hvernig þetta væri hjá öðrum stærri þjóðum, bæði hér í Evrópu og annars staðar, ef yfir 60% af þjóðinni væri komin á höfuðborgarsvæðið. Hvað væri um New York, London og höfuðborgir þessara ríkja, sem við þekkjum til, hvernig væri þeirra aðstaða, ef þar væru komin 60% af þjóðarheildinni? Ég ætla ekki að fara að nefna neinar tölur í því sambandi. Flestir vita nokkurn veginn, hver íbúatala þessara landa er og hver íbúatala höfuðborgarinnar yrði, ef þangað væru komin 60% af þjóðarheildinni. Ég hygg, að það geti ekkert þjóðfélag staðið undir slíku og mundi ekki vera hægt að reka neitt þjóðfélag, sem þarf auðvitað að lifa á margþættri framleiðslu, bæði til lands og sjávar, og margþættum iðnaði, það mundi ekkert þjóðfélag geta þróast á eðlilegan hátt, ef þannig væri komið, að svo stór hluti þjóðarinnar væri kominn á einn stað. En þetta er staðreynd, sem Íslendingar standa frammi fyrir. Og sú þróun, sem verið hefur á undanförnum árum, bendir því miður öll í þá átt, að þrátt fyrir margvíslegar aðgerðir Alþ. í sambandi við byggðamálin virðist þar þurfa miklu meira til og sennilega þarf þar til gerbreytta stefnu. Það verður að koma eitthvað annað mikilvægara heldur en við höfum enn þá verið að ræða um til þess að vega á móti þessu og til þess að festa fólk við framleiðslustörfin úti á landsbyggðinni. Ég tel þetta vera, þegar málið er skoðað ofan í kjölinn, sérstaklega miðað við þær aðstæður, sem nú hafa skapast, eitt af þeim stærri málum, sem Alþ. hlýtur að verða að taka til gaumgæfilegrar athugunar þegar á næstunni.

Ég vil, herra forseti, leyfa mér að leggja til. að umr. verði frestað og till. vísað til hv. fjvn.