06.12.1973
Sameinað þing: 31. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1148 í B-deild Alþingistíðinda. (1037)

130. mál, veitinga- og gistihúsarekstur að vetrarlagi utan þéttbýlissvæða

Flm. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Á þskj. 130 hef ég leyft mér að bera fram till. til þál. um athugun á till. til úrbóta á vanda þeirra aðila, sem stunda veitinga- og gistihúsarekstur að vetrarlagi utan mestu þéttbýlissvæða landsins. Till. hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela samgrh. að skipa n. til þess að athuga og gera till. um úrbætur á vanda þeirra aðila, sem stunda veitinga- og gistihúsarekstur að vetrarlagi utan mestu þéttbýlissvæða landsins. Skal n. m. a. taka til athugunar rekstrarafkomu og rekstrarfjárþörf þessara þjónustuaðila yfir vetrarmánuðina ásamt leit að leiðum til bættrar afkomu, enn fremur tillögur um aðstoð hins opinbera, ef þess er þörf, og samræmingu slíkrar aðstoðar. N. skal skila áliti eigi síðar en svo, að leggja megi till. hennar fyrir Alþ. á næsta hausti.“

Á síðustu árum hefur verið varið nokkru fé á fjárl. til þess, eins og það er kallað í fjárlagagr., að halda uppi byggð og gistingu handa ferðamönnum að vetrarlagi. Þetta fé hefur fyrst og fremst verið látið renna til þeirra þjónustuaðila, sem halda uppi gistingu og annarri veitingastarfsemi nálægt fjallvegum landsins, bæði til einstakra heimila og til veitingaaðila, sem eru með meiri rekstur. Samtals var á fjárl. þessa árs varið til þessara þátta um 2.8 millj. kr. Nú er það svo, að ef litið er yfir þessa skrá, þá sést, að þarna er harla lítið samræmi á milli einstakra aðila, og skal ekki farið nánar út í það, en skrá yfir þessi framlög birtist sem fskj. með grg. þessarar till.

Nú liggja fyrir fjvn., eftir því sem mér er kunnugt um, nokkur erindi frá aðilum, er stunda þessa þjónustugrein, þar sem farið er fram á ýmist nýja styrki eða hækkun á framlögum, sem veitt hafa verið á undanförnum árum. Það er því augljóst mál, að þarna er orðið um verulegan vanda að ræða, — vanda, sem þarf að taka til athugunar í heild, hvort ástæða sé til þess, að ríkisvaldið styrki með þessum hætti eða öðrum þessa starfsemi, eða þá að leitað verði nýrra úrræða og þá hvaða úrræði það kunni að vera.

Ég tel nokkuð augljóst að orsakir þess mikla vanda, sem við er að glíma hjá þessum aðilum, séu fyrst og fremst þær, að á undanförnum árum hefur rekstrarkostnaður aukist ákaflega við þessa þjónustustarfsemi. Kröfur hafa aukist um bættan aðbúnað ferðamanna, bæði að því er snertir almenna veitingasölu og eins gistihúsaaðstöðu, og þessum kröfum hafa þeir aðilar, sem hér um ræðir, mætt með auknum kostnaði. Rekstrarkostnaðurinn hefur af þessum aðilum einkanlega verið talinn stóraukast eftir að vinnutímastyttingin var samþykkt hér á hv. Alþ. fyrir tveimur árum. Leiddi það að sjálfsögðu af henni, að vaktir starfsfólksins urðu styttri. Það þurfti því aukinn fjölda starfsfólks, sem hafði óhjákvæmilega í för með sér mjög aukinn rekstrarkostnað. Enn hefur svo komið til, að á síðari árum hefur það verið tíðkað af opinberum aðilum á þessu sviði, þ. e. Ferðaskrifstofu ríkisins, að setja upp sumargistihús sem víðast um landið, í skólum, og taka þannig, á þeim tíma, sem ferðamannastraumurinn er mestur og mestar tekjur er unnt að hafa út úr þessari þjónustustarfsemi, í sínar hendur verulegan hluta af þessari starfsemi og um leið kúfinn af þeim hagnaði, sem einkaaðilar hafa til þessa haft af starfsemi þessari yfir sumarmánuðina. Nú virðist svo komið, að tekjur af rekstrinum yfir sumartímann, þegar ástandið er best, nægi ekki til þess að vega uppi tap það, sem verður á rekstrinum yfir vetrarmánuðina. Af þeim orsökum eru þær óskir fram komnar, sem liggja fyrir hjá fjárveitingavaldinu um ríkisstyrk. Allt þetta tel ég, að þurfi að taka til gaumgæfilegrar athugunar.

Ekki þarf að fara hér mörgum orðum um þá þýðingu, sem þessi þjónustustarfsemi hefur fyrir landsmenn. Ég vil þó vekja athygli á því með nokkrum orðum, að svo er ástatt með vetrarferðir, eins og flestir hv. alþm. þekkja, að brugðið getur til beggja vona, bæði hvað snertir færð á vegum og veður, miðað við okkar mislynda veðurfar hér á landi. Það væri hægt að rekja mörg dæmi um það, að ferðamenn, sem ferðast milli landshluta að vetrarlagi, hafi lent í illviðrum og ófærð, sem leitt hefur til þess, að þeir hafa orðið að breyta sinni ferðaáætlun. Þeir hafa þurft að leita sér náttstaðar og dvalarstaðar jafnvel dögum saman til þess að fá borgið sér og sínum undan hreggviðrum vetrarins.

Ég hygg, að það þurfi ekki að rekja slík dæmi. Bæði ég og aðrir hafa kynnst þeim af eigin raun. Í slíkum tilvikum er það þýðingarmeira en nokkru sinni um aðra tíma ársins, að þessari þjónustustarfsemi sé haldið uppi, það sé unnt að finna áningarstaði á leið ferðamannsins, þar sem hann getur fengið húsaskjól og veitingar, þegar að syrtir á leið hans bæði í byggð og eins við að komast yfir hina ýmsu fjallvegi landsins, sem venjulega er torsóttast.

Á undanförnum árum hefur áhugi fyrir ferðamálum vaxið mjög hér á landi, og er það ekki að ófyrirsynju. Ísland hefur marga kosti að bjóða, sem gera það æskilegt ferðamannaland fyrir ýmsa, bæði innlenda ferðamenn og ekki síður fyrir útlenda, sem sækja hingað í hraðvaxandi mæli. Áhugi þeirra, sem um þessi mál hafa fjallað á undanförnum árum, hefur enda virst beinast mest í þá átt að búa okkur undir það að taka við sívaxandi fjölda erlendra ferðamanna, mæta sókn þeirra hingað með því að koma upp gististöðum, fyrst og fremst gistihúsnæði hér á höfuðborgarsvæðinu, og greiða fyrir því, að unnt sé að veita þeim nokkra þjónustu víðar um landsbyggðina og þá fyrst og fremst með þeirri starfsemi, sem ég minntist á hér áðan og rekin hefur verið af Ferðaskrifstofu ríkisins í skólum landsins. Þrátt fyrir þetta hefur það orðið mönnum æ ljósara, hversu mikla varúð þarf að viðhafa á þessari braut. Það er þýðingarmikið fyrir okkur Íslendinga sjálfa að hafa hér vald á, hver þróunin verður. Við megum ekki fórna bestu ferðamannastöðum okkar og dýrmætustu náttúruauðlindum undir örtröð erlendra ferðamanna á þann veg, að við fáum ekki sjálfir ráðið ferðinni og sjálfir haft hemil á því, hvernig umgengni verður háttað og með þessa staði verður farið. Hér þarf að fara að með mikilli gát.

Að mínu viti er óviðunandi að gefa því ekki meiri gaum en gert hefur verið, hvernig búið er að þeim þjónustuaðilum í ferðamálum, sem bera sína starfsemi uppi fyrst og fremst með hliðsjón af því að geta veitt Íslendingum sjálfum þessa þjónustu árið um kring, en það öðrum fremur þeir aðilar, sem um er fjallað í þeirri till., sem hér er flutt.

Þrátt fyrir það, að ástandið sé e. t. v. erfiðast hjá þeim aðilum, sem halda þessari þjónustu uppi í strjálbýli við fjallvegi landsins, þá er einnig svo komið fyrir ýmsum gistihúsaeigendum í minni þéttbýlisstöðum úti á landi, að þeir hafa við orð að loka sínum húsum, hætta sinni starfsemi yfir vetrarmánuðina. Ýmsir þessara aðila eiga sammerkt með þeim, sem reka þjónustu sína við fjallvegi, að þeir eru þýðingarmiklir áningarstaðir fyrir ferðamenn og kannske í sumum tilvikum þeir einu, sem geta veitt þeim nægilega örugga aðbúð á ferðum sínum að vetrarlagi, ef út af ber. Þess vegna þarf að gefa þessum aðilum gaum ekki síður en þeim, sem hlotið hafa styrk á fjárl. til þessa.

Þessi mál öll hafa nokkuð verið rædd fyrr en hér er gert. M. a. komu þessi mál til umr. á síðasta Fjórðungsþingi Norðlendinga, sem haldið var á Húsavík 21.–23. okt. s. l. Þá hafði starfað mþn. Fjórðungssambandsins um ferðamál og meðal þeirra till., sem þessi n. lagði fyrir þingið og samþykktar voru á þessu þingi, er ein, sem fjallar um þetta efni og hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Fjórðungsþing Norðlendinga skorar á alþm. Norðlendinga að beita sér fyrir fyrirgreiðslu og fjárhagsaðstoð til þeirra aðila, sem reka hótelstarfsemi við þýðingarmiklar samgönguleiðir að vetrarlagi vegna ómissandi þjónustu við ferðamenn, án þess að nokkur fjárhagsgrundvöllur sé fyrir starfsseminni. Jafnframt skorar þingið á alþm. að beita sér fyrir samsvarandi aðstoð til þeirra, sem stunda ómissandi hótelþjónustu í minni þéttbýlisstöðum að vetrarlagi, án þess að von sé um hallalausan rekstur. Jafnframt vekur Fjórðungsþing athygli á lánakjörum Ferðamálasjóðs, en lán hans eru bundin vísitölu framfærslukostnaðar.“

Í þessari ályktun er m. a. bent á einn þáttinn, sem orðið hefur til þess að auka á rekstrarvandræðin hjá þeim aðilum, sem hér er fjallað um, og siglt hefur í kjölfar þess, að margir þeirra hafa byggt upp sína starfsemi með því að auka framkvæmdir, auka húsrými og bæta þannig aðstöðuna fyrir ferðamenn, en það eru lán Ferðamálasjóðs. Það er augljóst, miðað við þá verðlagsþróun, sem nú ríkir, að þau lánakjör, sem þeir verða að sæta, sem taka vísitölubundin lán, eru ákaflega erfið. Það er eitt af þeim atriðum, sem þyrfti að kanna í sambandi við þá athugun, sem fylgdi í kjölfar þessarar till., yrði hún samþykkt, hvernig koma mætti lánamálum þessara aðila fyrir með hagkvæmari hætti. Ýmis fleiri atriði þarf að athuga, og skal ég ekki rekja þau mikið hér. Aðeins vil ég drepa á það, að best væri, ef unnt væri að komast hjá beinni opinberri aðstoð. Best væri, ef unnt væri að finna leiðir til þess að bæta rekstur þessara aðila á annan hátt en með beinni ríkisaðstoð. En verði ekki hjá því komist, að um opinbera aðstoð sé að ræða, kann að vera eðlilegt í sumum tilvikum, þar sem t. d. þýðingarmikil hótelstarfsemi er rekin í þéttbýlisstöðum, að um leið og hið opinbera veitti einhver framlög, þá væru heimaaðilar skuldbundnir til þess að leggja fram eitthvert fé á móti. Ýmsar leiðir í þessu sambandi má hugleiða, og skal ekki farið nánar út í það hér.

Ég tel það þýðingarmikið, að þessi mál öll verði tekin og skoðuð í heild. Ég hef undir höndum gögn, sem sýna, hvernig ástandið er hjá einstökum slíkra aðila. Naumast er ástæða til þess að rekja það hér. En verði þessi till. samþykkt og hæstv. samgrh. taki málið upp, skipi n. til þess að kanna það og gera till. um úrbætur, eins og till. fer fram á, þá geri ég ráð fyrir því, að slík n. mundi kalla eftir reikningum yfir rekstur þeirra aðila, sem hér er fjallað um, og gæti þannig gert sér í fyrstu lotu ljóst, hve vandinn er mikill, og síðan tæki hún til athugunar, hvaða leiðir þyrfti að fara til þess að ráða þar bót á. Aðalatriðið er, að þetta mál allt sé skoðað í heild, það sé skoðað í samhengi við aðra þá þætti, sem unnið er að í sambandi við ferðamál, og að því þurfti ekki að reka, að þeir aðilar, sem sinna þessari þýðingarmiklu þjónustu fyrir Íslendinga sjálfa, eins og ég hef kallað það hér, neyðist til að hætta þessari starfsemi, þegar síst má án hennar vera.

Ég vil svo leyfa mér, herra forseti, að óska þess, að að þessari umr. lokinni verði till. vísað til síðari umr. og hv. fjvn.