25.10.1973
Sameinað þing: 8. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 183 í B-deild Alþingistíðinda. (105)

5. mál, varanleg gatnagerð í þéttbýli

Ólafur G. Einarsson:

Herra forseti. Það eru nokkur orð, sem ég vildi segja vegna þeirrar till., sem hér er til umr. og nú hefur verið mælt fyrir.

Ég vil þá fyrst lýsa yfir stuðningi við meginefni till., þ. e. að ríkisstj. geri þegar í stað róttækar ráðstafanir til þess að auðvelda sveitarfélögum að standa að varanlegri gatnagerð, eins og það er orðað í till. Öllum er nú orðið ljóst, hvert hagsmunamál það er íbúum þéttbýlisstaða, að götur verði lagðar bundnu slitlagi. Menn sætta sig ekki lengur við það að vaða forina, þegar rignir, eða vera í stöðugum rykmekki, þegar þurrt er. Þetta er, eins og drepið er á í grg. till., umhverfis- og heilbrigðismál, sem verður að fá skjóta lausn á. Til þessa hafa þær ástæður verið helstar fyrir því, að ekki hefur meira gerst af hálfu einstakra sveitarfélaga, að víða hefur skort áhuga og skilning ráðamanna, víðast hvar hefur skort fjármagn, og á flestum stöðum hefur eina leiðin verið sú að steypa göturnar, sem er allt of dýrt. Malbikun verður ekki komið við nema í næsta nágrenni malbikunarstöðva, en þær eru ekki til nema í Reykjavík og á Akureyri, auk Keflavíkurflugvallar, og reyndar í Vestmannaeyjum, en mér er ekki kunnugt um ástand þeirrar stöðvar nú. Með tilkomu olíumalar sem slitlags eru möguleikarnir hins vegar allt aðrir til þess að vera stórátak í þessum málum. Bæði er það, að olíumölin er langódýrasta slitlagið og hana má flytja blandaða hvert á land sem er. Það er því hægt nú að láta til skarar skríða, ef öðrum skilyrðum er fullnægt.

Flm. leggja til, að gerð verði 5 ára framkvæmdaáætlun á sviði varanlegrar gatnagerðar, sem taki til allra þéttbýlisstaða með 200 íbúa eða fleiri. Mér er ekki ljóst, hver á að gera þessa áætlun, en býst þó við, að ætlast sé til að ríkið geri hana og þá væntanlega Framkvæmdastofnunin. Ef sú er ætlunin, þá lýsi ég mig andvígan þeirri hugmynd. Gatnagerð er verkefni sveitarfélaganna, og ríkið á ekki á neinn hátt að teygja arma sína inn á það verksvið. Auðvitað eiga sveitarfélögin sjálf að gera sínar áætlanir eða þá samtök sveitarfélaganna í umboði viðkomandi sveitarfélaga, eins og þau hafa reyndar gert, bæði á Austurlandi og Vestfjörðum, einmitt í sambandi við gatnagerð. Þessu fyrirkomulagi á ekki að breyta. Á grundvelli þessara áætlana sækja síðan sveitarfélögin um lán til framkvæmdanna.

Hv. flm. benda á nokkrar leiðir til þess, að markmiðinu verði náð. Ég get skrifað undir flest af því, sem þar er sagt, en mundi þó vilja hafa þar aðra röð a. m. k. Veigamesta atriðið fyrir sveitarfélögin er, að þau fái stóraukna hlutdeild í bensínskatti og reglum um úthlutun fjárins verði breytt, eins og flm. leggja áherslu á. Eins og reglurnar eru nú, eru framlög bundin við þéttbýlisstaði með 300 íbúa eða fleiri, og framlagið er ekki greitt, nema því sé varið til varanlegrar gerðar svonefndra þjóðvega í þéttbýli. Þegar þéttbýlisvegur er svo varanlega gerður, má fyrst nota framlagið til annarra gatna. Ég þekki ekkert sveitarfélag, sem hefur notið þessa fjár til annarrar gatnagerðar. Þéttbýlisvegirnir gleypa það allt og það mörg ár fram í tímann. Þessu fyrirkomulagi þarf að breyta, og tek ég undir það með hv. flm. Það er raunar einn liðurinn í endurskoðun verkaskiptingar milli ríkisins og sveitarfélaganna. Á fundi sínum í byrjun sept. s. l. ályktaði fulltrúaráð Samband ísl. sveitarfélaga um þetta mál þannig, að sveitarfélögin taki algerlega að sér þéttbýlisvegina, að sveitarfélög í strjálbýli taki að sér sýsluvegina og að framlög úr Vegasjóði verði aukin verulega og þeim skipt með hliðsjón af íbúafjölda og ófullgerðum verkefnum í gatna- og vegagerð. Hér er um grundvallarbreytingu að ræða frá núv. fyrirkomulagi, breytingu, sem líkleg er til að auðvelda sveitarfélögum að leysa þessi mál. Verði þessi breyting gerð, er 3. liður þáltill. óþarfur eða öllu heldur fellur hann saman við 2. lið. Í 3. lið er talað um, að ríkið taki á sig stóraukna hlutdeild í rykbindingu þjóðvega, sem liggja um kaupstaði og kauptún og reyndar bæjarhlöð.

Þótt framlög úr Vegasjóði til sveitarfélaga yrðu stóraukin, þá dugir það ekki til þess, að stórátak verði gert á skömmum tíma í varanlegri gatnagerð þéttbýlisstaða. Eins og hv. flm. benda á, þarf lánsfé, og þar verður atbeini ríkisins að koma til. Eðlilegt er hins vegar, að öll lán til slíkra framkvæmda sveitarfélaga fari í gegnum Lánasjóð sveitarfélaga, eins og verið hefur. Lánasjóður hefur fengið lán hjá Framkvæmdasjóði undanfarin ár til þess að endurlána sveitarfélögunum. Hafa þau lán verið á framkvæmdaáætlun og einkum verið varið til hitaveituframkvæmda. Á þessu ári, 1973, lánar Lánasjóður sveitarfélaga um 173 millj. kr. í fjárfestingarlán til sveitarfélaga, þar af rúmar 60 millj. til gatnagerðar, og er það í fyrsta skipti, sem sjóðurinn lánar að ráði til slíkra framkvæmda. Til þess að framhald geti orðið á þessari lánastarfsemi, verður að efla Lánasjóðinn og ætla honum ríflegan hlut á framkvæmdaáætlun. Á þessu ári fékk sjóðurinn 105 millj. að láni hjá Framkvæmdasjóði, en sótti hins vegar um 195 millj. kr.

Ég þarf ekki að hafa mál mitt miklu lengra. Ég fagna því, að þessi till. er fram komin. Hér er hreyft þörfu máli, sem ég vona, að fái skynsamlega afgreiðslu og skjóta. Aðalatriðin eru þessi: Sveitarfélögin í landinu þurfa að gera stórátak í gatnagerðarmálum. Til þess verða þau að fá lánsfé, sem eðlilegast er að þau fái í gegnum Lánasjóð sveitarfélaga, sem verði efldur. Hlutur sveitarfélaga af bensínskatti verði stóraukinn. Framlög til hinna einstöku sveitarfélaga verði miðuð við ófullgerðar götur, umferðarþunga og íbúafjölda, en ekki við svonefnda þéttbýlisvegi, eins og nú er, og höfðatölureglu. Ríkið sjálft geri stórátak í rykbindingu eða lagningu bundins slitlags á þjóðvegina sjálfa. Um þetta sýnist mér, að allir hv. alþm. ættu að geta sameinast.