25.10.1973
Sameinað þing: 8. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 185 í B-deild Alþingistíðinda. (106)

5. mál, varanleg gatnagerð í þéttbýli

Jónas Árnason:

Herra forseti. Ég ræddi nú fyrir skemmstu við tvo forustumenn í málefnum sveitarfélaga á Snæfellsnesi, þá Skúla Alexandersson oddvita í Neshreppi utan Ennis og Árna Emilsson sveitarstjóra í Grundarfirði, og spurði þá, hvað þeir vildu helst leggja áherslu á í sambandi við þessa till. okkar hv. 6. landsk. þm. Þeim kom saman um, að næst aðstoðinni við íbúðabyggingar hefði aðstoð af hálfu ríkisins við varanlega gatnagerð (eða við að gera það, sem hv. síðasti ræðumaður nefndi „bundið“ slitlag á götur, sem mér sýnist miklu betra orð heldur en „varanlegt“ slitlag) — næst aðstoðinni við íbúðabyggingar hefði aðstoð af hálfu ríkisins við þetta mesta þýðingu í þeirri viðleitni að koma í veg fyrir flutning fólks úr sjávarþorpunum, viðhalda byggðinni þar, auka hana. En um nauðsyn slíks fyrir allt þjóðarbúið ætti ekki að þurfa að ræða, enda mun öllum ljóst, hve stór hlutur þessara byggðarlaga er í sköpun þjóðarauðsins.

Þeir héldu því fram, báðir þessir menn, að þessi byggðarlög ættu það inni margfalt hjá þjóðfélaginu í heild, að götum þar yrði komið í sama horf að því er snertir varanlegt eða „bundið“ slitlag og nú er orðið hér á höfuðborgarsvæðinu. Þegar svo væri komið og þá en ekki fyrr mætti segja, að goldin væri skuld þjóðfélagsins í heild við þessi byggðarlög að því er varðar gatnagerð af þessu tagi.

Þessi byggðarlög hefðu að undanförnu, sögðu þessir menn, orðið að nota takmörkuð efni sín til að laga göturnar næst fiskvinnslustöðvunum. Í þetta hefðu þau orðið að verja miklum fjármunum, enda yrðu ekki með öðru móti uppfylltar þær kröfur um hreinlæti, sem hinir útlendu kaupendur framleiðslunnar gera. En fólkið, sem ynni við framleiðsluna, hlyti einnig að gera sínar kröfur um aukið hreinlæti við híbýli sín og gerði enda slíkar kröfur, þetta væru réttlætiskröfur. Viðkomandi sveitarfélögum væri hins vegar með öllu ofviða að verða við þeim kröfum, nema til kæmi aðstoð af hálfu hins opinbera, eins og gert er ráð fyrir í þessari till. Ef ekki kæmi til þessi aðstoð af hálfu ríkisins, ætti þessi sveitarfélög ekki annars kost til þess að verða við þessum sjálfsögðu kröfum um varanlega gatnagerð og aukið hreinlæti, sem henni fylgir (aukið hreinlæti, sem ætti auðvitað að miðast við það að þóknast ekki aðeins þeim útlendu aðilum, sem kaupa framleiðsluna, heldur einnig því fólki, sem vinnur við hana) — án aðstoðar ríkisins mundu þessi sveitarfélög ekki eiga annars kost til þess að koma slíku fram en að auka álögurnar á þetta fólk. En auknar álögur gætu svo valdið því, að fólkið hrektist burt úr þessum byggðarlögum, burt frá hinum þýðingarmiklu framleiðslustörfum, sem þar eru unnin, til annarra starfa, sem flest hver mundu að líkindum verða miklu þýðingarminni fyrir þjóðarbúið.

Þetta vildu þeir, þessir tveir sveitarstjórnarmenn á Snæfellsnesi, að bent yrði á, svo að mönnum mætti vera ljósara, hvað þessi sveitarfélög eru komin í slæma klemmu með þessi mál og einnig hve mikla þýðingu það hefði fyrir þjóðarbúið í heild, að lausn þessara mála yrði hagað eins og lagt er til í þessari till.

Við flm. till. vekjum einnig athygli á nauðsyn þess, að eitthvað verði gert, til þess að sveitafólk, sem verður að stunda heyskap í námunda við þjóðvegi, verði ekki ofurselt plágu einni vondri í hvert sinn sem blessuð sólin skin. Sú plága er rykið af þjóðvegum. Ég hef heyrt bændur segja, að þeim sé að mestu horfin hin forna heyskapargleði, síðan þessi plága kom yfir þá. Bændur verða varla sjálfir taldir eiga sök á þessari plágu. Bújarðir þeirra flestra eiga sér miklu lengri sögu í landinu heldur en bílvegir. Víst er líka, að í þurrkum á sumrin eru það ekki bændur, heldur allt annað fólk, sem hefur tíma til þess að aka um þessa vegi og róta upp rykinu. Okkur flm. till. finnst sem sagt ekki nema sjálfsagt, að þetta „annað fólk“ taki á sig nokkurn kostnað við að binda það ryk, sem það hefur verið að þyrla upp í vit bænda.