25.10.1973
Sameinað þing: 8. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 186 í B-deild Alþingistíðinda. (107)

5. mál, varanleg gatnagerð í þéttbýli

Steingrímur Hermannson:

Herra forseti. Ég vil hefja mál mitt með því að lýsa ánægju minni með þá till., sem hér liggur frammi í mikilvægu og tímabæru máli. Ég get tekið undir allt það, sem hv. frsm. sagði hér, og ætla að forðast að endurtaka það. Ég vil hins vegar fara örfáum orðum um fyrst og fremst 2. mgr. í 2. lið till., sem fjallar um endurskoðun á reglum um úthlutun hins svonefnds þéttbýlisfjár. Mér skilst, að hér muni vera átt við V. kafla vegalaga, sem fjallar um þjóðvegi í kaupstöðum og kauptúnum, og þar segir í 32. gr., með leyfi hæstv. forseta:

„Árlega skal veita ákveðna fjárhæð til lagningar þjóðvega í kaupstöðum og kauptúnum, sem hafa 300 íbúa eða fleiri, og skal skipting fjárins fara eftir íbúafjölda. Skal árlegt framlag vera 12.5% af heildartekjum vegamála það ár.“

Ég held, að mér sé óhætt að segja, að ákvæði sem þetta um skiptingu almannafjár í hlutfalli við íbúafjölda sé nálagt því einsdæmi hjá þeim þjóðum, sem telja sig hafa að stríða við byggðavanda, enda hygg ég, að færa megi ákaflega mörg rök að því, að þéttbýlið hefur óhemjumiklar ótaldar tekjur af þeirri miklu þjónustu, sem það veitir dreifbýlinu. Það hefur tekjur af hverjum þeim manni, sem hingað kemur að leita sér læknis, leitar eftir verkfræðingi til að aðstoða við framkvæmdir, m. a. vegagerð o. fl., og þannig mætti lengi telja. Af því sýnist mér, og ég hef skoðað þau mál nokkuð, að annars staðar séu aðrir hlutir lagðir til grundvallar, fyrst og fremst það, eins og er lögð áhersla á í till., að ná þessum sjálfsögðu mannréttindum, sæmilegum vegum, upp í ákveðinn hundraðshluta af vegakerfi því, sem um er að ræða á hinum ýmsu stöðum.

En því geri ég þetta sérstaklega að umræðuefni, að á þessu þingi á að ganga frá nýrri vegáætlun, og mér sýnist höfuðnauðsyn á því, að þetta ákvæði verði tekið til endurskoðunar og fundin þarna einhver viðmiðun, sem allir geta sætt sig við. Ég vil geta þess, að mþn. í byggðamálum, sem var kjörin í lok síðasta Alþ., hefur lítillega rætt um þetta mál og hefur hug á því að láta það til sín taka.

Ég vil einnig taka undir það, sem fram kemur í till., að viðmiðunin við 300 íbúa er óeðlileg og hana þarf að endurskoða.

Loks vil ég leggja áherslu á enn eitt atriði, sem er mjög þýðingarmikið í þessu sambandi og hefur komið fram að nokkru í því, sem hér hefur verið sagt. Þjóðvegir í þéttbýli, í kaupstöðum og kauptúnum, liggja jafnan, vil ég leyfa mér að segja, eða mjög oft í næsta nágrenni fiskvinnslustöðva. Nú er uppi sú krafa, að nágrenni fiskvinnslustöðva verði búið þannig, að þaðan komi ekki rykmökkur sá, sem hv. síðasti þm. var að lýsa. Er gert ráð fyrir því, að malbikun eða olíumöl eða steypa, eftir því sem við á, verði lögð á slíkum stöðum innan næstu örfárra ára. Ég þarf ekki að nefna neina staði. Ég veit, að hv. þm. þekkja fjölmarga staði, þar sem þjóðvegirnir liggja í nágrenni, eins og ég sagði, og rykmökkurinn stendur af þeim, og engar áætlanir hafa verið gerðar um rykbindingu þeirra þrátt fyrir þessa kröfu þessa stærsta útflutningsatvinnuvegar okkar landsmanna. Þarna held ég að hið opinbera verði að taka til höndum. Á einn máta eða annan verður það að sinna þeirri skyldu sinni að rykbinda þessa vegi, annars stendur það alls ekki í stöðu sinni. Samkv. áætlun um endurbætur á vegum frystihúsanna, á að ljúka þessum framkvæmdum á næstu 4–5 árum. Verja á miklum fjárhæðum, 3–4 eða nálægt 5 þús. millj., þegar öll kurl eru komin til grafar. En mér er ekki kunnugt um, að nein slík áætlun sé til um hlut hins opinbera, þ. e. a. s. rykbindingu þjóðveganna. Þetta mál er því æði víðtækt og ekki aðeins það, sem mætti nefna „prinsip“-mál um skiptingu fjárins, heldur einnig þessi skylda, sem líta verður á nú þegar.