10.12.1973
Neðri deild: 38. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1173 í B-deild Alþingistíðinda. (1073)

86. mál, rannsóknarnefnd vegna landhelgisgæslu

Flm. (Karvel Pálmason) :

Herra forseti. Það er nú æðilangt um liðið, síðan þessi till. var hér á dagskrá síðast til umr., það er komið eitthvað á þriðju viku, að ég held. Það var rösklega hálfur mánuður, frá því að till. var lögð fram og þangað til hún kom til umr. fyrst, og nú er komið aftur á þriðju viku, frá því að hún var síðast rædd hér og þangað til nú, að hún er hér til framhaldsumr. Ég veit, ekki, hvort dæmi eru slíks seinagangs í málsmeðferð hér á Alþ., mér er ekki um það kunnugt, en heldur finnst mér þetta langur tími, sem líður milli þess, að mál eru tekin hér til umr.

Það hafa ýmsir hv. alþm. tekið til máls um þetta mál, og er ég ekki hissa á því. Ég tel, að þarna sé um að ræða mál, sem er þess eðlis, að það hljóti að höfða til alþm. um það, að þeir láti í sér heyra varðandi málið. Ég held, að allir þeir, sem um málið hafa fjallað, hafi tjáð sig samþykka till., að vísu með ýmsum tilbrigðum varðandi þann stuðning, en í heild séð held ég, að allflestir ræðumanna hafi verið till. fylgjandi. Ég tel ástæðu til þess að gera nokkrar aths. við það, sem fram hefur komið í ræðum manna. Það er þó ekki ýkjamikið eða margar aths., en ég vil víkja að nokkrum atriðum varðandi það, sem fram hefur komið.

Hv. 10. þm. Reykv., Pétur Sigurðsson, taldi eins og aðrir þeir stjórnarandstæðingar, sem til máls hafa tekið varðandi þetta mál, að þessu væri fyrst og fremst beint gegn hæstv. forsrh., og hann og aðrir hv. stjórnarandstæðingar, sem talað hafa, töldu, að hér væri í raun og veru, um vantraust á viðkomandi ráðh. að ræða. (MB: Eru bara stjórnarandstæðingar um það?) Þeir, sem hafa látið í sér heyra enn, það kemur kannske fram síðar, og þá tökum við það til meðferðar. Það hefur komið fram, kom bæði fram hjá mér varðandi framsögu fyrir þessu máli og einnig var það tekið fram af hv. 3. þm. Vestf., að þessi till. sakfellir engan né sýknar engan ákveðinn aðila. Hún er eingöngu til þess fram borin að fá úr því skorið, hvað og af hvaða orsökum beri á milli þess, sem viðkomandi skipstjórnarmenn á Vestfjarðamiðum halda fram, og þess, sem talsmenn Landhelgisgæslunnar hafa látið frá sér fara. Ég vil segja þessum hv. þm., sem telja, að þessi till, sé fram borin sem vantraust á hæstv. forsrh., og ef þeirra stuðningur við till. er einungis vegna þessa álits þessara hv. þm., ekki vegna þess, að þeir vilji fá málið upplýst, að þá skýrist a. m. k. fyrir mér ýmislegt varðandi réttlætiskennd þeirra hv. þm., sem þarna eiga hlut að máli.

Hv. 2. þm. Vestf., Matthías Bjarnason, gerði að umræðuefni þær till. um rannsóknarnefndir, sem áður hafa komið fram, hér á Alþ., og sagði, og var, að því er mér skildist, aðalhneykslunarefnið, að aldrei hafi slík till. verið flutt nema af stjórnarandstæðingum. Þarna finnst mér vera komið að athyglisverðu atriði í ræðu þessa hv. þm. Það var á honum að skilja, að þessi till. hefði verið góð og gild og ætti fullan rétt á sér, hefði t. d. hann, þ. e. a. s. hv. 2. þm. Vestf., og t. d. hv. 5. þm. Vestf., þeir kollegar, staðið saman, að slíkum tillöguflutningi sem stjórnarandstæðingar. Hefðu þeir flutt þetta mál, hefði allt verið með felldu og málið verið gott. Þarna finnst mér vægast sagt um mjög pólitískt brengl eða mengað hugarfar að ræða hjá þeim hv. þm., sem svona hugsa, a. m. k. það brenglað hugarfar, að ég vil ekki á það fallast og telja það réttlætanlegt, því að ef þessi till. á rétt á sér, á engu þar að breyta, hver hana flytur, hvort það er stjórnarsinni eða stjórnarandstæðingur.

En það er því miður ekki bara hjá þessum hv. þm., 2. þm. Vestf. og 10. þm. Reykv., sem vart verður þessa brenglaða hugarfars. Það hefur víða og hjá mörgum komið fram, því miður. En þetta sýnir berlega, að breytinga er þörf til hins betra í íslenskri pólitík.

Þá bar hv. 2. þm. Vestf. hæstv. forsrh. mjög fyrir brjósti, og vel sé honum fyrir það. Ekki er að efa, að sú góðvild, sem þar lýsti sér í garð hæstv. forsrh., kemur frá innstu hjartarótum þessa hv. þm.

Að lokum spurði hv. 2. þm. Vestf., hvort ekki hefði verið hægt að fá skýrslu með friðsamlegri hætti en þessari stríðsyfirlýsingu, eins og hann nefndi það. Vel má vera, að það sé mat hv. 2. þm. Vestf., að hér sé um stríðsyfirlýsingu að ræða, þegar reynt er á eðlilegan hátt, að því er mér finnst, að fá fram sannleikann í mjög mikilsverðu máli. En ég er þó þeirrar skoðunar, að undirrót þessarar afstöðu hv. 2. þm. Vestf. sé sú, að hann hafi mjög gjarnan sjálfur viljað flytja slíka till., en misst af lestinni nú sem stundum áður og reyni því að beina athygli manna inn á aðrar brautir varðandi málið, brautir, sem ekki er á nokkurn hátt hægt að finna út úr till. sjálfri.

Og þá er komið að hæstv. forsrh. Hann taldi, að vel mætti vera, að Íslendingar hafi verið of íhaldssamir í því að skipa rannsóknarnefndir, og taldi sig ekki andstæðan því að breyta þar til, en taldi þó, að þar þyrfti að fara að með gát. Síðan vék ráðh. að því, hver verkefni Landhelgisgæslunnar væru samkv. lögum, og taldi, að menn hefðu ekki gert sér grein fyrir, hversu fjölþætt þau verkefni væru. Einnig taldi ráðh. ýmis tormerki á því hjá gæslunni að sinna öllum þeim verkefnum, eins og að henni hefði verið búið, og um þetta er ég ráðh. alveg sammála. En síðan komu ýmis atriði í ræðu hæstv. forsrh., sem ástæða er til að gera aths. við.

Hæstv. forsrh. fór út á þá braut að reyna að gera þetta að tilfinningamáli, sagði, að sjómenn töluðu kuldalega um gæsluna, þm. ættu að setja sig í spor varðskipsmanna og fjölskyldna þeirra. Hann minnti þm. á, að oft væru varðskipin í flutningum með þm. sjálfa, og sagði síðan, að till. sem þessa mætti skilja á þann veg, að henni væri beint gegn starfsliði gæslunnar, og væri þetta köld kveðja til þessara okkar bestu löggæslumanna, þ. e. varðskipsmanna. Alþ. ætti fremur að senda sérstakt þakklæti til þessara manna, það hefðu þeir átt betur skilið.

Ég verð nú að segja það, að mér finnst hæstv. forsrh. falla þarna í hliðstæða gröf og þeir stjórnarandstæðingar, sem halda því fram, að þessari till. sé beint gegn honum. En hver er tilgangur hæstv. forsrh. með að gripa til þessa? Getur hæstv. forsrh. bent á, þótt ekki væri nema eitt dæmi þess, að flm. þessarar till. eða þm. almennt hafi haft í frammi gagnrýni á störf varðskipsmanna? Geti hæstv. forsrh. komið með einhver slík dæmi, þá ætti það að koma fram rökstutt, en ekki gefið í skyn á dulmáli. Mér er ekki kunnugt um, að einn eða neinn þm. hafi á Alþ. eða annars staðar beint spjótum sínum að varðskipsmönnum eða áhöfnum varðskipanna í þessum málum. (Gripið fram í: Ekki einu sinni 3. landsk.?) Ég þakka þér fyrir, síst átti ég von á þessu þarna. En hvað á hæstv. forsrh. við, þegar hann segir, að till. sé beint gegn starfsliði gæslunnar, þ. e. þessum okkar bestu löggæslumönnum, eins og hæstv. ráðh. talar um? Er ráðh. að gefa í skyn, að það sé fyrst og fremst að leita skýringa hjá varðskipsmönnum um það, sem á milli ber í þessu máli? Ef svo er, þá ættu menn að tala skýrar og láta slíkt koma fram. Eða er hæstv. ráðh. að láta í það skína, að þar hafi bresturinn átt sér stað, sé um einhvern brest í kerfinu að ræða? Eða hvernig ber að skilja þessi ummæli hæstv. ráðh.? Ég get ekki skilið þau á annan veg en þann, að hann sé fyrst og fremst að benda á, að hjá þessum aðilum sé um að ræða það ágreiningsefni, sem þessi till. fjallar um. En það skyldi nú ekki vera, að einmitt varðskipsmönnum okkar væri kannske mestur greiði gerður með því að upplýsa þetta mál og koma þannig í veg fyrir að óréttlátum aðdróttunum verði að þeim beint? Ég hygg, að áhafnir varðskipanna hafi ekki á móti því, að þetta mál verði upplýst og það komi í ljós, hvar eða hvernig á þessum ágreiningi stendur, sem um er rætt.

Nei, ég held, að hæstv. forsrh. hafi tekið skakkan pól í hæðina, þegar hann reyndi að höfða til tilfinninga manna í þessu sambandi. Ég er þess fullviss, að varðskipsmenn ekki síður en aðrir telja fulla þörf á því, að hið rétta upplýsist í þessu máli.

Og svo spurði hæstv. ráðh.: „Er það viðeigandi að setja þessa menn eina undir þetta?“ — og bætir svo við: „Það er víða pottur brotinn í íslensku stjórnkerfi og kannske ástæða til að rannsaka víðar.“ Hvað á hæstv. ráðh. við með þessu? Er hann að gefa í skyn, að honum sé kunnugt um einhverja misbresti í stjórnkerfinu, sem ástæða hefði verið til að rannsaka, en hann hafi látið slíkt undir höfuð leggjast? Ég skil þetta ekki á annan veg. En sé þetta svo, þá er það miður, ráðh. En hafi þetta gerst, þá er það að bæta gráu ofan á svart að nota það sem skálkaskjól gegn rannsókn á því, sem hér er verið að ræða. Og það vil ég segja hæstv. forsrh., að minn stuðning á hann vísan til þess að upplýsa um alla þá brotnu potta í íslensku stjórnkerfi, sem hann telur þess eðlis, að ástæða sé til að rannsaka. Minn stuðning hefur hann í því. Hafi hann eitthvert slíkt dæmi, viti um eitthvað slíkt, sem hann hefur ekki enn fundið ástæðu eða hvöt hjá sér til þess að fara af stað með rannsókn á, en telur þörf til þess, þá á hann minn stuðning vísan í því. En ég tel, að hafi það gerst, að ástæða væri til slíkrar rannsókna, en þær ekki verið framkvæmdar, þá sé ekki frambærilegt að skjóta sér á bak við rannsókn sem þessa á þeim forsendum.

Ég ítreka það, að ég vísa því á bug, að nokkur alþm. hafi á einn eða neinn hátt beint sínum spjótum að áhöfnum varðskipsmanna í þessum efnum. Ég vísa því einnig á bug, að nokkur þm. það ég viti til hafi á einn eða annan hátt haft við það að athuga, að íslensku varðskipin þjónuðu þeim tilgangi, sem hæstv. ráðh. kom hér inn á, þ. e. a. s. ýmsum flutningum á ýmsum þarflegum hlutum milli svæða, sem illa eru sett með samgöngur. Ég veit ekki dæmi um, að nokkur íslenskra þm. hafi beint spjótum sínum að Landhelgisgæslunni fyrir slíkt. Það er því verið að fara út á allt aðrar brautir, þegar farið er út í að reyna að gera slíkt sem þetta að tilfinningamáli og höfða til slíkra hluta sem hæstv. forsrh. gerði hér í umr. síðast.

Þessi till. er flutt til þess og þess eins að fá upplýst, í hverju sá mikli misskilningur flest, sem er milli ásakana skipstjórnarmanna annars vegar og talsmanna Landhelgisgæslunnar hins vegar. Um það og það eitt er beðið. Og það á eftir að sýna sig, hver afstaða hæstv. alþm. til þeirrar beiðni er, þegar að því kemur, að þetta mál fær endanlega afgreiðslu hér í þingi.