10.12.1973
Neðri deild: 38. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1176 í B-deild Alþingistíðinda. (1074)

86. mál, rannsóknarnefnd vegna landhelgisgæslu

Björn Pálsson:

Herra forseti. Ég var alinn upp á mannmörgu heimili, og faðir minn hafði samband við sjómann í Bolungarvík, og hann útvegaði honum jafnan kaupafólk. Ég var því alinn upp með fólki að nokkru leyti vestan úr Bolungarvík, bæði körlum og konum. Mér líkaði vel við þetta fólk, og ég held, að það sé e. t. v. ástæðan fyrir því, að mér hefur alltaf verið hlýtt til Vestfirðinga og haft miklar mætur á þeim sem dugnaðar- og heiðursmönnum. Þetta hefur ekki breyst, síðan ég kom í þessa þd., því að marga ánægjustund hafa þeir veitt okkur. Eins og við vitum, er það venja þeirra, a. m. k. þeirra, sem eru af vestfirskum ættum, að ef einn talar, þá koma hinir og halda ræðu líka, og hér höfum við fengið gjarnan skemmtilega kosningafundi hjá þeim, og þeir hnakkrífast út af ýmsum hlutum mjög svo ánægjulegum. Með þessa hluti skara þeir langt fram úr okkur hinum þm., því að við erum yfirleitt friðsamir og nennum ekki að vera að deila um ekki neitt.

Hvað sem þessu öllu líður, — það er ekki aðalatriði málsins, — þá er hér komin fram þáltill., og er hún dálítið einkennilega orðuð. Hún er þannig:

„Neðri deild Alþingis ályktar að skipa n. samkv. 39. gr. stjórnarskrárinnar til að rannsaka framkvæmd landhelgisgæslu frá 15. okt. s. l. og kauna, hvort ásakanir, sem fram hafa verið bornar um, að gæsla landhelginnar á Vestfjarðamiðum hafi ekki verið með eðlilegum hætti, hafi við rök að styðjast.“

Þarna er bara miðað við Vestfirði.

Ef við viljum athuga, hvernig stendur á þessu, að þetta er borið fram, þá held ég, að við þurfum ekki að íhuga það mál lengi, að ástæðan er, að það er kapphlaup um atkv. vestfirskra sjómanna milli hv. 2. þm. Vestf. og Karvels, vinar okkar, 7. landsk. Þeir eru að reyna að veiða atkv. vestfirskra sjómanna. Ég sé ekki, þó að þeir deili um þetta, að þá þurfi þeir að vera að reka hnýflana í aðra menn í leiðinni, þeir geta stangast bara innbyrðis.

Það er verið að tala um það, að Bretar hafi veitt þarna meira en venjulega og jafnvel farið inn á friðað svæði. Það er nú einhver orðrómur um, að það hafi hent einhvern vestfirskan skipstjóra líka að fara inn á friðaða svæðið. En hvað sem því líður, þá er það ekki aðalatriðið. Það er verið að deila á forsrh. fyrir ummæli hans um það, að engin breyting yrði á starfsemi Landhelgisgæslunnar, þó að herskipin væru farin út fyrir þessa 50 mílna línu og samningar væru í undirbúningi. Hvað átti hann að segja annað? Átti hæstv. forsrh. að tilkynna, að landhelgin yrði ekkert varin? Ætli þeir hefðu orðið saklausari þá? Hvað gat hann sagt annað? Átti hann að bjóða þeim heim með því að tilkynna, að landhelgin yrði ekki varin, þangað til hann væri búinn að fara til fundar við breska forsætisráðherrann og vita, hvort samningar tækjust? Hvað átti hann að segja? (Gripið fram í.) Átti ekkert að fara út? Ja, hann átti þá ekki að semja? Það má deila um þennan samning, en forsrh. gat ekkert annað sagt. Það er alveg eins og þegar á að lækka gengið. Hvað ætli yrði sagt, ef viðkomandi ráðh. tilkynnti: Við ætlum að lækka gengið eftir svo sem tvo mánuði? Ætli það hefði ekki verið deilt á hann? Ætli það hefði ekki verið deilt á Ólaf Jóhannesson, ef hann hefði sagt: Við munum ekki verja landhelgina, þangað til útséð er um, hvort samningar takast eða ekki. — Hvað átti forsrh. að segja? Það má vitanlega deila um það, hvort átti að semja eða semja ekki. En það er ekki hægt að ásaka forsrh. fyrir, að hann sagði þetta, því að hann gat ekkert annað sagt og mátti ekkert annað segja.

Ég geri ráð fyrir, að enginn okkar, sem greiddum atkv. með þessum samningum, sé ánægður. Það var um tvennt að velja: að halda þessari baráttu áfram eða semja, og hvorugur kosturinn góður. Ég álít, að við höfum tekið betri kostinn, og þess vegna greiddi ég atkv. með honum. Ég hef ekkert við að athuga, þótt það séu skiptar skoðanir um það. Það hefur hver maður rétt til að hafa sína skoðun á þeim hlutum, en mín skoðun var þessi. Ég efast ekki um, að skoðun forsrh. hafi verið sú, að ef átti að halda áfram deilunum, halda áfram að klippa aftan úr bresku togurunum og þýsku, — og Bretar voru farnir með herskipin, — á meðan var verið að undirbúa þessa samninga, þá hefði ekki verið auðveldara að semja.

Það má sjálfsagt eitthvað segja um það, hvort réttar leiðir hafi verið farnar hjá yfirmönnum Landhelgisgæslunnar. Það var gersamlega ómögulegt fyrir neinn að gera svo að öllum líkaði, og það er ekki hægt að hlaupa eftir skoðunum Péturs og Páls. Þeir, sem eiga að ráða svona hlutum, verða að taka ábyrga afstöðu og mega ekki láta það hafa áhrif á sig, hvað einhver skipstjóri segir eða einhver starfsmaður í landi. Þeir verða að gera það, sem þeir álita rétt, þeir, sem bera ábyrgð á hlutunum.

Það var aðeins í eitt skipti, sem ég var svolítið uggandi, og það var þegar þeir létu kúluskotin dynja á Everton, og ég sagði forsrh., að ef það hefði verið endurtekið hvað eftir annað, þá hefði það hlotið að enda með slysum. Það var nú ekki gert nema einu sinni, og þarf ekki að deila á það. En annars fannst mér þessu mjög í hóf stillt og þó farið það, sem óhætt var, þannig að ég álít, að við ættum að vera þessum mönnum þakklátir, og yfirleitt eru engir mannasiðir að vanþakka það, sem vel er gert, og er aldrei gæfuvegur. Ég álít, að við ættum miklu frekar að þakka þessum mönnum fyrir störf þeirra, bæði yfirmönnum og undirmönnum, heldur en fara að tilefnislausu að álykta um það að skipa rannsóknarnefnd til að rannsaka störf þeirra. Hvað þýðir það í slíku tilefni að skipa rannsóknarnefnd samkv. 39. gr. stjórnarskrárinnar til að rannsaka framkvæmdina? Vitanlega á þingið ekki að samþykkja slíka till., nema það hafi rökstudda ástæðu til að ætla, að um mikla vanrækslu og yfirsjón hafi verið að ræða. Annars er það alger móðgun að skipa slíka n. á saklausa menn, sem hafa unnið sín störf vel, og ég er sannfærður um, að það er ekki til skammar mönnunum, sem hafa rækt sín störf vel, heldur væri það til skammar fyrir þingið að samþykkja slíkt.

Grikkir voru furðufuglar hér áður, og ef þeir áttu afburðamenn, var það oft siður þeirra að gera þá útlæga. Ég las það, — ég hef lesið talsvert í mannkynssögu, — um einn af þessum afburðamönnum þeirra, að það var verið að greiða atkv. um refsinguna, og maðurinn, sem var verið að ákæra, spurði einn Grikkjann að því, hvers vegna hann ætlaði að greiða atkv. með, að hann væri sekur. Það var af því að hann var orðinn leiður á því, að allir töluðu svo vel um hann og hældu honum. Það er náttúrlega hægt að samþykkja að feta í fótspor Grikkja. Þeir gátu aldrei komið sér saman um neitt, og þess vegna deildu þeir, þangað til þeir voru orðnir örmagna og aðrir gátu hrifsað þeirra ríki, lagt það undir sig. En þetta er enginn gæfuvegur. Við eigum að þakka það, sem vel er gert, en það er sjálfsagt að finna að því, sem illa er gert. En þarna liggur það ekki fyrir, heldur er það aðalatriðið, að þeir eru að smjaðra fyrir einhverjum fámennum sjómönnum á Vestfjörðum, þeir eru að reyna að koma sér vel við þá, vafalaust upp á væntanleg atkv., eins gáfulegt og það er, og afleiðingin af því er þessi þáltill.

Það má vel vera, að hv. 2. þm. Vestf. hafi bætt fyrir sér eitthvað hjá sjómönnum með því að greiða atkv. á móti samningnum við Breta. En ég er alveg sannfærður um það, að hv. 7. landsk. aflar sér engra atkv. með að koma með þessa þáltill. Ég er sannfærður um, að það er ekkert illt, sem stendur á bak við þetta, og það er ekki meining hv. 7. landsk. þm., að þetta sé nein vantrauststill. á forsrh. eða ríkisstj., heldur sé þarna um yfirsjón að ræða, og það er hæpið, að hann sé ekki farinn að sjá eftir því nú þegar að hafa komið með þessa till. Hitt er náttúrlega mannlegt að viðurkenna ekki yfirsjónir sínar. Mönnum verður það á að verja það í lengstu lög, og undir vissum kringumstæðum má kannske ekki viðurkenna, að mönnum hafi yfirsést, jafnvel þó að svo hafi verið.

Nú er það með Vestfirðingana, að það er ákaflega mikill lífsþróttur í þeim miðað við okkur hina. Þeir eru eins og stríðaldir folar, sem hlaupa og hlaupa, sem tala og tala. En það er ekki ævinlega, að mestu fjörhestarnir séu vitrastir, og vitrustu hestar, sem ég þekki, eru gamlir reiðhestar, en þeir hlaupa bara, þegar þeir þurfa að hlaupa en fara sér hægt þess á milli. Ég hef átt svo vitran reiðhest, að hann fór bara fetið, þegar hann sá, að mér lá ekkert á, en ef ég þurfti að elta skepnur, þá þurfti ég ekkert að stjórna honum. Hann komst alltaf fyrir skepnuna, og það var alveg ótrúlegt, hvað aumingja hesturinn gat hlaupið. En lífsfjör þeirra Vestfirðinganna er það mikið, að þeir hlaupa og hlaupa, þó að þeir þurfi ekkert að hlaupa, og þeir tala og tala þó þeir þurfi ekkert að tala.

Nú vill það til með þessa fjörgapa, að þeir geta bæði fótbrotnað og hálsbrotnað. Það er svo með okkur þessa bændur, að það er ákaflega fjölþætt líf í kringum okkur, og við vitum það með lömbin, að þau fara stundum ofan í holur, og það eru ýmsar ástæður fyrir því. Stundum fara þau ofan í holur, þegar þau eru nýfædd og óburða og hafa ekki vit á að sjá holurnar. Stundum eru þetta bara slys, þau eru að hlaupa. Stundum eru þau bara að stangast, og annað lambið fer ofan í holu. Og þá er það venjulegt, að móðirin stendur á bakkanum og jarmar og horfir á lambið, og þannig finnum við vanalega lambið. En í þessu tilfelli hefur orðið breyting á. Nú hefur móðirin farið ofan í holuna til lambsins. Þar á ég við, þegar hv. 3. þm. Vestf., Hannibal Valdimarsson, fer ofan í holuna til Karvels. Vitanlega er hann miklu eldri og reyndari maður, en ást hans er svo heit, að hann hefur ekki getað séð þetta pólitíska afkvæmi sitt niðri í holunni, jafnvel þó að hún væri þurr, og farið ofan í holuna líka. Nú dettur mér ekki í hug, að þessir hv., þdm. hér séu svo manndómslausir, að þeir fari að samþykkja þessa vitleysu, því að það yrði náttúrlega, eins og ég tók fram áðan, ekki þeim mönnum til skammar, sem þessu væri beint að, heldur yrði það okkur til skammar. Og ég veit, að við erum vinir þeirra hv. 3. þm. Vestf. og hv. 7. landsk. og viljum þeim vel og viljum reyna að forða þeim upp úr holunni. Þess vegna eigum við að hjálpast að, eins og þegar við erum að draga lömb upp úr holum. Við eigum að seilast ofan í holuna og kippa þeim upp úr og dusta af þeim rykið, og þá er þetta allt saman komið í besta lag.