25.10.1973
Sameinað þing: 8. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 187 í B-deild Alþingistíðinda. (108)

5. mál, varanleg gatnagerð í þéttbýli

Flm. (Helgi F. Seljan) :

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka þeim hv. þm., sem hér hafa tekið til máls og lýst yfir stuðningi við þessa till. okkar hv. 5, þm. Vesturl. Það voru aðeins tvö atriði, sem komu mér til að fara aftur upp í ræðustól. Það voru atriði í máli hv. 11. landsk. þm.

Hann ræddi um það, að við segðum það ekki í þessari till. okkar, hver ætti að gera þá framkvæmdaáætlun, sem að væri vikið, þ. e. a. s. stefnt verði að því að gera 5 ára framkvæmdaáætlun á sviði varanlegrar gatnagerðar. Hann taldi sig ekki geta staðið að samþykkt þess arna, ef Framkvæmdastofnun ríkisins ætti að taka það verkefni að sér, heldur ætti þetta verkefni að vera í höndum sveitarfélaganna, svo sem það hefði verið. Ég get að nokkru tekið undir það, þó að ég lýsi auðvitað yfir fullkomnu trausti mínu á Framkvæmdastofnun ríkisins og öllum hennar góðu og mörgu áætlunum. Ég hygg einnig, að þetta sé líka að því leyti til rétt, að Framkvæmdastofnunin hefur þegar fengið á sig ærið mikið að vinna úr af áætlunum, og m. a. af því sé það ósköp eðlilegt, að sveitarfélögunum verði falið að annast þetta verkefni, en auðvitað með tilheyrandi styrk og þá með þeirri tilheyrandi aðstoð einnig, sem Framkvæmdastofnunin gæti veitt í þessu efni, svo að það er varla, að það verði mikið ágreiningsatriði milli okkar hv. 11. landsk. þm.

Eins minntist hv. þm. á, hvernig þessi lán ættu að koma til sveitarfélaganna, sem við erum þarna að leigja til, að verði útveguð sveitarfélögunum. Ég sé heldur ekkert á móti því og get alveg fallist á það fyrir mína hönd — og ég vænti fyrir hönd okkar flm. beggja, að þessi lán renni í gegnum Lánasjóð sveitarfélaga.

Ég vil svo aðeins undirstrika það, sem ég sagði áðan í minni framsöguræðu, að um öll þessi atriði, sem þarna er að vikið, ef till. verður samþ., þá hlýtur að vera nauðsynlegt og sjálfsagt að hafa fullt samráð við Samband ísl. sveitarfélaga.