11.12.1973
Sameinað þing: 32. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1188 í B-deild Alþingistíðinda. (1085)

378. mál, sala á tækjum til ölgerðar

Fyrirspyrjandi (Helgi F. Seljan):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. dómsmrh. fyrir svör, sem hann gaf hér áðan. Ég vil sérstaklega þakka honum fyrir það, að hann skuli hafa látið þetta mál til sín taka á þann tilgreinda máta, sem hann nefndi. Það var vissulega full ástæða til þess, að þetta mál færi í ítarlega rannsókn og kannað til fullnustu, hvort hér væri um leyfilega hluti að ræða eða ekki. Þetta tilvik sannar þó ýmsar gloppur í okkar áfengislöggjöf, sem reyndar er sífellt verið að fara í kringum og jafnvel að gefa undanþágur frá. Þetta tilvik leiðir líka hugann yfirleitt að ástandi áfengismálanna í heild, því alvöru- og andvaraleysi, sem þar ríkir, en um það mætti margt segja. Hrikaleg standa vandamálin frammi fyrir okkur alls staðar, og sérhver viðbót við þennan vanda, auk þess upplausnarástands, sem ýmsum undanþágum og frávikum fylgir, er vitaverð. Það væri vissulega nógu gaman í þessu tilfelli og lærdómsríkt að virða fyrir sér áhrif þess ágæta þjónaverkfalls á ástand áfengismála hér í borg, miðað við frásagnir lögreglunnar, og er þá sérstaklega haft í huga það margumrædda frelsi, sem alltaf er verið að lofa. Þær staðreyndir koma illa heim og saman við allt það tal.

Ég vil vænta þess, að þessi rannsókn leiði ótvírætt í ljós, að hér sé um óheimila hluti að ræða. Leiði hún annað í ljós, hlýt ég að reyna að koma fram breytingum á áfengisl. í því skyni að hindra, að svona hlutir geti gerst.