11.12.1973
Sameinað þing: 32. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1192 í B-deild Alþingistíðinda. (1090)

118. mál, hafnamál

Félmrh. (Björn Jónsson) :

Herra forseti. Svar mitt við fsp. hv. 5. þm. Reykn. um höfnina í Njarðvík, er á þessa leið:

Eftir að lokið var byggingu garða í Njarðvík, eins og þeir voru boðnir út í kringum 1965, kom í ljós, að kyrrð í höfninni var mun minni en gert hafði verið ráð fyrir, og það svo mjög, að ekki er hægt að telja höfnina örugga til geymslu báta í hvaða veðri sem er. Á árinu 1972 voru síðan gerðar líkanatilraunir í Kaupmannahöfn, er leiða skyldu í ljós, hverra aðgerða væri þörf til að bæta aðstöðuna í höfninni.

Niðurstöðurnar voru þar, að æskilegast væri að lengja nyrðri hafnargarðinn með grjótgarði, u. þ. b. 184 metra, en síðan þyrfti e. t. v. að lengja hann eitthvað frekar, ef í ljós kæmi, að kyrrð yrði ekki nægileg fyrir suðaustanátt. Kostnaður við þessar framkvæmdir var áætlaður á s. l. sumri um 66 millj. kr. Þá var og talið eðlilegt, að í höfninni væri dýpkað nokkuð, eða fyrir u. þ. b. 10 millj. kr. Þá þarf að lagfæra land í kringum höfnina og bæta lagnir fyrir u. þ. b. 4 millj. kr. Telja má því, að kostnaður við að ljúka framkvæmdum í Njarðvík verði um 80 millj. kr. eða ríflega það. Í Keflavík er þörf nokkurra framkvæmda til að bæta aðstöðu, sem og vatns- og vegalagnir í nágrenni hafnarinnar.

Hingað til hafa framkvæmdir í landshöfnum verið fjármagnaðar með lánsfé skv. framkvæmdaáætlun ríkisins hverju sinni, en í fjárlögum hafa ekki verið aðrar greiðslur en afborganir og vextir af þeim sömu lánum, eftir því sem viðkomandi hafnarsjóður hefur ekki getað staðið undir þeim greiðslum. Í fjárl. yfirstandandi árs eru hins vegar teknar með þær framkvæmdir, sem unnar verða fyrir lánsfé, og þó ekki gerður greinarmunur á þeim og þeim framkvæmdum, sem fjármagnaðar eru á venjulegan máta af ríkisframlagi.

Á fjárlögum, sem liggja nú fyrir Alþingi, er ekki gert ráð fyrir fjármagni til framkvæmda í Njarðvík. Verður því að telja, að endanleg ákvörðun hafi ekki enn verið tekin um, hvenær skuli ljúka framkvæmdum þar eða að hve miklu leyti þær yrðu hugsanlega framkvæmdar á næsta ári. Fjvn., sem undirbýr afgreiðslu hafnamála, hafa hins vegar verið kynntar framkvæmdaþarfir hafnanna af Hafnamálastofnuninni og þær till., sem fyrir liggja um úrbætur. Ég efast ekki um, að fjvn., sem hv. fyrirspyrjandi á sæti i, og síðar hv. Alþingi telji sjálfsagt, að mætt verði þörfum og óskum hafnarinnar, eftir því sem frekast er unnt, — einkum vegna þess, eð það er augljóst, að á meðan nyrðri garðurinn hefur ekki verið lengdur, eru mikil mannvirki í Njarðvík lítt eða ekki nothæf, og verður að telja eðlilegt, að hafist verði handa sem allra fyrst um að ljúka áður lýstum framkvæmdum.