11.12.1973
Sameinað þing: 32. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1193 í B-deild Alþingistíðinda. (1092)

126. mál, málefni útflutningsiðnaðar og lagmetis

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Ég hleyp hér í skarðið fyrir Heimi Hannesson, varaþm., sem hefur nú vikið af þingi.

Þessi fsp. er sprottin af mjög alvarlegu vandamáli, sem útflutningsiðnaðurinn á við að stríða. Það er alkunna, að útflutningsiðnaðurinn hefur vaxið verulega á síðustu árum og þegar orðinu atvinnugrein, sem mikið munar um í þjóðarbúskapnum. Á s. l. ári voru fluttar út iðnaðarvörur — fyrir utan álvörur — fyrir 1164 millj. kr., sem er 7% af heildarútflutningi landsmanna. Síðan 1968 hefur útflutningsiðnaðurinn sexfaldast að magni og sjöfaldast að verðmæti. Reiknað er með, að útflutningur iðnaðarvöru fyrir utan ál verði 2 milljarðar kr. á næsta ári. Hér er mun mjög ánægjulega framþróun að ræða, og mikilsverðan vísi að því, sem koma skal.

Ég vil minna á, að núv. ríkisstj. hefur sett sér það fyrir að efla iðnaðinn með gerð iðnþróunaráætlunar, sem hefði það markmið að auka stórlega hlutdeild iðnaðarins í útflutningsframleiðslunni.

Þrátt fyrir vaxandi útflutning á iðnaðarvörum og ríkjandi hjartsýni um það, að Íslendingar hafi mikla möguleika til að efla útflutningsiðnað sinn, her að minna á það og vekja á því sérstaka athygli, að útflutningsiðnaðurinn á við mikla tímabundna erfiðleika að stríða. Ég vil nefna það, að útflutningsiðnaðurinn býr ekki við þá hagstæðu afurðaverðsþróun, sem sjávarútvegurinn gerir. Verðlagsmyndunin í iðnaðinum er með allt öðrum hætti og verri. Verðlag á útflutningsvörum iðnaðar fylgir því miður engan veginn eftir örum kostnaðarhækkunum hér innanlands. Útflutningsiðnaðurinn verður í mörgum tilfellum að sæta afar óhagstæðum kjörum í sambandi við bankafyrirgreiðslu. Ég hygg, að það sé rétt, að sum útflutningsfyrirtæki verði að greiða fulla refsivexti Seðlabankans af talsverðum hluta afurða- og rekstrarlána sinna. Og þá er þess að geta, að tollar á vélum og hráefni iðnaðarins eiga verulegan þátt í að skerða afkomumöguleika útflutningsiðnaðarins og draga úr samkeppnishæfni hans miðað við erlendan iðnað.

Gengishækkanir á þessu ári hafa aukið erfiðleika útflutningsiðnaðarins. Hann hefur orðið fyrir miklu gengistapi, sem hefur riðið iðnaðinum á slig, og gæti í sumum tilfellum riðið honum að fullu. Gengishækkanirnar voru í sjálfu sér fagnaðarefni og áttu fullan rétt á sér. En það sýnir best aðstöðu útflutningsiðnaðarins, miðað við sjávarútveginn, hvernig gengishækkanir hafa komið við hag viðkomandi iðnfyrirtækja. Það er augljóst, að hér gildir ekki sama í sjávarútvegi og iðnaði. Beint tap útflutningsiðnaðar í heild vegna gengishækkana á þessu ári, er talið vera um 120 millj. kr. Þetta tap kemur niður á flestum eða öllum greinum útflutningsiðnaðar, bæði í fataiðnaði og í matvælaiðnaði. Þannig er talið, að tap verksmiðja Sambands íslenskra samvinnufélaga á Akureyri sé af þessum sökum 40 millj. kr., tap Álafoss um 28 millj. kr., og heildartap lagmetisiðnaðarins um 15 millj., kr. Munar þar mest um fyrirtækið Siglósíld með 5.2 millj. kr. tap, og K. Jónsson & Co. á Akureyri, sem tapaði á stuttum tíma á tiltölulega litlu vörumagni 2.8 millj. kr. Af þessu tilefni er spurt :

„Hafa ákvarðanir verið teknar af hálfu stjórnvalda um greiðslur til útflytjenda iðnaðarvarnings og lagmetis vegna gengistaps þessara aðila í sambandi við gengisbreytingar á þessu ári?

Ef slíkar ákvarðanir hafa ekki verið teknar, er þeirra þá að vænta á þessu ári?“