11.12.1973
Sameinað þing: 32. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1196 í B-deild Alþingistíðinda. (1094)

126. mál, málefni útflutningsiðnaðar og lagmetis

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Þess er nú enginn kostur vegna þingskapa, að hefja hér almennar umr. um þessi efni. Ég vil þakka hæstv. ráðh. fyrir svör hans. Það er a. m. k. ljóst, að ríkisstj. er að búa sig undir það, að bæta hag útflutningsiðnaðarins og hefur þá til hliðsjónar það, sem ég gerði hér sérstaklega að umræðuefni, gengistapið á þessu ári. Hins vegar kom í ljós, að hæstv. ráðh, hafði fyrir sér aðrar skýrslur en mér voru fengnar í hendur um heildartap iðnaðarins þess vegna á þessu ári, þannig að verulegu munar, og skal ég ekki þrátta um það við hann. Það hlýtur að koma í ljós, hvort réttara sé. En ég vil leggja höfuðáherslu á, að það ber brýna nauðsyn til þess að taka þessi mál til skoðunar og hraða því máli og bæði almennt að bæta rekstraraðstöðu iðnfyrirtækja í landinu og þá sérstaklega útfltn.fyrirtækjanna, en alveg sérstaklega verður að gera kröfu til þess, að gengistapið, sem varð á árinu, verði bætt með einhverjum hætti. — Því miður leyfir tíminn það ekki, að ég ræði þetta frekar, en ég vænti þess, að þetta verði til þess, að þessu máli verði hraðað hjá hæstv. ríkisstj., því að til þess er ærin ástæða.