11.12.1973
Sameinað þing: 32. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1199 í B-deild Alþingistíðinda. (1098)

387. mál, Aðaldalsflugvöllur og flugsamgöngur við Kópasker

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Það eru aðeins tvö eða þrjú atriði, sem ég vil bæta við, sem mér virðist ekki hafa komið fram í sambandi við þessa fsp.

Í fyrsta lagi er svo í sambandi við Aðaldalsflugvöll, að hann er ógirtur og flugmenn vilja ekki setjast þar nema yfir birtutímann. Þetta er stór flugvöllur, eins og menn vita, og þjónar stóru héraði. Er þetta mjög hagalegt, og verður úr að bæta hið bráðasta.

Í öðru lagi er aðstaða þarna mjög slæm fyrir farþega. Það er t. d. ekkert vatn þarna í biðskýlinu og sem sagt öll þjónusta mjög ófullkomin af þeim ástæðum. Þetta er líka mjög brýnt atriði.

Í sambandi við flugið aftur á Kópasker, þá var ég á fundi þar í haust, þar sem var mikið rætt af heimamönnum um þetta mál, og kom í ljós á þeim fundi, að það eru engar áætlunarferðir, hvorki á landi né sjó eða í lofti, frá því um miðjan október og fram til 1. júní. Það er bara póstflugið tvisvar í viku frá Akureyri. Það eru einu ferðirnar, sem þangað eru, og þess vegna er fólkið þar mjög óánægt með þessa þjónustu.