11.12.1973
Sameinað þing: 32. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1200 í B-deild Alþingistíðinda. (1099)

389. mál, raforkumál á Snæfellsnesi

Fyrirspyrjandi (Benedikt Gröndal) :

Herra forseti. Raforkumál á Snæfellsnesi hafa lengi verið í hinum mesta ólestri, en sennilega hefur ástandið aldrei verið verra en nú undanfarið. Sem dæmi má nefna, að í Ólafsvík er rafmagn tíðum tekið af fyrirvaralaust og framkvæmd skömmtun, án þess að nokkur aðvörun sé gefin til notenda. Í Stykkishólmi er spenna oft svo lág, að hvers konar rafmagnstæki eru í alvarlegri hættu, þ. á m. tæki hjá atvinnufyrirtækjum, en skemmdir á tækjum, t. d. sjónvarpstækjum, eru mjög tíðar. Af öðrum stöðum er svipaða sögu að segja.

Þegar ástand er svona fyrir, er von, að Snæfellsnesingar hafi vaxandi áhyggjur af þessum málum á tímum orkukreppu, enda eru horfur á því, að þeir geti fengið mikið rafmagn til hitunar, eins og sakir standa harla litlar. Þurfa þó margar fjölskyldur þar að borga 6–10 þús. kr. á mánuði til að hita upp hús sín.

Snæfellsnes er eitt samtengt rafveitukerfi með einni vatnsaflsstöð og þremur dísilstöðvum. Helsta framkvæmd til úrbóta, sem þar hefur verið gerð í seinni tíð, voru kaup á gamalli notaðri dísilvél frá Bretlandi, og var hún sett upp í Ólafsvík.

Lengi hefur verið barist fyrir því, að fá þetta rafveitukerfi á Snæfellsnesi tengt við önnur orkusvæði, til þess að hægt verði að jafna orku og e. t. v. að jafna eitthvað rafmagnsverð, sem er þarna mjög hátt. Hefði raunar þurft að koma þessari tengingu á fyrir löngu, en á henni bólar varla enn. Þess vegna hef ég leyft mér að flytja fsp. til hæstv. orkumálaráðh., sem hljóðar á þessa leið:

„Hvenær er þess að vænta, að Snæfellsnes verði tengt við Andakíls- og Landsvirkjanir eða aðrar umbætur verði í raforkumálum Snæfellinga?“