11.12.1973
Sameinað þing: 32. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1202 í B-deild Alþingistíðinda. (1104)

390. mál, hitun húsa með raforku

Heilbr.- og trmrh. (Magnús Kjartansson) :

Herra forseti. Eins og hv. fyrirspyrjandi gat um, er spurt, hvað liði framkvæmd þáltill. um hitun húsa með raforku, sem samþ. var á Alþ. 1. mars 1971. Í þeirri þál. var skorað á iðnrh. að beita sér fyrir aukinni húsahitun með raforku á öllum þeim svæðum, þar sem jarðhita er ekki völ sem hagkvæmari hitagjafa.

Þau svæði, sem þarna er átt við, eru framar öllu á Austfjörðum og Vestfjörðum, svo og vissum svæðum öðrum, svo sem Akureyri, Vestmannaeyjum, á austanverðu Suðurlandi, Snæfellsnesi, í Dölum og nokkru víðar.

Á Austfjörðum og Vestfjörðum eru nú vatnsaflsvirkjanir í smíðum, sem ætlað er m. a. að vinna raforku til húshitunar á þessum svæðum. Það er enn mikil raforka unnin með dísilstöðvum, og mun svo verða, uns þessar nývirkjanir við Lagarfoss og í Mjólká koma í gagnið. Samt hefur sala raforku til hitunar, t. d. á Austurlandi, vaxið mjög verulega á síðustu árum. Á Snæfellsnesi er einnig unnin talsverð orka með dísilvélum, en gert er ráð fyrir, að á árinu 1974 verði það svæði tengt við Borgarfjörð, eins og ég gat um áðan, og þar með raunar einnig við Landsvirkjunarkerfið. Sú samtenging mun svo mjög eflast við tilkomu byggðalínu til Norðurlands, en gert er ráð fyrir, að sú lína tengist Borgarfjarðarkerfinu nálægt Andakílsárvirkjun.

Þegar núv. ríkisstj. ákvað að nota sér lagaheimild til virkjunar við Sigöldu, var því lýst yfir, að þeirri virkjun væri m. a. ætlað að sjá fyrir raforku til húshitunar. Núv. ríkisstj. tók einnig ákvörðun um að leggja línu frá Landsvirkjunarkerfinu til Norðurlands, en sú lína gerir það mögulegt að nýta orku Sigölduvirkjunar til húshitunar á Norðurlandi einnig, ekki hvað síst á Akureyri. Virkjun við Sigöldu er nú hafin, og lagning linu til Norðurlands hefst áður en langt um líður. Allar framkvæmdir í virkjunarmálum, sem núv. ríkisstj. hefur tekið ákvörðun um, miða þannig að því að koma í framkvæmd þeirri aukningu rafhitunar, sem þáltill. fjallaði um.

Að sjálfsögðu taka þessar framkvæmdir og aðrar ráðstafanir í sama skyni sinn tíma. Meginatriðið er, að mörkuð sé skýr stefna í þessum málum, þannig að húsbyggjendur og aðrir viti, hvers þeir mega vænta. Enda þótt ekki sé hagkvæmt að selja raforku frá dísilstöðvum til húshitunar, getur slíkt þó verið réttlætanlegt um skamma hríð, ef með því er búið í haginn fyrir framtíðina og markaður skapaður fyrir væntanlegar vatnsaflavirkjanir, sem þannig fá betri nýtingu en ella. Þetta hefur einmitt gerst að undanförnu.

Sem dæmi má nefna, að á Austurlandi jókst sala raforku til húshitunar um 249% frá árinu 1970 til 1972, og horfur eru á, að Lagarfossvirkjun fái mjög góða nýtingu þegar frá byrjun. Á Suðurlandi hefur aukningin á sama tíma verið 82%, á Norðurlandi vestra 77%, á Vesturlandi um 64%, á Norðurlandi eystra um 29% og á Vestfjörðum um 11%.

Með nýjustu viðhorfum í olíumálum er enn meiri nauðsyn en áður til að hraða notkun innlendra orkugjafa í stað innfluttra til húshitunar. Í samræmi við það hefur iðnrn. nú alveg nýlega falið verkfræðistofu hér í borg að gera á því athugun í samráði við Orkustofnun, hvernig helst megi flýta allri þessari þróun, og farið þess á leit við Seðlabankann, að hann geri fjármögnunaráætlun, sem tryggt geti sem skjótastar framkvæmdir.