11.12.1973
Sameinað þing: 32. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1204 í B-deild Alþingistíðinda. (1106)

390. mál, hitun húsa með raforku

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Út af svari hæstv. ráðh. við þessari fsp. vil ég gera örstutta aths. Hann ræddi um, að það gæti borgað sig að nota dísilafl til þess að framleiða rafmagn til að hita upp hús um stundarsakir, og þetta getur verið rétt hjá honum að vissu marki. En því miður er ástandið í raforkumálum það slæmt sums staðar, að þetta nálgast að vera hrein della.

Þannig er ástandið t. d. á Norðurlandi núna, að Laxárvirkjun kaupir olíu fyrir um 25 millj. kr. á þessu ári. Með verðlagi á næsta ári sjá allir, hvað það verður. Það kostar nú 2 kr. í olíukaupum að framleiða kwst., sem hún selur á 1 kr., þannig að það sjá allir, hvert þetta stefnir, og með stóraukinni orkuþörf á Norðurlandi mun það kosta tugmilljónir. Þá verður hægt að tala um hundruð millj. í olíukaupum, ef á að fullnægja þessu á Norðurlandi, þannig að það er sjáanlegt, að eitthvað verður að gera í þessum efnum, ef þetta á að vera hægt, a. m. k. á því svæði. Það verður einhver aðili að koma til að greiða þennan mismun eða hluta af honum, ef þessi stefna á að vera fær, að því er mér sýnist, á Norðurlandi.