11.12.1973
Sameinað þing: 32. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1204 í B-deild Alþingistíðinda. (1107)

391. mál, verðlagning ríkisjarða

Fyrirspyrjandi (Ólafur G. Einarsson):

Herra forseti. Á þskj. 155 beini ég svohljóðandi fsp. til hæstv. landbrh. um verðlagningu ríkisjarða:

„1) Hefur landbrh. sett sér einhverjar ákveðnar reglur til þess að fara eftir við ákvörðun ríkisjarða?

2) Ef svo er, hverjar eru þær reglur, og eru þær breytilegar eftir því, hvort kaupandi er sveitarfélag eða einstaklingur?

3) Er ákvörðun um söluverð ríkisjarða í hendi landbrh, eins?“

Um ástæður fyrir þessum fsp. þarf ég ekki að hafa mörg orð. Það er að sjálfsögðu æskilegt að fá upplýsingar um það, hvort einhverjar fastar reglur hafi verið settar um verðlagningu ríkisjarða, sem landbrh. selur, hvort sem hann selur þær með hinni almennu heimild í l. nr. 102 1962, um ættaróðul, ættarjarðir, erfðaábúð og sölu þjóð- og kirkjujarða, eða þá samkv. sérstakri heimild frá Alþingi. Þá er ekki síður æskilegt að fá upplýst, hvort aðrar reglur gildi um verðlagningu jarða, sem seldar eru einstaklingum, en ef selt er sveitarfélögum.

Ég spyr um þetta atriði m. a. vegna þeirra upplýsinga, sem hæstv. landbrh. veitti hér á hv. Alþ. fyrir skömmu um söluverð jarðarinnar Birningsstaða í Laxárdal, en hún var seld einstaklingi á 155.500 kr., og hefur sú sala vakið töluverða athygli, svo að ekki sé meira sagt.

Mér er að vísu kunnugt um lágt verð einnig til ýmissa sveitarfélaga, en varla þó eins og þetta. Þess vegna er spurt, hvort breytilegar reglur gildi um þetta atriði.

Í þriðja lagi er fróðlegt að fá að vita, hvort landbrh. einn ákveði verðið. Mér er að sjálfsögðu ljóst, að það er hægurinn hjá fyrir núv. hæstv. landbrh. að ráðgast um þetta við hæstv. fjmrh., en ég er hér ekki að spauga, mér þykir aðeins rétt að fá þetta upplýst.