11.12.1973
Sameinað þing: 32. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1206 í B-deild Alþingistíðinda. (1109)

391. mál, verðlagning ríkisjarða

Fyrirspyrjandi (Ólafur G. Einarsson) :

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. landbrh. fyrir svör hans. Ég sakna þess, að mér þótti ekki koma fram í þeim, að nægilega ákveðnar reglur giltu um það, þegar ríkisjarðir eru verðlagðar. Mér sýnist vera ákveðið ósamræmi í verðlagningu ríkisjarða eftir því, hvort þær eru seldar einstaklingum eða sveitarfélögum. Mér er ljóst, að ákvæði l. nr. 102 frá 1962 segja til um, að þær jarðir skuli seldar ábúanda á fasteignamatsverði, en það er engin ákveðin regla til um þetta varðandi sölu til sveitarfélaga.

Ég held, að það megi fullyrða, að það sé ákveðin hreyfing fyrir því hjá rn. að selja sveitarfélögum jarðir á hærra verði en þær eru seldar einstaklingum. Mér er kunnugt um, að gerður hefur verið samningur milli landbrn. og Grýtubakkahrepps nýlega, og þar sýnist mér, að álag á fasteignamat sé um 55%, og á hluta af landinu, þ. e. a. s. þar sem þorpið sjálft stendur, Grenivík, er lagt 85% á fasteignamatið. Þetta gerist á sama tíma, og jörðin Birningsstaðir, sem ég nefndi hér áðan, er seld á fasteignamati 155.500 kr., en að því er sagt er, var hún metin á 60 millj. kr. í Laxárdeilunni, þegar hún stóð sem hæst. Hér sýnist mér vera um mismunun að ræða. Ég tel, að ríkið eigi ekki að spenna upp verðið til sveitarfélaga. Það á frekar að stuðla að því, að sveitarfélögin eignist það land, sem þeim er nauðsynlegt, og á sem hagstæðustu verði. Þetta hefur ríkisvaldið raunar viðurkennt með því að veita framlag í landakaupasjóð, nú 10 millj., á ári. Fastmótuð stefna í þessu er nauðsynleg.