25.10.1973
Sameinað þing: 8. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 190 í B-deild Alþingistíðinda. (111)

13. mál, útbreiðsla sjónvarps

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Till. sú, sem hér er á dagskrá, er sams konar till. og ég ásamt 7 sjálfstæðismönnum höfum flutt hér og er næsta mál á dagskrá. Báðar þessar till. gera ráð fyrir, að ráðstafanir verði gerðar til að koma upp endurvarpsstöðvum fyrir þá sveitabæi, sem nú njóta ónothæfra eða engra sjónvarpsskilyrða, þetta verði gert innan ákveðinna tímamarka og sérstaks fjármagns verði aflað í þessu skyni.

Till. sú, sem ég vitnaði í, að ég væri flm. að ásamt 7 öðrum sjálfstæðismönnum, er endurflutt. Hún var flutt á síðasta þingi. Ég sagði, að þessar till. væru að efni eins. Öll þau rök, sem hv. 1. þm. Vestf. færði fyrir sinni till., get ég tekið undir, enda eru þau algerlega shlj, grg., sem fylgdi till. okkar sjálfstæðismanna á síðasta þingi og er endurprentuð með till. þeirri, sem hér hefur verið lögð fram. Með tilliti til þessa tel ég ekki rétt að taka frekari þátt í umr. um afrit af till. okkar sjálfstæðismanna, en mun ræða þetta mál í heild, þegar kemur að umr. um frumritið.