11.12.1973
Sameinað þing: 32. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1207 í B-deild Alþingistíðinda. (1111)

128. mál, bygging leiguíbúða á vegum sveitarfélaga

Fyrirspyrjandi (Jónas Jónsson) :

Herra forseti. Á síðasta þingi voru samþykktar breytingar á l. nr. 30 frá 12. maí 1970, um Húsnæðismálastofnun ríkisins. Breytingar þessar voru þess efnis, að heimilað var að veita lán til byggingar leiguíbúða á vegum sveitarfélaga, er næmi allt að 80% af byggingarkostnaði. Þetta hefur verið nefnt því nafni, að þarna væri verið að flytja Breiðholtsframkvæmdirnar út um landið. Hefur því mjög verið fagnað víða um landsbyggðina, enda hið mesta byggðajafnvægis- og þjóðþrifamál. Það er grundvallaratriði fyrir vöxt og viðgang atvinnulífs í fjölda byggðarlaga, að fólk, sem þangað vill flytja til starfa, geti fengið þar húsnæði, og því betur er það nú svo og þannig háttað atvinnulífi á fjölda staða allt í kringum landið, að það er þörf fyrir fleiri hendur til vinnu, og því betur er einnig þannig háttað hugsunarhætti fólks, að það vill í auknum mæli setjast að á slíkum stöðum. Fjöldi sveitarstjórnarmanna og fyrirsvarsmanna sveitarfélaga hefur sýnt þessu máli mikinn áhuga. Mér er kunnugt um það, að að undirbúningi þessa hefur verið unnið og m. a. að könnun á ástandi húsnæðismála og áætlaðri húsnæðisþörf á vegum Húsnæðismálastofnunarinnar. En vegna þess mikla áhuga, sem fjöldi stærri og smærri sveitarfélaga hefur sýnt ú þessu, og vegna þess að ég hygg, að mörgum muni þykja girnilegt til fróðleiks að fá að vita, hvernig þessi mál standa nú, hef ég leyft mér að bera fram eftirfarandi fsp. til hæstv. félmrh. á þskj. 160:

„1. Hvað líður undirbúningi að byggingu leiguíbúða á vegum sveitarfélaga í samræmi við heimild laga nr. 58 frá 30. apríl s. l. um breyting á l. um Húsnæðismálastofnun ríkisins?

2. Hefur verið sett reglugerð um framkvæmd þessa?

3. Hve margar umsóknir hafa borist frá sveitarfélögum um stuðning samkv. þessum ákvæðum?“