11.12.1973
Sameinað þing: 32. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1209 í B-deild Alþingistíðinda. (1114)

143. mál, gjald til Iðnnemasambands Íslands

Fyrirspyrjandi (Svava Jakobsdóttir) :

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram þá fsp. til hæstv. menntmrh., sem prentuð er á þskj. 193. Fsp. er í tveim liðum og er á þessa leið:

„1. Hvað líður innheimtu gjalds til Iðnnemasambands Íslands samkv. l. nr. 68 1972, um breyt. á l. nr. 68 11. maí 1966, um iðnfræðslu?

2. Hve hárri fjárhæð nemur þetta gjald frá gildistöku laganna?“

Umrædd lagabreyting, sem gerð var 1972, kveður svo á, að komi námssamningur til staðfestingar hjá iðnfulltrúa, skuli hann taka ákveðið gjald af báðum samningsaðilum, er greiðist Iðnnemasambandi Íslands og fari til eflingar fræðslustarfsemi þess um iðnfræðslulöggjöfina. Gjald iðnfyrirtækis eða iðnmeistara skal vera 1% af fyrsta árs árlegu lágmarkskaupi iðnnema í rafvirkjun, eins og það er hverju sinni, en gjald nemans 1/2% af sömu upphæð. Gjald þetta á samkv. lagagr. að greiðast í eitt skipti fyrir öll.

Fsp. mín er borin fram sökum þess, að þrátt fyrir fortakslaust lagaboð um þessa greiðslu til Iðnnemasambandsins hefur enn engin innheimta farið fram og Iðnnemasamband Íslands því ekki fengið eyri af því, sem því ber. Ekki er um að kenna vanrækslu af hálfu Iðnnemasambandsins, því að það hefur spurt eftir þessu hjá Iðnfræðsluráði og verið í stöðugu sambandi við hæstv. menntmrh. og rn. hans frá því snemmsumars 1972. Síðast tók Iðnnemasambandið til bragðs á þingi sínu í haust að kjósa fjögurra manna n. til þess að fylgja eftir framkvæmd þessara l., og hefur hún starfað síðan, m. a. með erindrekstri við menntmrn. Þessi viðleitni hefur því miður engan árangur borið heldur og því ekki annars úrkosta en fylgja málinu eftir hér á hv. Alþ. og fara þess á leit, að hæstv. ráðh. geri grein fyrir málinu.

Nú mun það hins vegar hafa gerst 4. des. s. l.menntmrn. skrifaði Iðnfræðsluráði, vakti athygli þess á lögunum og lagði fyrir það að hlutast til um, að iðnfulltrúar innheimtu þetta gjald af öllum samningum, sem staðfestir hafa verið eða verða frá gildistöku laganna. Málið getur þó engan veginn talist leyst með þessu bréfi, því að ein ástæða þess, að innheimta er enn ekki hafin, er sú, að Iðnfræðsluráð hefur ekki talið sig geta lagt út þann kostnað, sem innheimtunni fylgir. Í fjárhagsáætlun fyrir árið 1973 lagði það ákveðna till. fyrir rn. um fjárveitingar í þessu skyni. Rn. varð ekki við þeim kröfum og ræddi aldrei mér vitanlega málið við Iðnfræðsluráð. Þessa áætlun um kostnað vegna innheimtunnar hef ég raunar séð og tel þær till. óraunhæfar og úr hófi fram. Hinu verður ekki neitað, að eitthvað mun innheimtan kosta, og að mínum dómi ber rn. skýlaus skylda til að greiða þar fyrir og kalla Iðnfræðsluráð á sinn fund til að leysa þetta mál.

Bréf rn. leysir ekki þau vandkvæði, sem Iðnfræðsluráð telur á innheimtunni, enda þótt gott sé, að það skuli nú fá skýlaus fyrirmæli um innheimtuna. Því er fyllsta ástæða nú til þess að spyrja, hvernig hæstv, ráðh. hefur hugsað sér framkvæmd málsins hér eftir, hvort rn. hans muni hlutast til um, að Iðnfræðsluráði verði gert kleift að innheimta gjaldið, eða hvort rn. hans muni gera sjálft till. um innheimtu. Því verður varla trúað, að ekki sé hægt að innheimta þetta með auðveldu móti, t. d. með því að gera iðnfulltrúum að skyldu að senda það í póstgíró beint til Iðnnemasambandsins. Síðan ætti að vera auðvelt að bera greiðslurnar saman við fjölda staðfestra samninga reglulega eða á vissum fresti.

Þá vil ég loks spyrja hæstv. ráðh., hvernig hann hefur hugsað sér, að þetta gjald verði innheimt hálft annað ár aftur í tímann, en mér er tjáð, að það sé skoðun fleiri en eins meðlims Iðnfræðsluráðs, að slíkt sé nánast ókleift.