11.12.1973
Sameinað þing: 32. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1210 í B-deild Alþingistíðinda. (1115)

143. mál, gjald til Iðnnemasambands Íslands

Menntmrh. (Magnús T. Ólafsson) :

Herra forseti. Efnisatriði laganna sem hv. fyrirspyrjandi vitnaði til, l. nr. 68 frá 1972, hljóða þannig:

„Er námssamningur kemur til staðfestingar hjá iðnfulltrúa, skal hann taka ákveðið gjald af báðum samningsaðilum, er greiðist Iðnnemasambandi Íslands og fari til eflingar fræðslustarfs þess um iðnfræðslulöggjöfina. Gjald iðnfyrirtækis eða iðnmeistara skal vera 1% af fyrsta árs árlegu lágmarkskaupi iðnnema í rafvirkjun, eins og það er hverju sinni, en gjald nemans 1% af sömu upphæð. Greiðist það í eitt skipti fyrir öll.“

Eins og kemur fram í l., skulu iðnfulltrúar innheimta þetta gjald. Þeir eru skipaðir af Iðnfræðsluráði og teljast starfsmenn þess. Þegar menntmrn. vakti athygli Iðnfræðsluráðs á tilfærðu lagaákvæði, taldi ráðið ýmis tormerki á að framkvæma innheimtu þessa, og við undirbúning fjárl. fyrir árið 1973 sótti ráðið um 779 þús. kr. fjárveitingu í þessu skyni. Menntmrn. gat ekki fallist á þessa till., eins og segir í bréfi rn. til fjárlaga- og hagsýslustofnunarinnar, dags. 3. júlí 1972. Þar segir:

„Hvað viðvíkur áætlun um skattheimtu fyrir Iðnnemasamband Íslands, getur rn. ekki fallist á till. Iðnfræðsluráðs. Í lögum er gert ráð fyrir, að iðnfulltrúar hafi umsjón með þessu verkefni, og ekki sjáanleg nauðsyn, að innheimta verði svo umfangsmikil sem hér er ætlað.“

Rn. hefur talið, að þessi áætlaði kostnaður sé mjög svo óeðlilega hár við svona, að því er virðist, einfalda og fábrotna innheimtu. Á grundvelli þess, að fjárveiting þessi hefur ekki fengist, hefur Iðnfræðsluráð hins vegar þverskallast við að hefja innheimtu þessa. Hefur staðið í þessu þófi, þar til rn. með bréfi, dags. 4. des. 1973, lagði fyrir Iðnfræðsluráð „að hlutast til um, að iðnfulltrúar innheimtu framangreint gjald í samræmi við lagafyrirmælin, og beri að skila því jafnharðan til Iðnnemasambandsins. Gjaldið greiðist af öllum samningum, sem staðfestir hafa verið eða verða frá gildistöku l. nr. 68 frá 29. maí 1972.“

Það var ekki rétt hjá hv. fyrirspyrjanda, að rn. hafi aldrei hreyft þessu máli við Iðnfræðsluráð fyrr en með þessu bréfi. Það hefur verið gert.

Þess skal getið, að Iðnnemasambandið áætlaði kostnað við fræðslustarfsemi á vegum sambandsins síðari hluta ársins 1972 165111 kr., og veitti rn. 90 þús. kr. til sambandsins í þessu skyni utan fjárl., þegar sýnt var, að dráttur yrði á innheimtunni af hálfu Iðnfræðsluráðs.

Ég mun að sjálfsögðu gera ráðstafanir til þess að fylgja eftir bréfi rn. með öllum tiltækum ráðum, en er ekki reiðubúinn að taka fram í einstökum atriðum á þessari stundu, hver hentugust þykja.

Síðara lið fsp. er því að svara, að Iðnfræðsluráð hefur ekki getað látið menntmrn. í té nákvæma tölu um staðfesta iðnsamninga frá 29. maí 1972, þegar l. gengu í gildi. Það hefur látið í té tölu um iðnsamninga á árinu 1972. Þeir eru 700 talsins, þannig að fjárhæð sú, sem hér um ræðir og hefði átt að koma til innheimtu á því ári, mun nema nálægt 1.4 millj.