11.12.1973
Sameinað þing: 32. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1212 í B-deild Alþingistíðinda. (1117)

143. mál, gjald til Iðnnemasambands Íslands

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Það var á þinginu 1971–1972, sem flutt var það frv., sem hér er til umr., og það náði lögfestingu. 1. flm. þess var Sigurður Magnússon, sem þá var forustumaður Iðnnemasambandsins. Frv. fól það í sér, að greiða skyldi gjald, sem næmi 1% af árlegu lágmarkskaupi iðnnema 1. árs í rafvirkjun, neminn sjálfur skyldi greiða 1/2% af sömu upphæð, og þetta fé skyldi notað, eins og segir í grg. fyrir frv., til þess að „auðvelda Iðnnemasambandi Íslands að halda uppi af sinni hálfu nauðsynlegu fræðslustarfi meðal iðnnema um iðnfræðslulöggjöfina og lögbundinn rétt þeirra.“ Þessu frv. var vísað til iðnn. Nd. og var rætt mjög ítarlega. Þar lögðum við Lárus Jónsson til að önnur fjáröflunarleið yrði valin en þessi. Við töldum, eins og kemur fram í nál. iðnn., vafasamt að taka upp nýjan markaðan skatt og auk þess leggja hluta kostnaðar á sjálfa iðnnemana. Um leið og við lýstum okkur því eindregið fylgjandi, að Iðnnemasambandinu yrði aflað fjár í þessu skyni, var till. okkar því sú, að þess fjár skyldi aflað með því að veita í fjárl. jafnháa upphæð og ætlað var, að skatturinn mundi nema. Því miður fékk þessi till. okkar ekki áheyrn hjá stjórnarliðum, sem vildu samþykkja frv. í meginatriðum eins og það lá fyrir með þessum skatti á iðnmeistara og iðnnemana sjálfa.

Nú hefur komið í ljós, að allt hefur þetta farið í handaskolum, og sést af því, að betra hefði verið fyrir stjórnarliða að fylgja till. okkar um fjárveitingu í þessu skyni. En það er ekki von, að hæstv. ríkisstj. leysi hin stærri vandamál þjóðfélagsins, fyrst hún þarf að klúðra með þetta mál.