12.12.1973
Sameinað þing: 35. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1215 í B-deild Alþingistíðinda. (1125)

1. mál, fjárlög 1974

Frsm. meiri hl. (Geir Gunnarsson) :

Herra forseti. Strax og fjvn. hafði verið kosin nú í haust, hóf hún störf við athugun fjárlagafrv., nokkru áður en því var formlega vísað til hennar. N. hafði, þegar meiri hl. hennar skilaði nál., haldið 42 fundi, en síðan hefur einn bæst við, svo að alls eru fundirnir orðnir 43, auk þess sem undirnefndir í sérstökum málaflokkum hafa haldið marga fundi, þó einkum undirnefnd í skólamálum, sem oft hefur lagt nótt við dag í störfum sínum.

Enda þótt n. skili þrem nál. og greinist í meiri hl. og tvo minni hl., gefur það ekki rétta mynd af því, hvernig þessir aðilar standa að störfum í n. á þeim tíma, sem hún hefur fjárlagafrv. til meðferðar, heldur hefur samstarfið sem fyrr verið með miklum ágætum. Ég vil því koma á framfæri sérstöku þakklæti mínu til meðnm. minna, sem allir hafa lagt sig fram um, að störfin mættu ganga sem greiðlegast. Á það ekki síður við um fulltrúa stjórnarandstöðunnar en hina. Þeir hafa sem jafnan fyrr staðið að málum af heilindum og drengskap í minn garð, og fyrir það flyt ég þeim þakklæti mitt og met mikils þeirra framkomu. N. hefur notið atfylgis hagsýslustjóra og starfsliðs hans í störfum sínum, og flyt ég þeim aðilum þakkir n.

Á fund n. koma á hverju hausti forstöðumenn margra ríkisstofnana og gera grein fyrir starfsemi stofnana sinna og því, sem þeim þykir áfátt um áætlaðar fjárveitingar til þeirra á komandi ári. Auk þess sækja aðrir aðilar, einkum forsvarsmenn sveitarfélaga og félagssamtaka, mjög á um að fá viðtöl við n. Í þetta fara margir fundir, og meðan verður ekki að öðru unnið. Miðað við verkefni er tími n. til starfa í rauninni mjög naumur. Henni berst gífurlegur fjöldi erinda, að þessu sinni talsvert á 6. hundrað, og því miður hefur ekki tekist að tryggja, að þau berist fyrir eðlileg tímamörk. Athuga verður og skoða stöðu hverrar skólatryggingar, sem unnið er að eða sótt er um að byggja, hvers sjúkrahúss, heilsugæslustöðvar og læknisbústaðar, og ræða verður um einstaka verkþætti í hverri einustu höfn í landinu, bera þetta saman og meta og vega, þegar ákvarðanir eru teknar um áframhaldandi fjárveitingar eða nýjar fjárveitingar. Þegar haft er í huga, að tími n. til að skila störfum er afmarkaður, er ekki að ófyrirsynju, að nm. þyki nokkuð langur tími fara í þessi viðtöl, og þau eru vissulega vandamál. Eftir þeim er mjög fast leitað, jafnvel mest síðustu dagana, sem n. hefur til umráða og brýnt er að nota til annarra óhjákvæmilegra starfa, ef unnt á að vera að skila till. í tæka tíð.

Mér er alveg ljóst, að stundum og jafnvel æðioft kemur tiltölulega lítið fram í þessum viðtölum. Þó að ýmis þeirra séu mjög gagnleg og óhjákvæmileg nauðsyn. Ég hef fyrir mitt leyti ekki viljað ganga langt í því að takmarka þau, þótt milli þörf sé fyrir tímann til annarra starfa fyrir einstaka nm. og n. í heild.

Því miður hefur ekki, eins og ég áðan sagði, tekist sem skyldi að tryggja, að umsóknir berist í tíma, heldur rignir þeim yfir n., þegar mest er að gera, t. d. bárust um 200 erindi nú frá byrjun nóv. Það er því vissulega ekki mikill tími til viðtala. En hitt má að mínum dómi ekki vanmeta, að persónulegar viðræður nm. sameiginlega við embættismenn ríkisins, við sveitarstjórnarmenn og forustumenn félagasamtaka eru þræðir, sem varast verður að slíka. Verði slík viðtöl lögð niður í ríkum mæli eða með öllu, er hætt við, að n. lokist inni um of frá hinum raunverulegu umbjóðendum sínum, svo og frá þeim stofnunum ríkisins, sem hún ætti að hafa enn meiri tengsl við en hún hefur til þessa getað. Þótt n. megi varla af tímanum sjá til viðtala, því að hans er jafnan brýn þörf til annarrar vinnu við afgreiðslu fjárlagafrv., þá er hætt við, að hún lokaðist jafnvel um of inni og hver nm. ætti þá nær eingöngu samskipti við aðila úr sínu eigin kjördæmi. Slík vinnubrögð væru ekki holl fyrir n., sem á að vinna þau störf, sem fjvn. fyrir.

Kynni nm. af vandamálum sveitarfélaga og stofnana hvarvetna um landið, sem fengin eru með persónulegum viðtölum n. við þá, sem þau bera fram, eru nauðsynleg, og úr þeim má ekki draga. Að hinu ber fremur að hyggja, hvort unnt er að koma þeim fyrir að einhverju leyti með öðrum hætti en venjan hefur verið um langt skeið, að þessir aðilar komi til viðtals við n., þegar hún er harðast keyrð í störfum og yfir hana rignir látlaust nýjum erindum. Þegar um hægist, verður fjvn. að taka þessi mál til sérstakrar athugunar, hvernig hún getur viðhaldið og jafnvel aukið tengsl sín við þá, sem hagsmuna eiga að gæta í sambandi við fjárveitingar í fjárl., án þess að það komi í sama mæli og nú niður á þeim knappa tíma, sem n. hefur til afgreiðslu mála á lokastigi.

Annað vandamál, sem óhjákvæmilegt er að fá lausn á, er frammistaða ýmissa rn. og ríkisstofnana í sambandi við afgreiðslu fjárl. Þau gögn, sem þessir aðilar eiga að leggja fyrir n., koma of seint. Þau ættu að vera fyrir hendi, áður en þing kemur saman. En það virðist fara á einn veg, hvernig sem að er farið til þess að fá þessum gamla óvana breytt, að vera með allt á síðustu stundu og leggja frumgögn fyrir n. um það leyti sem hún ætti að vera að ljúka tillögugerð. Samtímis láta sjálf rn. rigna yfir n. eins og skæðadrífu nýjum erindum frá því í nóv. og allra örast eftir að byrjaður er des., þegar í raun réttri ætti ekki að opna eitt einasta bréf. Þetta er í einu orði sagt óþolandi og verður að breytast.

Í undirnefnd fjvn. á sæti einn nm. frá hverjum þeim flokki, sem mann á í n. Undirnefndin fjallaði um allmörg mál í sumar og hélt fleiri fundi en hún hefur áður gert. Meðal mála, sem n. sinnti, má nefna mötuneytismál ríkisstofnana, en athugun sú, sem sænskur aðili var látinn gera um hugsanlega notkun eldhúss Landsspítalans í þágu annarra ríkisstofnana en spítalanna, leiddi í ljós, að afkastageta þess dugir ekki til þess, að unnt sé að nota það einnig fyrir mötuneytin. Er því ljóst, að eigi að leysa þessi mál, rekstur mötuneyta ríkisstofnana, frá einum framleiðslustað, þarf til þess sérstakt eldhús, sem annaðhvort yrði miðað við þarfir ríkisstofnana einna eða yrði byggt upp í samvinnu við aðra aðila, og væri þá ástæða til að huga jafnframt að lausn mötuneytaþörf skólanna. Væri ástæða til að kanna, hvort ekki er tímabært og fjárhagslega hagkvæmt, að ríkið, eitt eða í samvinnu við aðra, byggi og reki afkastamikið eldhús, sem skipuleggi sendingar á máltíðum á vinnustaði ríkisstofnana, í skóla og á vinnustaði fyrirtækja, sem óskuðu viðskipta. Væri e. t. v. með þeim hætti unnt að jafna aðstöðu starfsmanna í þessu efni verulega frá því sem nú er.

Til frekari athugana á málefnum nokkurra ríkisstofnana, sem undirnefndin hefur áður beint athygli sinni að, hafa viðkomandi rn. skipað sérstakar nefndir, sem í sitja fulltrúar frá þessum stofnunum, frá því rn., sem þær heyra til, svo og frá hagsýslustofnuninni. Þannig var í mars s. l. skipuð nefnd til þess að gera allsherjarúttekt á skipulagi Pósts og síma, og hafa komið hingað fulltrúar frá norsku póst- og símaþjónustunni til að aðstoða n., og munu þeir gera tillögur um heildarskipulag stofnunarinnar.

Í apríl s. l. var skipuð n. til að fjalla um skipulag og rekstur Ríkisútvarpsins. Er n. m, a. ætlað að huga að sameiningu á starfsemi, sem nú fer fram bæði hjá sjónvarpi og hljóðvarpi. T. d. eru fréttastofurnar tvær. Enn fremur er í athugun, hvort ekki er unnt að breyta tilhögun á innheimtu afnotagjalda, en á innheimtudeild munu nú starfa um 30 manns.

Í apríl s. l. var einnig skipaður starfshópur til þess að gera till. um bætta þjónustu og rekstur Tryggingastofnunar ríkisins.

Í sambandi við starfsemi þessara sérstöku nefnda er ástæða til að vekja athygli á því, að í fjárlagafrv, er nú gert ráð fyrir allverulegri fjárveitingu í því skyni að kaupa þjónustu erlendra og innlendra sérfræðinga á sviði hagsýslumálefna, og gefst með því aðstaða til þess að kanna gaumgæfilega rekstur einstakra ríkisstofnana, eftir því sem ástæða þykir til, og gera till. um hagfelldari rekstur.

Þá hefur verið unnið að athugun á því, hvort hagkvæmt muni reynast að setja undir sama þak starfsemi nokkurra ríkisstofnana: Öryggiseftirlits ríkisins, Brunamálastofnunar ríkisins, Löggildingarstofnunar og Rafmagnseftirlits ríkisins. Er þá m. a. stefnt að því, að þær hefðu sameiginlega vinnuskrifstofu. Símavarsla og vélritun og önnur slík störf yrðu þá unnin þar fyrir allar stofnanirnar, í stað þess að þær þurfi að hafa starfskrafta og húsrými til þeirra verkefna hver fyrir sig.

Á fjárl. þessa árs er heimild fyrir ríkisstj. til að taka lán allt að 20 millj. kr. til kaupa á sameiginlegu húsnæði fyrir ýmsar þær ríkisstofnanir, sem nú eru í leiguhúsnæði. Þessi heimild hefur ekki verið notuð, en farið hefur fram sérstök athugun á því, hvort ekki væri hagkvæmt að byggja ofan á hús Sölumiðstöðvar setuliðseigna við Grensásveg og ætla þar stað þeim stofnunum, sem ég áðan nefndi, og e. t. v. fleiri. Sú athugun virðist sýna, að hér yrði um hagkvæma ráðstöfun að ræða.

Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar, að vinna eigi eftir sérstakri áætlun að því að koma sem allra flestum stofnunum ríkisins í eigið húsnæði á tilteknu árabili. Þetta þarf að sjálfsögðu að gerast á alllöngum tíma, en að þessu marki þarf að keppa. Það er alls engin ástæða til þess, að ríkisstofnanir greiði með leigugjaldi þau óverðtryggðu lán, sem einkafyrirtæki og einkaaðilar fá frá lánastofnunum til að fjárfesta í húsnæði, sem síðan er leigt ríkinu. Vissulega eru alveg ótæmandi þær þarfir, sem við blasa hvarvetna um landið fyrir það fjármagn, sem ríkið getur af mörkum látið til fjárfestingar, og því skiljanlegt, að þarfir fyrir ýmiss konar skrifstofuhúsnæði ríkisins hafi verið látnar sitja á hakanum, þegar á móti er teflt þörf fyrir sjúkrahúsbyggingar, skólamannvirki, hafnir og önnur brýnustu verkefni. Samt sem áður er ég þeirrar skoðunar, að ekki megi endalaust lita fram hjá því, að sífellt stærri hluti þjónustuskrifstofa ríkisins, sem landslög gera ráð fyrir, að starfi, eru í leiguhúsnæði, og á nokkurra ára bili greiða þær til einstaklinga og einkafyrirtækja það húsnæði, sem leigt er og jafnvel marggreiða það. Hér þarf að tryggja með sérstakri áætlun, að miði í rétta átt við hverja fjárlagaafgreiðslu, þar til það telst til undantekninga, að ríkisstofnanir séu í leiguhúsnæði.

Undirnefnd fjvn. hefur fjallað um, með hvaða hætti megi tryggja sem mest samræmi í launakjörum, hlunnindum og starfsreglum milli þeirra stofnana, sem lúta þeim reglum, sem um þetta gilda í ríkisstofnunum, og svo á hinn bóginn stofnana, sem eru utan við þessi ákvæði, svo sem ríkisbankar og ýmsar aðrar ríkisstofnanir, sem virðast sjálfar setja sér sínar eigin reglur að meira eða minna leyti. Má þar nefna Framkvæmdastofnun ríkisins, Húsnæðismálastofnunina, Áburðarverksmiðju og Sementsverksmiðju. Er nú í könnun, hvort unnt væri að koma hér á samræmingu með sérstakri lagasetningu, sem tryggði, að allar ríkisstofnanir sætu við sama borð í þessum efnum.

Undirnefndin kannaði enn fremur nokkuð starfsemi Sauðfjárveikivarna ríkisins, hvort of lengi væri kostað til girðinga og vörslu, þar sem ekki væri lengur full þörf fyrir hendi. Virðist sem á þessu sviði mætti nokkuð endurmeta og spara.

Undirnefndin hefur fjallað um tryggingu ríkiseigna og hefur einróma mælt með því við stjórnvöld, að samið verði við Brunabótafélag Íslands um, að það taki að sér alla eigna- og áhættutryggingu ríkisins og ríkisstofnana með þeim kjörum, sem það hefur boðið, að veittur verði 10% afsláttur frá núgildandi iðgjöldum og að tryggingar ríkisins og ríkisstofnana verði sérstakur tryggingaflokkur og endurgreiddur verði ágóðahlutur af hagnaði, en Brunabótafélagið taki á sig tap, er verða kynni. Tryggingarnar og framkvæmd þeirra yrði algerlega á ábyrgð Brunabótafélags Íslands. Með þeim hætti kæmi auðveldlega fram, hvað ríkið greiðir fyrir tryggingarnar og hvað það fær í staðinn, en um það liggja ekki fyrir gögn nú varðandi allan ríkisbúskapinn. En í athugun, sem gerð var á tryggingaviðskiptum 26 ríkisfyrirtækja, kom í ljós, að á 3 árum fengu þau í tjónabætur nokkurn veginn sömu upphæð, um 60 millj. kr., sem þau greiddu í iðgjöld á einu þessara ára. Má þó ætla, að tjónabætur hafi verið hærri á þessum þrem árum en að jafnaði, þar sem á þessu tímabili var um að ræða 25 millj. kr. bætur vegna tjóns á varðskipinu Ægi.

Undirnefndin hefur beitt sér fyrir því, að skrifstofustarfsemi Fiskimálasjóðs verði lögð niður og lánastofnun taki að sér ásamt viðkomandi rn. þau störf, sem þar hafa verið unnin.

Undirnefndin kynnti sér nokkuð rekstur og uppbyggingu Fiskmats ríkisins og Síldarmats ríkisins. Hefur n. sent viðkomandi rn. grg. um þá athugun og lagði þar til, að sérstakri n. yrði falið að vinna að eftirfarandi verkefnum:

1. Að taka til heildarathugunar skipulag og starfsemi Fiskmats ríkisins og koma m. a. fram með till. um framtíðarverkefni matsstofnana sjávarútvegsins og till. að innra skipulagi, þar sem þau atriði, sem minnst var á í grg. n., verði tekin til athugunar.

2. Að gera till. um, hvernig hagfelldast sé að fella Síldarmat ríkisins inn í nýja matsstofnun sjávarútvegsins.

3. Að semja frv. til l. um matsstofnun sjávarútvegsins, þar sem gengið er út frá því, að Síldarmat ríkisins verði lagt niður og starfsemi þess verði falin matsstofnuninni.

4. Að kanna og gera till. um, á hvern hátt verði best tryggt samræmi á störfum matsstofnunarinnar og eftirlitsstörfum sölusamtaka, þannig að fyllstu hagsmuni sé gætt.

Þá er þess að geta, að undirnefnd fjvn. kynnti sér þær athuganir, sem fram hafa farið í því skyni að koma á fót hagfelldari tilhögun á skráningu bifreiða á þann veg, að hvert ökutæki haldi sama skrásetningarauðkenni frá fyrstu skráningu þar til það er endanlega tekið út af skrá. En samkv. þeim athugunum, sem fram hafa farið, var talið fyrir 11/2 ári, að sparnaður við að taka upp slíkt kerfi væri mjög varlega áætlaður 31/2–4 millj. kr., miðað við fjölda ökutækja og skráningarfjölda árið 1971. Þessi tala er að sjálfsögðu mun hærri í dag. Er þó sleppt að meta til verðs allan þann tíma, sem umráðamenn ökutækja nota nú við umskráningu, en með nýja skipulaginu yrði um mikinn tímasparnað að ræða hjá þeim aðilum, miðað við það, sem nú á sér stað. Undirnefnd fjvn. hefur einróma mælt með því við viðkomandi rn., að tekið verði upp breytt fyrirkomulag um skráningu ökutækja, — tilhögun, sem er einfaldari og öruggari og sparaði verulega vinnu bifreiðaeftirlitsmanna, sem gætu þá unnið þeim mun meir að störfum, sem varða umferðaröryggi.

Ég hef hér minnst á nokkur þau mál, sem undirnefnd fjvn. hefur fjallað um, en mun nú rekja þær brtt., sem fjvn. flytur sameiginlega á þskj. 204.

Þar eru fyrst till. varðandi menntmrn.

Áður en ég kem að þeim till., sem tilgreindar eru á þskj. 204, vil ég minnast á það, að í aths. við fjárlagafrv., á bls. 167, er þess getið, að fjárveiting til útgáfustarfsemi heimspekideildar Háskóla Íslands nemi 2.5 millj. kr. og skiptist með þeim hætti, sem þar er tilgreint, milli málfræðiskorar, bókmenntaskorar og sagnfræðiskorar. Fjvn. er sammála um að líta svo á, að hér eigi að vera um að ræða á fjárl. óskipta upphæð 2.5 millj. kr., en heimspekideild Háskólans skipti henni sjálf.

Þá er till. um, að við aðalskrifstofu menntmrn. verði laun hækkuð um 560 þús. kr. vegna ráðningar starfsmanns til að sinna málefnum dagvistunarheimila samkv. 16. gr. l. nr. 29 1973. Og önnur till. er varðandi aðalskrifstofuna. Þar er lagt til, að framlag vegna námsskrárgerðar við iðnfræðslu hækki um 1 millj. kr. eða úr 1.5 millj. í 2.5 millj., en mjög er talið á skorta, að þessu máli hafi verið sinnt sem skyldi. N. flytur till. um, að veittar verði 275 þús. kr. styrkur til að kosta kennara, einn eða fleiri, til náms í talkennslu fyrir vangefin börn.

Gerð er till. um hækkun, 2 millj. 681 þús., á launagreiðslum við læknadeild háskólans. Hér er um að ræða ráðningu prófessors í félagslækningum frá 1. sept. á næsta ári, hálfa dósentsstöðu í lífeðlisfræði, 4 hlutastöður dósenta í lyflæknisfræði og hlutastöðu lektors í heimilislækningum frá 1. sept. Þessi aukning á mannafla læknadeildar er talin óhjákvæmileg, til þess að unnt verði að komast hjá fjöldatakmörkunum á inngöngu nema í læknadeild. Að sjálfsögðu er til lítils að stórauka framkvæmdir um allt land í heilbrigðismálum, ef ekki eru jafnframt gerðar ráðstafanir til þess, að starfskraftar séu til.

Till. er gerð um, að á næsta hausti verði tekin upp kennsla í haffræði við Háskóla Íslands og laun við verkfræðideild hækki í því skyni um 1 millj. 35 þús. kr., en gert er ráð fyrir ráðningu prófessors næsta vor til þess að undirbúa kennslu og dósents næsta haust.

Gjöld til Raunvísindastofnunar háskólans eru hækkuð um 806 þús. kr. vegna uppsetningar og rekstrar jarðskjálftamæla til að fylgjast með jarðskjálftum í grennd við Kötlu.

Lagt er til, að hafin verði viðbygging við hús Rannsóknastofnunar byggingaiðnaðarins að Keldnaholti og þar fari jafnframt fram starfsemi í tengslum við verkfræðideild háskólans.

Lagt er til, að framlag til endurbóta á húsnæði Menntaskólans á Akureyri verði hækkað um 2 millj. kr. og gjaldfærður stofnkostnaður við Menntaskólann á Ísafirði verði hækkaður um 3.3 millj. kr., í 48 millj., til þess að unnt verði að standa við gerða verksamninga. — Framlag til byggingar menntaskóla á Egilsstöðum hækkar um 10 millj. kr. í 15 millj. Með þeim fjárveitingum, sem áður hafa verið veittar til skólans, ætti að vera unnt að hefja byggingu hans á næsta ári, ef undirbúningi að öðru leyti verður lokið í tæka tíð. — Lagt er til, að veittar verði 2 millj. kr. til áhaldakaupa við Menntaskólann í Kópavogi. — Framlag til gjaldfærðs stofnkostnaðar við Kennaraháskóla Íslands hækkar um 6.6 millj. í 28.6 millj. — Framlag til Æfinga- og tilraunaskóla Kennaraháskólans hækkar um 1 millj. í 7.3 millj. kr.

Gjaldfærður stofnkostnaður Íþróttakennaraskóla Íslands að Laugarvatni hækkar um 1.5 millj. — Lagt er til, að hækkuð verði um 1 millj. kr. fjárveiting til Stýrimannaskólans í Reykjavík vegna tækjakaupa. — Enn fremur hækki framlag til Fóstruskóla Íslands um 1 millj. — Lagt er til að framlag til Handíða- og myndlistarskólans til áhalda- og tækjakaupa hækki um 250 þús., kr. — Fjárveiting til gjaldfærðs stofnkostnaðar í héraðsskólum hækkar um 6.9 millj. kr., í 71.5 millj. — Flutt er till. um, að framlag til byggingar Skálholtsskóla hækki um 1 millj. kr. eða í 6 millj.

Framlag til byggingar barnaskóla o. fl. hækkar um 158.4 millj. og nemur eftir þá hækkun 658.4 millj. Það skal tekið fram í þessu sambandi, að á s. l. sumri gerði fjvn. skrá um þær fjárveitingar til þessa málaflokks, sem hún taldi eftir ábendingum menntmrn. helst koma til greina, að ekki kæmi til greiðslu á árinu, ef beitt yrði heimild, sem fyrir hendi var til niðurskurðar á verklegum framkvæmdum. Nú hefur n. borist bréf frá fjmrn. um, að heimildir til niðurskurðar hafi í engu tilfelli verið notaðar gagnvart verklegum framkvæmdum og eigi því ónotaðar fjárveitingar um n. k. áramót í þessum málaflokkum og öðrum að vera fyrir hendi til framkvæmda á næsta ári, og hefur því ekki verið gengið út frá því, að þær þurfi að endurveita. Í þeim till., sem fyrir liggja um fjárveitingar til verklegra framkvæmda á hina ýmsu framkvæmdaliði, er því ekki um endurveitingu að ræða, heldur ávallt nýtt framkvæmdafé, sem kemur þá til viðbótar geymdu fé, þar sem um það er að ræða.

Þá er lagt til, að veittar verði 4.6 millj. kr. til að koma á fót í leiguhúsnæði dagheimili fyrir fjölfötluð börn. — Lagt er til, að liðurinn til dagvistunarheimila hækki um 30 millj. kr. í 85 millj. og skiptist í framlag til rekstrar 45 millj. kr. og til byggingarframkvæmda 40 millj. Í lögum, sem sett voru á síðasta ári um stuðning ríkisins við byggingu og rekstur dagvistunarheimila, er gert ráð fyrir margháttuðum athugunum, sem eiga að fara fram á vegum menntmrn. á þeim umsóknum, sem þangað eru sendar um slík fjárframlög frá ríkissjóði, og síðan séu lögð fram ýmis gögn, uppdrættir, fjárhagsáætlanir, staðfesting á mótframlögum og fleira, áður en fjvn. gerir till. um fjárveitingar til einstakra framkvæmda. Ekkert af þessu hefur enn borist til n., og hefur hún því ekki skipt upphæðinni, en flytur þá till. á þskj. 204, að auk þess, að heildarupphæðin til byggingarframkvæmda hækki um 30 millj. í 40 millj., hækki úr 10 millj. í 40, verði ákveðið við afgreiðslu fjárl., að fjvn. úthluti af upphæðinni til einstakra framkvæmda eigi síðar en 1. maí n. k., enda hafi þá verið fullnægt ákvæðum l. nr. 29 1973, um hlutdeild ríkisins í byggingu og rekstri dagvistunarheimila, um undirbúning viðkomandi framkvæmda.

Þá er till. um, að framlag til Lánasjóðs ísl. námsmanna hækki um 30 millj. kr. frá frv. Nemur þá fjárveiting til Lánasjóðsins á næsta ári 486.6 millj. kr., og munu lán á næsta ári nema u. þ. b. 83% af umframfjárþörf í stað 77.8% 1973 og 62.9% á árinu 1970. Auk þessarar upphæðar, sem lagt er til að veitt verði til Lánasjóðs ísl. námsmanna, eru á fjárl. veittar 75 millj. kr. til að jafna námskostnað eftir búsetu. Nema því sérstakar greiðslur úr ríkissjóði til aðstoðar við námsmenn samtals 561.6 millj. kr. á næsta ári, en hliðstæðar greiðslur námu um 67 millj. 990 þús. kr. árið 1970.

Beinar greiðslur til Lánasjóðsins nema þannig orðið verulega háum upphæðum eða nokkrum tugum millj. kr. hærri upphæð en allar fjárveitingar eru úr ríkissjóði til rekstrar, byggingarframkvæmda og tækjakaupa við eftirtaldar stofnanir samanlagt: Háskóla Íslands, Tilraunastöðina á Keldum, Raunvísindastofnun Háskólans, Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi, Orðabók háskólans og Náttúrufræðistofnun Íslands. Vegna vægra lánaskilmála verður aukning eigin tekna Lánasjóðsins mjög lítil, eða um 800 þús. kr. á næsta ári, á sama tíma og beint ríkisframlag nemur nær 490 millj. kr.

Þess er að vænta, að á þessu verði breyting með nýjum l. um Lánasjóð ísl. námsmanna, þannig að sjóðurinn verði smátt og smátt færari um að sinna skuldbindingum sínum með eigin fé, en hlutfallslega geti dregið úr beinum árlegum framlögum ríkissjóðs, sem eru orðin mjög há, enda hygg ég, að vilji flestra námsmanna standi til þess, að breytingar verði gerðar á lánareglum sjóðsins, sem leiði til þess.

Það má vel vera, að ýmsum námsmönnum þyki ekki mikið til þess koma að veita úr ríkissjóði óafturkræft fyrir ríkissjóð þá upphæð, sem ég hef hér nefnt, um 490 millj. kr. En ég get sagt fyrir mitt leyti, að ég tel ekki tímabært nú, að veitt verði sú upphæð, sem með þarf til þess, að lán nemi allri umframfjárþörf. Ég tel það ekki tímabært, fyrr en ég sé, hvernig gengið verður frá lánakjörum og endurgreiðslu lána í þeim lögum um Lánasjóð námsmanna, sem væntanlega verða samþykkt á þessu þingi. Ég vil fyrst fá að sjá, hver verður eiginfjármyndun sjóðsins og hver á að verða hlutur ríkisins á komandi árum.

Það má líka vel vera, að ýmsum námsmönnum þyki lítið til þess koma, að fjárveitingar úr ríkissjóði til námsmanna, þ. e. a. s. til Lánasjóðsins og til jöfnunar námsaðstöðu, hafa hækkað úr tæplega 68 millj. kr. 1970 í rúmlega 561 millj. kr. á næsta ári. En ég verð að segja, að ég vildi gjarnan að ýmis önnur góð málefni hefðu fengið hliðstæða hækkun.

Þá er lagt til, að styrkurinn til erlendra námsmanna í ísl. skólum hækki um 200 þús. kr. og verði alls 1 millj. og 800 þús. kr. Á móti þessum styrk veita aðrar þjóðir íslenskum námsmönnum styrki, sem nema miklu hærri upphæðum.

Styrkur til útgáfustarfa hækkar um 1 millj. 165 þús. kr., í 5 millj. 465 þús. Er þá gert ráð fyrir, að eftirgreindir styrkir hækki eða bætist við: Sögunefnd Þingeyinga verði veittar 75 þús. kr. Jóni Gíslasyni vegna sögu hreppaskipunar á Suðurlandi 25 þús. kr. Styrkur til Hins ísl. bókmenntafélags hækki úr 500 þús. í 750 þús. kr. Menningarsjóði og þjóðminjasafninu verði veittur 300 þús. kr. styrkur til að gefa út bók með myndum frá Íslandi á fyrri öldum. Sögufélagi Ísfirðinga verði veittur 50 þús. kr. styrkur, Glímusambandi Íslands til að gefa út Glímusögu Íslands á árinu 1974 150 þús. kr., Alþýðusambandi Íslands til útgáfu handbókar 200 þús. kr., Sögufélagi Borgfirðinga og Sögufélagi Austurlands 50 þús. kr. hvoru og Íþróttakennarafélagi Íslands 30 þús. kr. Jafnframt er gert ráð fyrir, að 2 aðilar, er sent hafa umsóknir til n. um útgáfustyrki, haldi óbreyttum hlut, þ. e. a. s. Samband ungra rithöfunda 75 þús. kr. og Búnaðarsamband Austurlands 100 þús. kr.

Lagt er til að styrkur til Stúdentaráðs Háskólans og SÍNE (Sambands ísl. námsmanna erlendis) hækki um 100 þús. kr. í 310 þús. kr.

Þá er lagt til, að styrkur til Myndlistaskólans í Rvík, þ. e. Myndlistaskólans við Freyjugötu, hækki um 200 þús. kr. í 500 þús. kr.

Þá leggur n. til, að breytingar verði á útgjaldaliðum hjá Þjóðminjasafni Íslands sem hér segir: Laun hækki um 300 þús. kr., önnur rekstrargjöld um 600 þús., viðhald um 250 þús. og yfirfærslur um 50 þús. kr. Þessar hækkanir eru af nokkrum aðgreindum orsökum, sem koma fleiri en ein inn á sama útgjaldalið hjá stofnuninni.

Í fyrsta lagi er um að ræða tillögn um, að 400 þús. kr. verði veittar til þess að hefja söfnun og björgun ýmissa muna og minja í tengslum við sjósókn og sjómennsku, en ýmsir slíkir hlutir, þ. á m. bátar, liggja undir skemmdum víðs vegar um land. Til þess að hefja könnun á þessu máli og söfnun og björgun minja er þessi till. flutt. En þetta er það fyrsta, sem þarf að gera til þess, að af því geti orðið, að komið verði upp sjóminjasafni, sem Íslendingum sæmir, en þess er að vænta, að ríkisvaldið og bæjaryfirvöld í Hafnarfirði nái samstöðu um slíka safnbyggingu, ef Alþingi samþykkir till., sem liggur fyrir um það efni.

Í öðru lagi er um að ræða tillögu um, að veittar verði 600 þús. kr. vegna Örnefnastofnunar, og þá gert ráð fyrir, að sú stofnun, sem þau mál annast, geti ráðið nemendur að sumri til að aðstoða við örnefnasöfnun úti á landsbyggðinni.

Þá er í þriðja lagi um að ræða till. um nokkrar hækkanir til safnsins vegna varðveislu gamalla húsa og kirkna, samtals 250 þús. kr.

Lagt er til, að laun hjá Þjóðskjalasafni Íslands hækki um 260 þús. kr. vegna ráðningar starfsmanns í ½ starf í viðgerðarstofu safnsins.

Laun hjá Listasafni Íslands hækka um 360 þús. kr. vegna safnvarðar í ½ starfi til að sjá um sýningar og útlán úr safninu. Þessi upphæð er í núgildandi fjárlögum, en féll niður af misgáningi í frv.

Lagt er til, að framlög til Menningarsjóðs hækki um 700 þús. kr., þessi upphæð verði veitt til að styrkja gerð kvikmyndar um íslenskan bónda á Vestfjörðum, en Þorsteinn Jónsson kvikmyndagerðarmaður hefur hlotið sérstakan styrk menntamálaráðs til að gera þessa mynd, en styrkur menntamálaráðs dugir naumast fyrir meira en þriðjungi kostnaðar.

Liðurinn aðrir tónlistaskólar hækkar um 3 millj. kr., þar sem þessi liður hefur ekki reynst nægja á undanförnum árum til þess, að hann svari til af rekstrarkostnaði skólanna, en það er skoðun fjvn., að þann hluta beri að greiða, enda þótt áætlun kunni að vera lægri en hluti raunverulegs rekstrarkostnaðar. Þess vegna er talið varlegra að hækka áætlunina um 3 millj. kr. fyrir næsta ár.

Nefndin flytur till. um, að rekstrarframlag til Barnamúsíkskólans í Rvík hækki um 600 þús. kr., en á móti því framlagi kemur framlag frá Reykjavíkurborg.

Framlag til Leikfélags Reykjavíkur hækkar um 1½ millj. í 5½ millj. kr. — Þá er lagt til, að framlag til Bandalags ísl. leikfélaga komi sem sérliður á fjárlögin, en lagaákvæði munu gera ráð fyrir, að svo sé gert. Liðurinn er 300 þús. kr. hærri en það framlag, sem Bandalagið hlaut á þessu ári. — Þá leggur n. til, að framlag til annarra leikfélaga hækki um 1 millj. og 700 þús. kr. í 5 millj. og 200 þús. kr., og er þá við það miðað, að Leikfélag Akureyrar, sem nú er orðið atvinnumannaleikhús að nokkru leyti, hljóti 2½ millj. kr. af þeirri upphæð. — Þá leggur n. til, að tekinn verði upp nýr liður á fjárlögum: Til leiklistarskóla 1½ millj., en ætlunin er, að Þjóðleikhúsið og Leikfélag Reykjavíkur standi sameiginlega að rekstri leikskóla, auk þess sem samtök áhugamanna um leiklist, reka eigin skóla, og er til þess ætlast, að þessir aðilar allir fái greiðslu af þessum lið.

Fjvn. leggur til, að heiðurslaun listamanna hækki um 900 þús. kr., í 3 millj. kr. Menntmn. þingsins gera síðan tillögur um skiptingu þessarar upphæðar. N. leggur enn fremur til, að starfslaun listamanna hækki um 1 millj. kr., í 2½ millj. kr., og listamannalaun hækki um 2 millj. 670 þús. kr., í 14 millj. kr.

Þá er lagt til, að tekinn verði upp nýr liður: Til Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar vegna stofnkostnaðar, og veittar verði 460 þús. kr. Hér er um að ræða 3. og síðustu greiðslu, en áður hafði verið gert ráð fyrir því, að greiðslur yrðu 3, en vegna mistaka féll niður að gera ráð fyrir síðustu greiðslunni í fjárlagafrv.

Lagt er til, að Tónlistarfélagi Mosfellssveitar, Tónlistarfélagi Árnessýslu og Tónlistarfélagi Hafnarfjarðar verði veittar 144 þús., kr. hverju, eða samtals 432 þús. kr., vegna innréttinga á húsnæði fyrir tónlistarskóla á þessum stöðum. Þessir sömu aðilar fengu við afgreiðslu fjárlaga í fyrra hliðstæðar upphæðir, og þá var þess sérstaklega getið, að um væri að ræða fyrri greiðslu af tveimur, en á fjárlagafrv. hafa þessar greiðslur fallið niður.

Þá kemur nýr liður: Styrkur til færeysks rithöfundar til dvalar á Íslandi 100 þús. kr. Rithöfundasjóður Íslands hefur lagt til, að slík fjárveiting verði tekin upp, og var fjvn. sammála um að fallast á þá tillögu.

Þá er komið að till. varðandi Íþróttasjóð, en n. leggur til, að framlag til sjóðsins verði hækkað um 17.1 millj. kr. frá frv. Við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1972 voru framlög til sjóðsins hækkuð um 160% í þeim tilgangi að hefja aðgerðir til þess að snúa við þeirri þróun, sem hafði verið látin viðgangast, að skuldir sjóðsins hrúguðust stöðugt upp, en framlag ríkissjóðs væri nánast ekki neitt, nam á fjárl. á árinu 1971 5 millj. kr., þar með taldir kennslustyrkir. Við fjárlagaafgreiðslu fyrir árið 1972 var framlag ákveðið 13 millj. kr., og við afgreiðslu núgildandi fjárlaga var haldið áfram á sömu braut og fjárveitingar miðaðar við, að halinn yrði greiddur á 4 árum, gegn því, að sveitarfélög og íþróttafélög féllu frá 20% af inneign sinni. Svo til öll sveitarfélög og íþróttafélög hafa nú samþykkt þessar tillögur. Í fyrra voru 16.6 millj. kr. veittar til greiðslu á fyrsta fjórðungi skuldarinnar og 3.1 millj. kr. var veitt vegna íþróttamannvirkja, sem þá voru í byggingu, til þess að mæta skuldbindingum varðandi framkvæmdir þeirra á árinu. Nú er lagt til, að enn verði veittar 16.6 millj., kr. vegna annars hluta af skuldagreiðslunum, 18 millj. kr. verði veittar til þeirra framkvæmda, sem voru í byggingu í fyrra og fengu þá 3.1 millj., skrá um þau er í sérstakri sundurliðun á þskj. 204, og enn er lagt til að veittar verði 3.1 millj. kr. til nýrra íþróttamannvirkja, sem hafnar verða framkvæmdir við á næsta ári. Sundurliðun á fjárveitingu til þeirra framkvæmda er einnig á þskj. 204. Enn fremur leggur n. til, að rekstrarstyrkur til íþróttafélaga hækki úr 5.3 millj. kr. í 6.3 millj. kr. Samtals nemur þá fjárveiting til íþróttasjóðs skv. þessum till. á næsta ári 44 millj. kr. og hefur nær nífaldast frá því, sem núverandi stjórnarandstöðuflokkar ákváðu að veita sjóðnum á árinu 1971. Rúmlega þriðjungur fjárveitingarinnar nú fer til þess að greiða hluta af skuldahalanum, sem eftir var skilinn, þegar viðreisnarstjórnin fór frá völdum. En þess er að vænta, að með áframhaldi á þeirri stefnu, sem núverandi stjórnarflokkar hafa tekið upp gagnvart íþróttasjóði, komist mál hans á réttan kjöl og það heyri sögunni til, að íþróttamannvirki standi á úthlutunarskrá í 18 ár, eins og áður átti sér stað.

Þá er komið að brtt. við liðinn æskulýðsmál. N. leggur til, að framlag til Æskulýðsráðs ríkisins hækki um 800 þús. kr., framlag til Ungmennafélags Íslands um 900 þús. kr., til Bandalags ísl. skáta um 160 þús. kr., til Æskulýðssambands Íslands um 200 þús. kr., til Bandalags ísl. farfugla 25 þús. kr., til starfsemi K F U M í Vatnaskógi 25 þús. kr. og við bætist eftirfarandi aðilar: Samband bindindisfélaga í skólum fái 50 þús. kr., Íslenskir ungtemplarar 50 þús. kr. og Æskulýðsnefnd S: Þingeyjarsýslu 50 þús. kr.

Þá er lagt til, að Frjálsíþróttasambandi Íslands verði veittur sérstakur styrkur vegna Evrópumeistaramóts í frjálsum íþróttum á næsta ári, 100 þús. kr., en sambandið hefur jafnan hlotið slíkan aukastyrk, þegar Evrópumeistaramót fara fram.

Lagt er til að styrkur til Matthíasarsafns á Akureyri hækki um 40 þús. kr. í 80 þús. kr. Flutt er tillaga um, að Sædýrasafninu í Hafnarfirði verði veitt hækkun á rekstrarstyrk úr 300 þús. kr. í 1 millj., en safnið hefur orðið umfangsmeira með hverju ári, og er rekstrarkostnaður þess nú nálega 20 þús. kr. á dag. Þá er enn fremur till. um, að Sædýrasafninu verði veitt stofnkostnaðarframlag 1 millj. 34 þús. kr. Hér er um að ræða 1. greiðslu af 6 vegna stofnkostnaðar, en ríkissjóður ber 40% af þessum stofnkostnaði, en sveitarfélögin á Reykjavíkursvæðinu og Keflavík og Njarðvík bera 60% Þá leggur n. til, að framlag til Skáksambands Íslands hækki úr 400 í 500 þús. kr. og styrkur til alþjóðaskákmóts í Rvík úr 150 þús. kr. í 250 þús. kr. — Þá leggur n. til, að styrkur til hjálparsveita skáta vegna sporhunds, sem notaður er við leit að týndu fólki, hækki um 50 þús. kr. í 200 þús. kr.

Framlag til Kvenfélagasambands Íslands hækkar um 350 þús. kr., í 1 millj. 700 þús. kr. N. gerir till. um, að styrkur til Hlíðardalsskóla í Ölfusi hækki um 300 þús. kr., í 900 þús. kr. Þá leggur fjvn. til, að tekinn verði upp nýr liður: Til þjóðhátta- og byggðakvikmynda 300 þús. kr., og er þá gert ráð fyrir, að hann skiptist á milli 3 aðila, sem fái 100 þús. kr. hver, þ. e. a. s. Búnaðarsamband Suðurlands, Hólshreppur og Búnaðarsamband N: Þingeyjarsýslu, en allir þessir aðilar vinna nú að gerð heimildarkvikmyndar og hafa sótt um styrk til fjvn.

Lagt er til, að upp verði tekinn nýr liður: 300 þús. kr. til sumarnámskeiða í Leirárskóla, en þar hafa verið starfrækt námskeið fyrir leiðbeinendur í félags- og íþróttastarfi. — Þá er lagt til, að félagi laganema við Háskóla Íslands verði veittur 250 þús. kr. styrkur vegna kostnaðar við að halda mót norrænna laganema á Íslandi á næsta sumri. — Þá er enn lagt til, að tekinn verði upp nýr liður til rannsóknar á fornum þingstað í Kópavogi og veittar verði 75 þús. kr. til að greiða kostnað við fornleifauppgröft og hinu forna þingstæði í Kópavogi, en það verk er Menningar- og listasjóður Kópavogs að láta vinna.

Þá er komið að till. varðandi utanrn. lagt er til, að liðurinn: Til kaupa á Iceland Review 500 þús. kr., falli niður, en á móti hækki liðurinn til upplýsinga- og kynningarstarfsemi hjá rn. um 1 millj. og 500 þús. kr. Er við það miðað, að með þessu móti verði utanrrn. gert kleift að auka kaup á tímaritinu um allt að 1 millj. kr., eftir því sem það telur nauðsyn til bera, miðað við fjárhagslega afkomu þess og gildi þess sem upplýsinga- og kynningarrits.

Þá eru brtt. varðandi landbrn. Á þskj. 204 er brtt. nr. 58, Jarðeignasjóður ríkisins, og er lagt til, að hann hækki um 2 millj. kr. Þessi till. er rangt tilfærð, og ég vil leiðrétta hana þannig, að hér á að vera um að ræða hækkun á liðnum Jarðeignir ríkisins, framlög, og verður þessi brtt. leiðrétt á öðru þskj.

Framlag til Tilraunastöðvarinnar á Akureyri hækkar um 2 millj. kr., vegna þess að fyrirhugaður er flutningur tilraunastöðvarinnar úr þéttbýlinu á Akureyri á ríkisjörð í nágrenninu.

Lagt er til, að við viðfangsefnaliði hjá Landnámi ríkisins bætist: Til byggingar gróðurhúsa 1 millj. kr., en í lögunum mun gert ráð fyrir slíkum styrkjum.

Þá er lagt til, að framlag í Fiskræktarsjóð hækki um 1 millj. og 300 þús. kr. í 4 millj. kr. Framlag til fyrirhleðslna hækkar um 4 millj. og 30 þús. kr. Sundurliðun á einstakar fyrirhleðslur kemur fram á þskj. 204 Það mun vera um að ræða prentvillu í nál. meiri hl. fjvn., þar sem greint er frá þessum till. Þar er sagt, að hækkun á fyrirhleðslum sé 75 þús. kr., en er rétt tilgreint í brtt. 4 millj. og 30 þús. kr. Styrkir til landþurrkunar hækka um 75 þús. kr., þaðan er talan líklega komin. Og sundurliðun er einnig á þskj. 204.

Flutt er til 1. umr., að framlag til Einangrunarstöðvar holdanauta hækki úr 6 millj. kr. í 8 millj. kr., en 10–12 millj. kr. munu vera til ónotaðar af fyrri fjárveitingum, svo að unnt ætti að vera að hefja framkvæmdir á næsta ári.

Félagssamtökin Landvernd, það er lagt til, að styrkur til þeirra hækki um 200 þús. kr. eða í 500 þús. kr.

Till. varðandi sjútrrn.: Hafrannsóknastofnun, útibú, lagt er til, að þessi liður hækki um 1 millj. og 500 þús. kr., þannig að heildarfjárveiting verði 3 millj. og 500 þús. Er þá gert ráð fyrir, að stofnuð verði 2 útibú frá stofnuninni, og hafa í því sambandi verið nefnd Húsavík og Höfn í Hornafirði.

Þá er lagt til, að liðurinn Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, útibú, hækki um 500 þús. kr. í alls 2½ millj. kr., en þetta fé mun vanta til þess að koma upp einu útibúi frá stofnuninni.

Til sjóvinnunámskeiða og skólabáta, þar er lagt til, að þessi liður hækki um 2 millj. kr. vegna námskeiða sem fyrirhugað er að halda í meðferð veiðarfæra, sérstaklega á þeim stöðum, þar sem gerðir eru út skuttogarar.

Lagt er til, að liðurinn veiðieftirlit hækki um 3 millj. kr. vegna ráðningar 3 veiðieftirlitsmanna til að hafa eftirlit með, að haldin séu skilyrði sem sett eru við útgáfu veiðileyfa, m. a. að því er varðar gerð og notkun veiðarfæra, veiðisvæði, veiðitíma, aflasamsetningu og lágmarksstærð tegunda.

Skrifstofa Rannsóknastofnana atvinnuveganna, lagt er til, að launaliður hækki um 880 þús. kr., vegna ráðningar fulltrúa allt árið og aðstoðargjaldkera hálft árið.

Er þá komið að till. varðandi dóms- og kirkjumrn. Lagt er til, að liðurinn rekstur sjúkrasamlaga falli niður, en upphæðinni verði skipt á launa- og rekstrarliði viðkomandi embætta sýslumanna og bæjarfógeta. Hér er því ekki um að ræða till., sem breyti niðurstöðutölum frv.

Liðurinn lögreglustjórinn í Bolungarvík, þar er lagt til, að tekin verði upp fjárveiting til skuldagreiðslu vegna byggingar yfir skrifstofur embættisins og lögreglustöð. Er hér um sömu fjárveitingu að ræða og er í núgildandi fjárlögum.

Launaliður hjá embætti sýslumannsins á Selfossi hækkar um 511 þús. kr. vegna ráðningar starfsmanns til tryggingaumboðs.

Lagt er til, að gjaldfærður stofnkostnaður hjá bæjarfógetanum í Keflavík hækki um 4 millj. kr. vegna innréttingar á skrifstofu embættisins, en sem kunnugt er stækkar lögsagnarumdæmi embættisins verulega um næstu áramót. Launaliður er að nokkru vanáætlaður í frv., miðað við það starfslið, sem þar hefur unnið. Auk þess er gert ráð fyrir starfsliðsaukningu, þegar umsvif embættisins aukast nú mjög, og er gerð tillaga um, að launaliður hækki af þessum sökum um 2 millj. 321 þús. kr. frá frv. og að texti breytist úr bæjarfógetinn í Keflavík í sýslumaður og bæjarfógeti, Keflavík.

Þá er gerð till. um nýjan lið, matsnefnd eignarnámsbóta. Skv. l. nr. 11 1973, um framkvæmd eignarnáms, skal koma á fót n. til að ákvarða eignarnámsbætur. Er lagt til, að eftirtaldir liðir verði teknir inn vegna n.: Laun 2 millj., önnur rekstrargjöld 250 þús. kr., þ. e. a. s. heildargjöld 2 millj. 250 þús. kr., og á móti komi tekjur 1 millj., nettóútgjöld, 1250 þús. kr.

Þá er lagt til, að styrkur til að endurbæta Auðkúlukirkju hækki um 25 þús. kr. í 100 þús. kr., og n. leggur til, að framlag til Kirkjubyggingasjóðs hækki um 1 millj. kr. í 5 millj. kr.

Er þá komið að till. varðandi félmrn. Er lagt til, að styrkur til Iðnnemasambandsins hækki um 120 þús. kr., í 350 þús., og styrkur til Neytendasamtakanna um 200 þús. í 450 þús. — Einnig er lagt til, að styrkur til sjómannastofa hækki um 600 þús. kr., í 1 millj. 150 þús. kr. — Lagt er til, að tekinn verði inn að nýju liðurinn: Orlofsheimili húsmæðra í Gullbringu- og Kjósarsýslu og Keflavík, en þessi styrkur hefur fallið út af frv., en er í núgildandi fjárl. Þá er lagt til, að styrkur til Blindrafélagsins hækki um 500 þús. kr., til þess að félagið geti ráðið blindraráðgjafa í sína þjónustu, og breytist þá textinn úr „byggingarstyrk“ í „styrkur“, jafnframt því sem upphæðin hækkar. Þá er lagt til, að liðurinn styrktarsjóður lamaðra og fatlaðra hækki um 500 þús. kr.

Þá eru till. varðandi heilbr.- og trmrn. Landsspítalinn: Lagt er til, að framlag til gjaldfærðs kostnaðar hjá Landsspítalanum verði hækkað um 13.2 millj. kr., í 113.2 millj., og að liðurinn verði sundurliðaður í B-hluta og er gert ráð fyrir að fjármagnið verði notað á eftirfarandi hátt: Bygging geðdeildar 60 millj. kr., bráðabirgðahúsnæði, þ. e. a. s. innflutt hús fyrir rannsóknarstofur, 22 millj. kr., vegna barnaheimilis 12 millj., röntgentæki 10 millj., ketilhús 2 millj., stjórnun og eftirlit 4 millj. og 200 þús. og annað ótiltekið 3 millj., eða samtals 113 millj. 200 þús. Má ætla, að bygging geðdeildar verði fokheld á árinu 1975, en ljúki á árinu 1977, en þá hefjist bygging rannsóknarstofnana, en fram að þeim tíma er ætlunin, að vandinn vegna rannsóknarstofnana verði leystur með bráðabirgðahúsnæði, tilbúnum húsum, en veittar eru 22 millj. kr. á næsta ári til þeirra framkvæmda. Það húsnæði mætti hugsanlega flytja síðar, eftir að endanlegar byggingar eru komnar í gagnið, þangað sem þá kynni að vera brýnust þörf fyrir þær.

Lagt er til, að liðurinn Bygging sjúkrahúsa, sjúkraskýla, læknamiðstöðva, elliheimila og læknisbústaða, annarra en ríkissjúkrahúsa, hækki um 50 millj. 718 þús. kr. og nemi 294 millj. 70 þús. kr. Af þessari upphæð fara 15 millj. kr. til stuðnings við byggingu elliheimila, og er í sundurliðun á þskj. 204 við það miðað, að þeir aðilar, sem eru með framkvæmdir í gangi, fái 3 millj. kr. hver, en aðrir fái greitt vegna undirbúningsframkvæmda af sameiginlegri upphæð. Sundurliðun varðandi sjúkrahús og læknisbústaði er á þskj. 204.

Setning laga um skipan heilbrigðismála, en þau voru sett á síðasta þingi, markar tímamót í uppbyggingu heilbrigðisþjónustu hér á landi, þar sem frumkvæði um framkvæmdir er lagt á herðar ríkisvaldinu og stóraukinn hluti ríkissjóðs í framkvæmdum. Vegna þess, hversu þjónusta í heilbrigðismálum er víða bágborin, eru nú óskir um framkvæmdir hvarvetna mjög miklar og til þessara mála verður að verja miklum fjárhæðum á næstu árum. Er mikil nauðsyn á, að þær séu skipulagðar fram í tímann og þeir staðir látnir sitja í fyrirrúmi, þar sem þörfin er mest og aðstaða fólks erfiðust. Tillögur um fjárveitingar til einstakra staða miðast við, að framkvæmdir hefjist á allmörgum stöðum, auk þess sem áfram verður unnið að ýmsum stórum framkvæmdum. Gert er ráð fyrir, að framkvæmdir hefjist m. a. á næsta ári á Patreksfirði við byggingu heilsugæslustöðvar, þar er fjárveiting 8 millj. og geymt fé 5 millj. Á Ísafirði hefjast framkvæmdir við heilsugæslustöð, fjárveiting 9.8 millj. kr. og geymt fé 8.2 millj., kr. Á Dalvík hefjist bygging heilsugæslustöðvar, fjárveiting er 10.3 millj. kr., geymt fé 2.7 millj. kr. Á Akureyri hefjist bygging 1. áfanga sjúkrahúss, fjárveiting er 23.1 millj. kr., en geymt fé 6.9 millj. Gert er ráð fyrir, að 1. áfanga verði lokið árið 1978, en á sama tíma á sama ári hafi hafist bygging 2. áfanga eða legud., sem ljúki árið 1981. Þessi áætlun er gerð með samkomulagi aðila frá fjmrn og heilbrrn. og þeirra aðila, sem Akureyrarbær hefur látið annast viðræður um málið af sinni hálfu. Á Neskaupstað er nýlega hafin viðbygging við sjúkrahúsið, fjárveiting á næsta ári er 23.3 millj. og geymt fé 2.1 millj. kr. Á Höfn í Hornafirði er áformað að hefja byggingu heilsugæslustöðvar, fjárveiting er 13 millj. og geymt fé 300 þús. kr. Á Selfossi er nýlega hafin bygging sjúkrahúss, fjárveiting 20.5 millj. kr., geymd fjárveiting frá ríkissjóði 14.5 millj. kr. Í Keflavík er ráðgert að hefja viðbyggingu við sjúkrahús, fjárveiting er um 10.5 millj. kr., og geymt fé 4.5 millj. kr. Í sambandi við geymdar fjárveitingar af framkvæmdafé, er rétt að minna á það, sem ég hef áður nefnt, að heimild í núgildandi fjárlögum til þess að skera niður fjárveitingar hefur ekki verið beint gagnvart framkvæmdaliðum. Er bréf með staðfestingu þessa af hálfu hæstv. fjmrh. birt sem fskj., með nál. meiri hl. fjvn., en í nál. meiri hl. í fyrra var tilgreindur og sundurliðaður sá niðurskurður, sem þá var framkvæmdur. Í fjárveitingum til framkvæmda nú, er því ekki um endurveitingar að ræða, heldur nýtt framkvæmdafé.

Þá leggur n. til, að St. Jósefsspítala í Hafnarfirði verði veittur byggingarstyrkur, 3.5 millj. kr., vegna viðbyggingar, sem hafin er við sjúkrahúsið.

Þá er lagt til, að hækkað verði framlag til námsskeiðs sjúkraliða um 600 þús. kr., í 1200 þús. kr., en hér er um að ræða eitt nýttasta starfslið sjúkrahúsanna, sem mikil þörf er á hvarvetna um landið.

N. leggur til að framlag til sjúkraflugs hækki um 950 þús. kr., í 1600 þús., og rekstrarstyrkir skiptist þannig: Flugþjónustan fái 400 þús. kr., Flugfélagið Ernir, Vestfjörðum, 500 þús. kr., Tryggvi Helgason, Akureyri, 350 þús. kr., Flugfélag Austurlands 250 þús. kr. og Flugfélagið í Vestmannaeyjum 100 þús. kr.

N. leggur til, að tekinn verði inn í fjárl. að nýju liðurinn til tækniaðstoðar við sveitarfélög vegna vatns- og skolpveituvandamála og annarra umhverfis- og mengunarmála 3 millj. kr. Hér er um að ræða málefni, sem eru sveitarfélögum og fleirum mjög erfið úrlausnar, og þeim er því mikil þörf á að geta fengið aðstoð í þessum efnum. M. a. hafa sveitarfélög fengið styrki af þessum lið til þess að koma á fót sorpbrennslu.

Þá er lagt til, að liðurinn áfengisvarnir hækki um 250 þús. kr. og er þá einkum höfð í huga þörf á aukinni útgáfustarfsemi. Og lagt er til, að styrkur til Stórstúku Íslands hækki um 300 þús. kr., og er þá einkum höfð í huga þörf Stórstúkunnar á að efla tengsl við barnastúkur og unglingastúkur úti á landi og starfsemi þeirra.

Þá er ein till. varðandi fjmrn. Það eru liðirnir styrktarfé og ýmis eftirlaun embættismanna og styrktarfé og ýmis eftirlaun, ekkjur. Þessir liðir hækka um 357 þús. kr. í 20 millj. 778 þús., en sundurliðun er á þskj. 204.

Tillögur varðandi samgrn.: Lagt er til, að liðurinn Vegagerð, til einstaklinga, heimila og samtaka hækki um 2 millj. 492 þús. kr. Hér er um að ræða framlög til að halda uppi gistingu og byggð, og hækkunin stafar í fyrsta lagi af 504 þús. kr. vanáætlun á þessu ári, sem greiða þarf 1974, og í öðru lagi vegna skuldagreiðslna vegna viðgerðar á Fornahvammi og aukins kostnaðar Vegagerðarinnar á því húsi, sem hún á þar, og í þriðja lagi vegna hækkunar á styrkjum til ýmissa aðila, sem halda uppi gistingu og byggð.

Vanáætlaður hefur verið í frv., launaliður á Vitamálaskrifstofu, og er lagt til, að úr því verði bætt og launaliðurinn hækkaður um 535 þús. kr.

Skv. till. fjvn. á þskj. 204, hækkar framlag til hafnarmannvirkja og lendingarbóta um 144 millj. kr. og verður 444 millj. kr., sem er 272 millj. og 200 þús. kr. hækkun frá núgildandi fjárl., og ber þá að gæta þess, að hér koma til viðbótar 163 millj. kr., sem ætlaðar eru á fjárl. til sérstakra hafnarframkvæmda í Grindavík og Höfn í Hornafirði. Nemur þá framlag ríkissjóðs til sveitarfélaga eða hafnarsjóða vegna hafnagerða samtals 613 millj. kr. á móti 206.8 millj. kr. á núgildandi fjárlögum og 99 millj. 365 þús. kr. árið 1971. Að meðtöldum hluta hafnarsjóðanna svarar þetta til þess, að unnið verði fyrir u. þ. b. 850 millj. kr. við hafnarframkvæmdir, aðrar en landshafnir, á næsta ári. En samkv. fjárlagafrv. er gert ráð fyrir, að unnið verði einnig fyrir 255 millj. kr., í landshöfninni í Þorlákshöfn á árinu 1974.

Framlag á fjárlögum til hafnarframkvæmda á næsta ári, nemur þá samtals 838 millj. kr., þ. e. a. s. 444 millj. kr. á liðnum hafnarmannvirki og lendingarbætur, og 255 millj. kr. vegna Þorlákshafnar, þar af á samkv. frv. að afla 290 millj. kr. með lánsfé, svo að beint framlag ríkissjóðs yrði þá 548 millj. kr. á móti 206.8 millj. kr. á núgildandi fjárlögum, og nemur hækkunin 341.2 millj. kr.

Í samræmi við ákvæði hinna nýju hafnarl. um, að framlag til Hafnabótarsjóðs skuli nema a. m. k. 12% af framlagi til hafnarmannvirkja og lendingarbóta, hækkar framlag til sjóðsins á frv. um 17.3 millj., úr 36 millj. kr. í 53.6 millj., sem er hækkun um 31.3 millj. frá núgildandi fjárlögum.

Sé lagt saman framlag ríkisins samkv. þessum till. til hafnarframkvæmda í almennum höfnum og landshöfnum, og framlag til Hafnabótasjóðs, nemur heildarfjárveitingin 891.3 millj. kr. Hér er því brotið blað í sögu hafnargerða í landinu, og þess er að vænta, að á næstu árum verði staðið að fjárveitingum til þessara mála meira í líkingu við það, sem nú er lagt til, en það, sem verið hefur um langt árabil.

Ég held, að þm. séu flestir þeirrar skoðunar, að framlög til hafnarframkvæmda hafi verið stórum of lág um mjög langt árabil. Þær lágu fjárveitingar og minni greiðsluhluti ríkissjóðs samkv. eldri lögum hafa valdið því, að við verulega erfiðleika hefur verið að glíma í flestum höfnum landsins, og segja má, að enn hafi ekki verið byggð höfn á Íslandi, sem nefna mætti því nafni. Allt of víða er það svo, að mestu tjónin á skipunum verða í höfnunum, og jafnvel á miklum framleiðslustöðum er mikill hluti flotans og jafnvel allur í stórfelldri hættu, ef gerir áhlaupaveður. Hjá þjóð, sem á allt sitt undir sjósókn og fiskvinnslu, verður ekki undan því vikist að gera hafnirnar þannig úr garði, að þeim, sem vilja það á sig leggja að sækja sjóinn, sé ekki gert það ókleift vegna óviðunandi aðstöðu fyrir fiskiskipaflotann, þegar að landi er komið. En til úrbóta dugir ekki það eitt að veita fé á fjárlögum til að kosta þau 75% af framkvæmdakostnaði í höfnum, sem ríkið á að sjá um. Víða er hag hafnarsjóða svo komið, að þeir eru einskis megnugir og geta í raun og veru ekki bætt á sig kostnaði við nýjar framkvæmdir. Þeir voru m. a. margir hverjir fyrir allmörgum árum látnir taka erlend lán til að greiða sinn hluta af kostnaði hafnargerða, síðan riðu gengislækkanir yfir ein af annarri, og enda þótt ríkissjóður hafi tekið á sig nokkurn hluta gengismunarins, er greiðslubyrði þeirra meiri en svo, að hafnarsjóðirnir fái undir því risið, enda ættu í rauninni ekki að vera til þess ætlast, að á fámennum stöðum eigi það fólk, sem svo til allt vinnur að mikilvægustu framleiðslustörfunum í þjóðfélaginu, að taka sérstaklega á sig fram yfir þá, sem t. d. búa í höfuðborginni og næsta nágrenni, að greiða fjárfestingu, sem er þjóðinni nauðsynleg til þess að þessi framleiðslustörf verði unnin. Er þess vegna óhjákvæmileg nauðsyn og þjóðfélagslega sanngjarnt, að gerðar verði ráðstafanir til að létta greiðslubyrði þeirra hafnarsjóða a. m. k., sem verst eru settir. S. l. sumar voru veittar 117 millj. kr. að láni úr Hafnabótasjóði til hafnarsjóða, þar af voru 40 millj. kr. veittar sem sérstök fjárhagsaðstoð með 15 ára lánum, afborgunarlausum fyrstu 2 árin. Að þessari úthlutun vann undirnefnd fjvn. og síðan öll n, í sumar. Það var samdóma álit nm., að þessar 40 millj. kr. hefði þurft að veita sem óendurkræfan styrk. Að vísu eru á því meiri framkvæmdaerfiðleikar og viss vandkvæði, m. a. vegna ófullnægjandi samræmis í gögnum um stöðu hafnarsjóðanna og erfiðleika á samanburði.

Þessi aðstoð var veitt á grundvelli sérstakrar heimildar í núgildandi fjárl., og við 3. umr. um fjárl. nú mun verða flutt till. um hliðstætt heimildarákvæði.

Samkv. greiðsluáætlunum hafnarsjóða fyrir árið 1974 mun halli þeirra hafnarsjóða, sem hafa ekki nægar tekjur fyrir greiðslu afborgana og vaxta verða samtals um 63 millj., kr. Þessar hafnir eru 48 talsins, og þær vantar frá 50 þús. kr. upp í 9½ millj. hverja til þess að hafa afgang af rekstri til að greiða allar afborganir og vexti. Hinar, sem hafa rekstrarfé til þess að greiða alla vexti og afborganir lána, eru 9 og hafa afgang umfram vexti og afborganir frá 50 þús. til 3½ millj., samt. um 10 millj. kr. Það er því ljóst, að full þörf er á, að mál sjálfra hafnarsjóðanna verði tekin til sérstakrar meðferðar, enda gera hin nýju hafnalög ráð fyrir því.

Næsta till. n. er um framlag til sjóvarnargarða. Það lækkar um 1.3 millj. kr., og sundurliðun er á þskj. 204

Þá leggur n. til, að framlag til fjárfestinga hjá flugmálastjórn hækki um 33.8 millj. kr., í 172 millj. kr., og er þar um að ræða 97 millj. kr. hækkun frá núgildandi fjárl. Ekki þarf að hafa mörg orð um, hversu mikilvægar framkvæmdir í flugvallargerð eru fólki, sem býr úti á landsbyggðinni. Á tímum viðreisnarstjórnarinnar var þessum málum í litlu sinnt og þessar þarfir fólksins látnar liggja úti. Fjárveiting árið 1971 var um 1/6 hluti þess, sem nú er gerð till. um. Nú eru fjárveitingar í fyrsta sinn bundnar ákveðnum stöðum, og kemur sundurliðun fram á þskj. 204.

Þá leggur n. til varðandi flugbjörgunarsveitir, að rekstrarstyrkur hækki um 50 þús. kr., í 150 þús. kr., en þessi styrkur hefur verið óbreyttur um langt árabil. Þá er lagt til, að flugbjörgunarsveitin í Reykjavík verði veittar 300 þús. kr. til bifreiðarkaupa fyrir deildina, en bifreiðakostur þessarar deildar mun nú vera almennt orðinn 20 ára gamall.

Þá kemur liðurinn: Til að bæta hreinlætisaðstöðu á fjölsóttum ferðamannastöðum. Er lagt til, að þessi liður hækki um 1 millj. 540 þús. kr., sem er í samræmi við áætlun, sem Náttúruverndarráð hefur beitt sér fyrir til úrbóta á þessu sviði. Ráðstöfun á þeirri 1 millj. kr., sem fyrir er á liðnum, er þegar bundin öðrum framkvæmdum, þess vegna er verið að bæta þessari rúml. ½ millj. kr. við.

Þá leggur n. til, að veittar verði 5 millj. kr., til að bæta ferðamannaaðstöðu við Gullfoss, en í ráði er að byggja nýjan skála þar, en talið er, að árlega komi þangað 80–100 þús. Ferðamenn, og mjög hefur skort á, að þar væri viðunandi aðstaða fyrir hendi.

Þá er komið að till. varðandi iðnrn. Er lagt til að liðurinn: Til eflingar iðnþróunar og tækninýjunga í iðnaði hækki um 1 millj. kr. vegna styrks til Jóns Þórðarsonar til að fullgera reykskilju, sem hann hefur fundið upp. Þá leggur n. til. að tekinn verði upp nýr liður: Endurskoðun áætlana um nýtingu innlendra orkugjafa til húshitunar og annarra þarfa, 2 millj. kr. Hin nýju viðhorf í orkumálum, sem nú setja mark sitt á daglegt líf manna víða um heim, valda því, að gera verður sérstakar ráðstafanir til að flýja þeim áætlunum, sem uppi hafa verið um notkun innlendra orkugjafa til húshitunar og annarra þarfa. Má þar sérstaklega nefna nauðsyn þess, að hraðað verði áætlunum um hitaveitu í nágrannabæjum Reykjavíkur og rannsóknum og framkvæmdum vegna væntanlegrar hitaveitu á Suðurnesjum, svo og fyrirhugaðrar virkjunar jarðgufu við Kröflu. Til þess að endurskoða og kanna þær áætlanir, sem fyrir liggja, og leita úrræða til að hraða framkvæmdum, er þessi fjárhæð veitt. Hér er um að ræða verkfræðilega þjónustu. En ákvarðanir um stærri ráðstafanir eru á umræðustigi, og liggur fyrir fjárvn. erindi frá iðnrn, og munu þau málefni Orkustofnunar, sem þar er um rætt, tekin til nánari athugunar fyrir 3. umr.

Ég hef nú gert nokkra grein fyrir þeim brtt., sem fjvn. flytur sameiginlega við 2. umr. Verði þær samþ. hefur það í för með sér hækkun útgjalda um 648 millj. 407 þús. kr., og yrði þá greiðsluhalli samkv. því 544 millj. 744 þús. kr.

Af ákvörðunum um fjárveitingar, sem bíða 3. umr., má nefna útgjöld vegna launahækkana 1. des. s. l., hækkanir, sem tilkynntar hafa verið á lífeyrisbótum, og væntanlegar breytingar daggjalda sjúkrahúsa og þar með útgjalda sjúkratrygginga. Auk þess má nefna ýmis önnur mál. sem óafgreidd eru hjá n., svo sem húsnæðismál Tækniskólans, sem ég vænti að fái jákvæða lausn við endanlega afgreiðslu fjárlaga. Einnig má nefna málefni Orkustofnunar, sem eru þjóðinni sérstaklega mikilvæg nú vegna nýjustu viðhorfa í orkumálum, eins og ég áðan greindi. Þá má nefna málefni Ríkisútvarpsins, sem ég tel að afgreiða verði með öðrum hætti en gert er í frv. Og samþykkt heimildagreinar bíður 3. umr. að venju.

Nú þegar 2. umr. fjárlaga fer fram standa yfir almennir kjarasamningar og óráðið er um ákvörðun fiskverðs. Jafnframt eru að koma fram áhrif hinna stórfelldu verðsveiflna í helstu viðskiptalöndum okkar. Viðræður standa yfir milli stéttarsamtakanna og ríkisstj. um lausn kjaradeilnanna og tilhögun vísitölumála í sambandi við verðlags- og skattamál. Enn er óljóst, hvernig þessi mál skiptast, og flytur meiri hl. fjvn. ekki fyrr en við 3. umr. brtt. við tiltekið frv.

Það er ekki nýtt, að ekki eru fluttar brtt. við tekjulið við 2. umr. Ég hygg, að sá háttur hafi jafnvel verið oftast á hafður, og ég minnist þess jafnvel sem minnihlutaaðili í fjvn. að hafa ekki þrátt fyrir ítrekaðar óskir fengið neinar upplýsingar, ekki einu sinni fyrir 3. umr., um afkomu ríkissjóðs á árinu eða um áætlaða stöðu þeirra efnahagsþátta á næsta ári, sem mestu ráða um útkomu einstakra liða á tekjuhlið.

Ég held, að hverjum, sem með stjórn fer, verði ávallt mjög erfitt að sjá við 2. umr., hvernig mál ráðast, svo að unnt sé að slá fastri tekjuhlið fjárlaganna og flytja við 2. umr. brtt. í samræmi við það. Einkum á þetta við þau ár, sem nýir kjarasamningar eru gerðir. Þetta vandamál á Alþ. jafnan við að stríða, hverjir svo sem með stjórn fara, og ég hef oft hugleitt, að hagkvæmara kynni e. t. v. að vera, að reikningsáramót ríkissjóðs og stofnana hans væru ekki almanaksárin heldur t. d. 1. mars. Hætt er e. t. v. við, að þær ákvarðanir, sem úrslitum ráða og aðrir aðilar taka, svo sem stéttarfélögin, drægjust saman við þau reikningslegu áramót ríkissjóðs. Þó hygg ég, að svo þyrfti ekki endilega að vera. Ákvörðun fiskverðs er í samhengi við upphaf vertíðar og þarf þess vegna að taka fyrir áramót, og verkalýðsfélögin munu ekki almennt hafa talið heppilegt, að kjarasamningar fari fram á vertíð. E. t. v. væri á þennan hátt unnt að standa á annan hátt að undirbúningi fjárlaga og ákvarðanatöku um þau. En hvað sem þessu liður, er rétt að geta þess, að fjvn. hefur nú fyrir 2. umr., þótt seinna væri en ég hefði kosið, fengið nokkrar upplýsingar um endurmat á tekjuhlið fjárlagafrv. út frá þeim upplýsingum, sem nú liggja fyrir um útkomu síðari hluta þessa árs, miðað við þá spádóma, sem gerðir voru um þann tíma, áður en fjárlagafrv. var unnið, en á þeim áætlunum síðari hluta þessa árs er tekjuhlið frv. m. a. byggð. Taldi hagrannsóknastjóri, Jón Sigurðsson hagfræðingur, sem mætti á fundi fjvn. s. l. mánudag ásamt samstarfsmanni sínum, Ólafi Davíðssyni hagfræðingi, að áætla mætti út frá þeim nýju upplýsingum, sem nú liggja fyrir, að miðað við óbreytta tekjustofna fjárlagafrv. gætu heildartekjurnar orðið um 2 þús. millj. kr. hærri en gert er ráð fyrir í frv., en við samningu þess var byggt á þeim upplýsingum, sem lágu fyrir um sömu þætti á miðju s. l. sumri.

Herra forseti. Þeir flokkar, sem nú eru í stjórnarandstöðu, fóru með stjórn á Íslandi í rúmlega 12 ár. Því stjórnartímabili lauk fyrir rúmlega tveimur árum. Á því tímabili lagði Sjálfstfl., sem öllu réð í stjórninni, sig fram um að láta hin frjálsu efnahagslögmál ráða, láta einkafjármagnið stjórna þróuninni í landinu sem allra mest óheft af afskiptum og aðgerðum ríkisvaldsins og sem minnst stýrt og stjórnað af því. Við þær aðstæður gildir það einfalda lögmál, að fjármagnið sækir þangað, sem það ávaxtast mest. Á þessum árum var sú stefna ráðandi að halda sem mest niðri framkvæmdum ríkisins á öllum sviðum. Fjárfestingarmál áttu að vera í sem allra ríkustum mæli mál einkaframtaksins. Samfélagslegar framkvæmdir voru í lágmarki. Afleiðingarnar urðu í samræmi við lögmál óhefts fjármagns. Það dróst sífellt meir þangað, sem það var mest fyrir. Út um allt land var stöðnun og afturför, landlægt atvinnuleysi og fólk, sem bjó á stöðum, sem höfðu allt til að bera til að vera mikilsverðir framleiðslustaðir, væri fjármagni beint þangað vitandi vits af stjórnarvöldum, hrökklaðist þangað, sem fjármagnið var mest fyrir.

Svo rækilega blómstraði lögmálið um straum fjármagnsins á þann vettvang, þar sem það var mest og ávaxtaðist best á þessum viðreisnartímum, að það fóru naumast spurnir af því, að byggt væri íbúðarhús úti á landi, á sama tíma og það var helsti gróðavegurinn hér í mesta þéttbýlinu að byggja íbúðir og selja.

Á þessum árum voru fjárveitingar úr ríkissjóði til verklegra framkvæmda úti á landi í lágmarki. Það átti við um svo til alla þætti: hafnargerð, flugvallagerð, sjúkrahúsbyggingar o. fl. Þetta hafði þau tvöföldu áhrif, að sáralítið fjármagn frá samfélaginu rann til þessara staða til ráðstöfunar og að fólk, sem átti heima úti á landsbyggðinni, bjó við miklu lakari þjónustu á öllum sviðum en aðrir þjóðfélagsþegnar og sá ekki fram á, að breyting yrði á, svo lítt miðaði.

Þetta ýtti fólki enn burt af þessum stöðum í þéttbýlið, þar sem það jók síðan á eftirspurnina eftir húsnæði og hækkaði það í verði, og lögmál hins óhefta fjármagns blómstraði þar enn betur.

Þetta hefur verið að snúast við hin síðustu tvö árin — og hvers vegna? Vegna þess, að þeir, sem nú fara með stjórn, hafa þá stefnu, að fjármagnið eigi ekki að ráða óheft, það eigi að beita samfélagslegum aðgerðum til þess að ráða nokkru um það, hvað gerist í uppbyggingu og þróun atvinnulífs og félagsmála í landinu. Það eigi ekki að láta óheft lögmál gróðafjármagnsins ráða, heldur eigi ríkisvaldið að beita fjármagninu til þess að bæta og jafna lífskjör almennings í landinu. Núv. stjórnarflokkar hafa veitt og ætla sér að veita af sameiginlegu fé landsmanna til aðgerða og framkvæmda, sem treysta atvinnulífið og bæta og jafna þjónustuna, hvarvetna þar sem brotalamir eru, en láta ekki einkafjármagnið eitt um hituna með þeim afleiðingum, sem við þekkjum frá tímum viðreisnarstjórnarinnar.

Þessir flokkar hafa það markmið að tryggja jafnrétti þegnanna í þjóðfélaginu um atvinnu og þjónustu, hvar sem þeir búa, en ætla ekki einkafjármagninu einu að sjá um það og þá einungis á þeim stöðum, þar sem það sjálft vill hreiðra um sig.

Stjórnarflokkarnir hafa nú stóraukið fjárveitingar til framkvæmda og þjónustu og til tryggingamála til þess að bæta kjör þeirra, sem ekkert hafa annað fyrir sig að leggja en tryggingabætur. Allt kallar þetta á fjárveitingar og skattlagningu.

Sjálfstfl. og Alþfl. létu togaraflotann eyðast í sinni valdatíð, létu tryggingabætur rýrna að kaupmætti á veltiárum, létu fólk úti á landsbyggðinni ganga atvinnulaust, án þess að hafast að, og þeir létu fólkið neyðast til þess að flytja í stórum stíl til þéttbýlisins, þar sem það jók gróða húsabraskaranna. Þessir flokkar hafa ekki treyst sér til þess að standa gegn hækkuðum fjárveitingum til þeirra aðgerða, sem nauðsynlegar hafa verið til að snúa þessari þróun við og nauðsynlegar eru til að halda áfram á sömu braut. Um óhjákvæmilega tekjuöflun til þessara aðgerða gegnir öðru máli, þeir eru á móti henni.

Þessar aðgerðir hafa þegar borið árangur í stóraukinni atvinnu og framleiðslu út um allt land, þar sem nú er keppst við húsbyggingar og hvers konar uppbyggingu. Þær hafa borið árangur í því, að nú sér fólk, sem áður hafði verið sett hjá um opinbera þjónustu, að stórfelldum fjármunum er varið til að auka jafnrétti á þessum sviðum í atvinnumálum og þjónustu.

Til þess að unnt sé að hafa áhrif á það, hvernig atvinnulífið hyggist upp, hvernig þjónustu almenningur býr við, og til að tryggja, að óheft umsvif og streymi fjármagnsins eftir eigin lögmálum drepi ekki heil byggðarlög í dróma, þarf að beita samfélagslegu fjármagni, fjármagni frá ríkinu.

Fjárveitingar sem þær, sem núv. stjórnarflokkar hafa staðið að, og óhjákvæmileg tekjuöflun til þeirra er grundvöllur framfara hvarvetna í landinu og grundvöllur jafnréttis þegnanna til atvinnu og þjónustu, hvar sem þeir búa. Þess vegna treysti ég því, að þau samtök launamanna um land allt, sem hér eiga mestra hagsmuna að gæta og miklu geta ráðið um, hvernig mál skipast nú, tryggi í samningum við stjórnvöld, að þær till. um stórauknar fjárveitingar til að gera enn átak til framkvæmda og framfara hvarvetna um landið fái farsælan framgang.