12.12.1973
Sameinað þing: 35. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1260 í B-deild Alþingistíðinda. (1127)

1. mál, fjárlög 1974

Frsm. 2. minni hl. (Jón Árm. Héðinsson) :

Herra forseti. Ég vil byrja þessa umr. með því að þakka meðnm. mínum og þá sérstaklega formanni fyrir gott samstarf í fjvn. á hinum mörgu fundum, sem nefndin hefur haldið. Einnig hefur hagsýslustjóri mætt á mörgum fundum og verið okkur til mikillar aðstoðar. Óvenjumikill fjöldi erinda hefur nú borist til fjvn. eða rúmlega 600 erindi. Enn þá er stór hluti þessara erinda óafgreiddur, og vitum við ekki í stjórnarandstöðunni, hver afstaða hæstv. ríkisstj. er til þessara erinda.

Eins og fram kemur á þskj. 204, stendur fjvn. sameiginlega að brtt., er nema um 650 millj. kr. í heild. Að þessum brtt. samþykktum verður fjárlagafrv. komið með rúmlega 28 milljarða niðurstöðu, eða hækkun, sem er liðlega 30% frá gildandi fjárlögum. Svo sterk einkenni eru á verðbólgu á Íslandi í dag, eins og hér má sjá.

Einhvern tíma hefðu núv. stjórnarflokkar kallað þetta við aðra aðstöðu en þeir hafa í dag, sérstök einkenni stjórnlausrar óðaverðbólgu. Við í stjórnarandstöðunni höfum skilað sérstökum nefndarálitum og gerum þar grein fyrir viðhorfi okkar til þróunar peningamála. Vissulega er það rétt, að í vissum málaflokkum hefur verið gert stórátak með setningu laga í þágu þessara málaflokka og meiri skattinnheimtu af atvinnulífinu og almennum borgurum eða skattgreiðendum. T. d. má nefna stórátak í hafnamálum, sem hlaut að fylgja í kjölfarið á stórauknum kaupum togara. Nú verður fiskvinnslan að taka á sig mjög stórt álag til þess að mæta auknum útgjöldum í hafnargjöldum. Einnig hefur hlutur ríkissjóðs verið aukinn, og því hlýtur það að vera eðlilegt, að fram komi auknir möguleikar að bæta hafnaraðstöðu hér á landi. Þörfin er augljós, og mun þetta koma öllu þjóðarbúinu að góðu, þegar fram í sækir.

Nokkur deila hefur komið upp á hv. Alþingi um fjárveitingar í hinar stóru hafnarframkvæmdir, en ég tel, að það hafi ráðist vel, hvernig atkvæðagreiðsla féll varðandi hina sérstöku lántöku og framkvæmdir við Grindavíkurhöfn, Þorlákshöfn og Höfn í Hornafirði. Hið mikla góðæri, sem ríkir til sjávarins á yfirstandandi ári, og hið geysiháa verðlag, sem nú er og mun aldrei hafa verið svo hátt áður í sögu landsins, gerir eðlilega kröfu til þess, að betri þjónusta sé tryggð fyrir bátaflotann og vinnslustöðvar landsmanna. Annað væri fullkomlega óeðlilegt. Einnig er lofsvert, að stórátak er gert í gerð flugvalla, og tryggir það betri samgöngur um allt land. Nokkrir fleiri málaflokkar fá verulega aukningu og munu geta aukið framkvæmdir sínar, eins og meiri hl. fjvn. undirstrikar mjög rækilega í sínu nefndaráliti.

Hins vegar er enn óleyst fjármögnun á stórum þáttum á vegum ríkisins, er nema tugum og hundruðum milljóna samtals. Mætti þar nefna þáttinn um sjúkratryggingar og lífeyrisgreiðslur, vandamál Orkustofnunarinnar vegna nýrra viðhorfa í orkumálum og mikilla þarfa á skjótri fjárfestingu í hitaveitu á þéttbýlissvæðinu hér á Reykjanesi og víðar út um land. Á s. l. hausti flutti ég ásamt Stefáni Gunnlaugssyni till. til þál. um mikla fjáröflun til þess að mæta auknum þörfum í hitaveituframkvæmdum, og enn hafa þm. Alþfl. flutt um þetta vandamál nýja till. Þessi till. okkar var samþykkt á þann hátt, að henni var vísað til hæstv. ríkisstj. en lítið hefur borið á úrræðum fyrr en nú, að sérstök nefnd hefur verið sett á stofn á vegum iðnrn. eða orkumálaráðherra til þess að reyna að finna hina skjótustu lausn vegna yfirvofandi olíuskorts í heiminum. Við lögðum til í þáltill. okkar, að stórt lán yrði tekið til þess að flýta fyrir hitaveituframkvæmdum, og er það auðvitað grundvallaratriði, að svo sé gert. Það er skoðun okkar í Alþfl., að varla sé um betri kjarabót að ræða, eins og ástandið er í dag, en geta veitt sem flestum landsmönnum hitaveitu eða upphitun með rafmagni. Það er kjarabót, sem er raunverulega eins og fundið fé fyrir alla neytendur slíks orkugjafa.

Stjórnarsinnar hafa æ ofan í æ haldið því mjög á lofti, að mjög skipulega hafi verið unnið að uppbyggingu atvinnulífsins undanfarið og allt sé nú með meiri blóma en á tímum viðreisnar. Því miður fellur sú staðhæfing um sjálfa sig, að skipulega hafi verið unnið að uppbyggingu atvinnulífsins, þrátt fyrir tilvist Framkvæmdastofnunar ríkisins. Mér er sagt, að þar hrúgist inn beiðnir um margvíslegar áætlanagerðir og sé nú svo komið, að í raun og veru sé stofnunin að kafna í ýmiss konar áætlunargerðum án þess að hafa möguleika að vinna nægilega vel úr þeim og raða þeim niður, eins og undirstrikað var á sínum tíma í umræðum um þessa stofnun, þegar lög um hana voru sett hér á hv. Alþingi. Það er t. d. athyglisvert, að kaupin á skuttogurunum fóru fram hjá þessari ágætu stofnun, og einnig var það upplýst nú fyrir skömmu, að kaup á allt að 10 nýjum hringnótaskipum hafi einnig lent fram hjá sömu stofnun. Þetta er þó fjárfesting, sem nemur frá 7–8 milljörðum á núverandi gengi, og sýnist mönnum, að slík stofnun ætti að fjalla um minna mál en þetta er.

Það mun vera rétt, að á vegum hennar hafi verið gerð áætlun um endurbætur frystihúsa í landinu og samið allmikið plagg í því efni. En því miður er verðbólgan svo ör í landinu, að forsendurnar fyrir þeim útreikningum eru flestar eða allar brostnar. Það, sem knýr fyrst og fremst á um endurskipulagningu í frystihúsaiðnaðinum, eru kröfur frá hinum bandaríska markaði um aukið hreinlæti og betri meðferð á hráefninu. Þessum kröfum verðum við að svara, og mikil nauðsyn er á því, að samræming sé í byggingu frystihúsanna, en ekki sé verið að lappa upp á mörg gömul frystihús, sem eru 20, 30 eða jafnvel 44 ára gömul. En því miður segir mér svo hugur um, að ríkisvaldið stuðli jafnvel að slíkri þróun í ríkum mæli.

Í svari við fyrirspurn frá mér hér fyrir nokkru upplýsti hæstv. sjútvrh., að afkoma hinna nýju skuttogara væri erfið og augljóst væri, að þeir gætu ekki staðið í skilum með afborganir vaxta og lána. Þetta er alvarlegt mál. Það er óhjákvæmilegt, að hv. Alþ. líti á þessa staðreynd. Hvort sem menn vilja, að eitthvað sé lagt til hliðar á fjárlögum til að mæta þessum erfiðleikum í rekstri togaranna eða á annan veg, þá er ekki hægt að komast fram hjá því, að eitthvað verður að gera og það fyrr en síðar, til þess að þessi nýju, góðu skip, sem færa þjóðarbúinu svo mikið verðmæti úr hafinu, stöðvist ekki. Sjálfsagt kunna að verða skiptar skoðanir um, hvað rétt sé að gera, en ég vil leggja áherslu á það, að enn dýrara er og óverjandi með öllu, að þessi skip geti ekki haft eðlilegan rekstur og að til stöðvunar komi á þeim, sérstaklega hjá fyrirtækjum úti um land. Það yrði þeim kaupstöðum og þorpum ofviða, sem að slíkri útgerð standa, á mjög stuttum tíma.

Það er ekki nóg að hæla sér yfir því að hafa stuðlað að kaupum á 60 skuttogurum og geta ekki leyst þann vanda sem fylgir því að skapa þessum atvinnutækjum eðlilegan rekstrargrundvöll. Það gæti þá fljótlega slegið í bakseglin fyrir atvinnulífið og orðið þungt til úrlausnar, ef dregst úr hömlu að ráðast á þennan vanda, sem er að tryggja skuttogaraflotanum sómasamlegan rekstur. Þetta vil ég hér undirstrika og leggja á það mikla áherslu, að hæstv. ríkisstj. taki á þessu máli af raunsæi, en ekki með neinu hiki. Þegar togarakaupin voru undirbúin í tíð viðreisnarstjórnarinnar, sáu menn fram á, að möguleiki væri á því, að endar næðu saman, eins og sagt er. Þá var kvöð á fiskkaupanda, að hann borgaði 11% aukalega til útgerðarinnar, og hefði þetta nokkurn veginn dugað í dag, a. m. k. gagnvart því, að ekki væri um að ræða, að bein útgjöld væru meiri en innkomnar tekjur. Þegar tekið er tillit til fullra afskrifta, munu endar ekki nást saman, þó að þetta kerfi hefði haldist óbreytt. En hæstv. ríkisstj. breytti þessu fyrirkomulagi fyrir löngu, og nú blasir við sá vandi, eins og ég drap á áðan, að tryggja það, að þessi stórvirku atvinnutæki geti haldið áfram eðlilegum rekstri.

Svo var komið í desember fyrir nærri ári, að hæstv. ríkisstj. sá sig tilneydda að fara út í gengisfellingu, sem var ákveðin 10.7% gagnvart dollar. Því hafði þó verið margyfirlýst áður í ræðu og riti af stjórnarsinnum, að ekki mundu þeir grípa til gamalkunnra viðreisnarráða til að leysa úr efnahagsvanda, ef upp kæmi. En sem sagt, hið gamalkunna ráð, gengisfelling, var næst hendi, og sú var niðurstaðan, að sú leið var valin. Þetta leiddi til þess, að einn af stuðningsmönnum hæstv. ríkisstj., hv. 3. landsk., Bjarni Guðnason, hefur sagt skilið við hæstv. ríkisstj., og þar með hefur hæstv. ríkisstj. misst meiri hl. sinn í neðri deild.

Nú er úr vöndu að ráða. Óhjákvæmilegt er, eins og boðað hefur verið, að setja löggjöf um tekjuauka, og nú í fyrradag var lagt fram frv. um lækkun tolla, er mun rýra tekjumöguleika ríkissjóðs um nokkur hundruð milljónir. Það liggur því ekki fyrir, að unnt sé að koma með tekjuöflunarfrv. er hafi öruggan framgang á hv. Alþingi.

Nú er það upplýst, að tekjur ríkissjóðs á yfirstandandi ári verða nálægt 2000 millj. kr. hærri en fjárlög gera ráð fyrir. Þetta er óvenjumikil aukning. Jafnframt þessu verða útgjöld einnig mun hærri, þótt ekki sé vitað, hvað það er í krónum talið. Samt sem áður er augljóst, að afkoma ríkissjóðs á yfirstandandi ári verður óvenjugóð. Það væri vissulega eðlilegt undir ríkjandi kringumstæðum í geysilegri verðbólgu, þenslu á vinnumarkaði og of mikilli eftirspurn eftir vinnuafli, svo að sumar starfsgreinar eru næstum því á uppboði, að ríkissjóður hefði og sæi ástæðu til að leggja nokkuð digra sjóði til hliðar. En því miður, ekki virðist vera um slíkt að ræða, a. m. k. höfum við í stjórnarandstöðunni ekki verið heiðraðir með því, að okkur sé greint frá slíku.

Það er augljóst, að mikil breyting hefur verið á flestum eða öllum þáttum fjárlaga fyrir yfirstandandi ár til hækkunar. Hið góða árferði, sem ríkir varðandi sjávarafurðir, hefur gefið ríkissjóði mjög auknar tekjur og landsmönnum möguleika á mjög mikilli aukningu í innflutningi, svo að talið er, að hún nemi jafnvel allt að 55%. Grundvöllur tollstofns hefur verið talinn munu aukast allt að 37% á þessu ári, en var áætlað upphaflega, að mundi nema um 27%. Þetta gefur auðvitað, eins og áður er sagt, ríkissjóði geysimikla tekjuaukningu.

Hin hagstæða þróun á sölu sjávarafurða gaf ríkisstj. möguleika á því að hækka gengið aftur á s. l. vori. En því miður kom sú ráðstöfun mjög misjafnlega niður á einstökum framleiðendum og skapaði mörgum erfiða aðstöðu, þar sem þeir höfðu keypt rekstrarvörur sínar, svo sem veiðarfæri og margt annað, m. a. olíur, á hinu lægra gengi og áttu afurðir sínar næstum allar eftir vertíðina óseldar úr landi, en fengu greiðslu í staðinn á háa genginu. Einnig hefur þetta komið mjög illa við útflutningsiðnaðinn, og forsvarsmenn iðnaðarins undirstrika það nú í tíma og ótíma, að staða þeirra sé mjög erfið og að fyrirsjáanlegt tap á þessum útflutningsgreinum sé það mikið, að nema muni mjög mörgum tugum milljóna og sumar stefni í strand, ef ekki verði að gert til hjálpar.

Sú hugmynd hefur komið fram, að nota ætti nú skyndilega Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins, er nemur nú nálægt tveimur milljörðum til þess að hlaupa undir bagga með iðnaðinum. Þessi hugmynd er fráleit á þessu stigi, vegna þess að myndun Verðjöfnunarsjóðsins fer eingöngu fram innan sjávarútvegsins sjálfs og er hrein eign þeirra, er við sjávarútveginn starfa, og kemur ekki til greina undir neinum kringumstæðum að taka hann frá þeim. Það, sem má gera, er að stofna til hliðstæðrar sjóðsmyndunar fyrir iðnaðinn og aðrar atvinnugreinar og þá með kvöð á sjálfan sig, en ekki láta aðrar greinar atvinnulífsins borga með slíkri milligjöf. Slíkt kerfi er fjarstæða og mun leiða af sér hreina upplausn á milli atvinnugreina. Það er útilokað að leggja á slíkar kvaðir á milli atvinnugreina og láta einhverja misvitra stjórnendur útdeila slíku eftir árferði. Þá er miklu hreinna að hafa skatta það háa, að þeir hrökkvi til, ef illa árar einhvers staðar, og ríkissjóður eigi einhverja möguleika á afgangi og allir borgi eftir hliðstæðum reglum og lögum inn í ríkissjóðinn.

Þótt afkoma sjávarútvegsins hafi verið óvenjugóð á þessu ári, eru miklar blikur nú fram undan vegna geysilegra hækkana á olíum og veiðarfærum Því miður er fyrirsjáanlegt, að veiðarfæri munu hækka frá 50–70% eða jafnvel enn meir, og enn alvarlegra er, ef dæma má frá útlitinu í dag, að alger skortur kann að koma fram síðla á næsta ári, svo að margir bátar munu verða í mjög miklum vandræðum að tryggja sér veiðarfæri fyrir árið 1975. Ómögulegt er að spá, hvaða afleiðingar þetta hefur, en eitt er víst, að nú vantar geysimikið rekstrarfé til bátaflotans í heild til þess að geta keypt strax það, sem hægt er að fá af veiðarfærum, þó að á háu verði sé, því að það er mál þeirra, er til þekkja, að verð muni enn fara hækkandi, er líður fram á veturinn. Raunverulega þyrfti ríkisstj. að hugleiða að stofna til sameiginlegra innkaupa í allstórum stíl á veiðarfærum og geyma hér og úthluta síðan, til þess að sumir hverjir lendi ekki gersamlega uppi á skeri og verði að hætta atvinnurekstri sínum vegna veiðarfæraskorts. Mér er kunnugt um það, að í Noregi hefur ríkisvaldið sett mjög strangar reglur um notkun veiðarfæra og útflutning, og er tímabært, að hæstv. ríkisstjórn taki þetta alvarlega mál til rækilegrar athugunar og tryggi nú, ef nokkur leið er, að í landinu séu til einhverjar lágmarksbirgðir af veiðarfærum, sem yrði úthlutað eftir aðstæðum hjá útgerðinni um allt land. Þetta mun kosta allmikið fé, en það mun kosta enn meira fé, ef tugir báta geta ekki haldið út í árslok næsta árs eða hafið vertíð á eðlilegum tíma 1975 vegna veiðarfæraskorts.

Annar þáttur í þessari bliku, sem fram undan er fyrir sjávarútveginn í annars góðu árferði varðandi sölu afurða, er hækkun sú, sem fram undan er á brennsluolíum og smurolíum. Samtals hafa fróðir menn talið, að hækkun veiðarfæra og olíu kunni að nema allt að tveimur milljörðum á ársgrundvelli í auknum rekstrarútgjöldum. Ef svo reynist, má augljóst vera, að forsendur um stórhækkaðar launakröfur á hendur atvinnulífinu eru því miður hæpnar og jafnvel brostnar. Þessi þróun kostnaðar fyrir sjávarútveginn og skortu,r á olíu er svo mikið mál, að hæstv. ríkisstj. verður að gera allt, sem unnt er, til þess að koma í veg fyrir alvarlegar afleiðingar af þessari miklu breytingu. Þegar hefur nefnd embættismanna verið sett á stofn til þess að kanna, hvaða afleiðingar þetta hefur fyrir atvinnulífið, og er það vel út af fyrir sig, en hér má heldur ekki skera við nögl sér nauðsynleg útgjöld til þess að komast að raun um, hvað skynsamlegt er að gera til þess að draga úr þessum áhrifum fyrir atvinnulífið og þar með landsmenn alla.

Ég vil benda á t. d. einn þátt. Ef skortur verður á smurolíum, þó að það sé ekki stór liður út af fyrir sig, þýðir það samt, að fjöldi báta getur umsvifalaust stöðvast eða vissar vélar og þar með vissir þættir í framleiðslukerfinu, er leiða af sér stöðvun á öðrum sviðum. Það kemur, eins og mönnum hlýtur að vera ljóst, fram keðjuverkun mjög fljótlega í okkar þjóðfélagi, ef undirstöðuatvinnuþátturinn stansar.

Við afgreiðslu yfirstandandi fjárlaga fyrir réttu ári var sett inn heimild til þess að draga úr samþykktum útgjöldum um 15% á vissum þáttum, hjá ríkisfyrirtækjum. Nú er upplýst, að vegna góðrar afkomu ríkissjóðs á yfirstandandi ári, er nemur mikið á annan milljarð, hefur ekki þurft á þessu að halda, eins og heimildin veitti hæstv. fjmrh. að gera. Þetta sýnir, að jafnvel hæstv. ríkisstjórn hefur metið ástand mála í efnahagskerfinu mjög á annan veg en raun ber vitni um, og öll verðlagsþróun hefur orðið miklu meiri og örari í verðbólguátt en gert var ráð fyrir. Í raun og veru hefur verðbólgan þróast hér sem hrein óðaverðbólga. Hv. 3. landsk., Bjarni Guðnason, hefur séð ástæðu til þess að lýsa þessari þróun á þann veg, að hér væri ekki aðeins óðaverðbólga, heldur væri nauðsyn að setja orðið „æsileg“ framan við, svo að henni væri rétt lýst. Hann hefur jafnframt sagt það vera einkenni hæstv. ríkisstj., að í raun væri skattpíning hennar komin á það stig að kalla mætti, að almenningur væri ekki lengur sjálfráða aura sinna. Hvað sem þessu líður, er öllum ljóst, að lengra verður ekki gengið í innheimtu beinna skatta. Hæstv. fjmrh. hefur lýst því yfir, að hann sé fús til þess að draga úr beinum sköttum og hverfa yfir í óbeina skatta í hærra hlutfalli en verið hefur hér á landi. Miðað við framkomnar tillögur, bæði af hálfu Alþfl. og hálfu Sjálfstfl. Virðist vera grundvöllur fyrir ákveðinni kerfisbreytingu í innheimtu beinna skatta og óbeinna skatta. Ég ætla mér ekki að fara hér að ræða um tillögur Alþfl. Það hefur þegar verið gerð grein fyrir þeim af 1. flm., formanni flokks okkar, Gylfa Þ. Gíslasyni, hér í Sþ. fyrir nokkru. Við hins vegar teljum það skyldu okkar, um leið og við leggjum til, að beinir skattar lækki verulega, að lýsa yfir, að við séum til viðtals um að tryggja ríkissjóði hliðstæða tekjumöguleika í formi óbeinna skatta og hann missir við lækkun beinna skatta. Einnig leggjum við til, að komið sé til móts við láglaunafólk, er ekki hefur greitt beina skatta, og því verði með engu móti íþyngt við kerfisbreytinguna. Í till. Sjálfstfl. bólar ekki á neinni slíkri úrlausn, og mun ég ekki ræða það nánar, en þess verður að vænta, að fulltrúar þeirra geri nokkru nánar grein fyrir því, með hvaða hætti þeir vilja mæta tillögum sínum um tekjumissi ríkissjóðs, jafnvel yfir 4 milljarða kr. samkvæmt þeirra frumvarpi.

Ég hef áður vikið að verðþenslunni, og það mun sjálfsagt verða drepið á hana af fleiri ræðumönnum en mér og hefur þegar verið gert. Þar sem allir virðast vera á móti mikilli verðþenslu og óðaverðbólgu, ættu að vera möguleikar á því að ná samstöðu um hömlun á útþenslu ríkisútgjalda, en því miður virðist ekki ríkja hér á hv. Alþingi samstaða um slíkt. Það er ekki nóg að tala um það, að draga þurfi úr ríkisútgjöldum, við þurfum að koma saman og móta ákveðna stefnu í því efni. Á almennum borgarafundi, sem Alþfl. gekkst fyrir s. l. sunnudag, 19. nóv., í súlnasal Hótel Sögu, lýsti formaður Sjálfstfl., 2. þm. Reykv., Geir Hallgrímsson, yfir því aðspurður, „að Sjálfstfl. væri reiðubúinn að stuðla að tillögum um lækkun fjárlaga með ríkisstjórninni,“ og hann bætti við: „Tilboðið stendur, hvort sem við erum í ríkisstjórn eða ekki“.

Ég get fyrir hönd Alþfl. sagt, að við erum að sjálfsögðu nú sem fyrr reiðubúnir til þess að ræða um hömlur á verðbólgunni, því að það mun koma láglaunafólki að mestu gagni, að verðbólgan sé sem minnst. Engir græða meira á verðbólgunni í dag en stóreignamenn og braskarar, og það hefur margsinnis verið undirstrikað af núverandi stjórnarflokkum á sínum tíma, verandi þá í stjórnarandstöðu, að viðreisnarstjórnin svonefnda hjálpaði gróðamönnum umfram aðra á því tímabili. En ég vil segja, að aldrei hafa ríkt betri tímar hjá þessum hópi manna, hversu stór svo sem hann er, en einmitt undanfarin 2–3 ár. Vil ég í því efni minna á, að byggingarvísitalan var 1. mars 1970 439 stig, en 1. þ. m. var hún 913 stig. Á þessum þremur árum og átta mánuðum hefur byggingarvísitalan því hækkað um 474 stig eða um 108% og þar af um 272 stig síðan í árslok 1971 eða um helming. Þessi þróun er geigvænleg, og verðum við að grípa í taumana til að hamla hér á móti.

Ég vil enn einu sinni minna á hið góða fyrirheit í málefnasamningi hæstv. ríkisstjórnar um það að tryggja, að hækkun verðlags hér á landi verði ekki meiri en í helstu nágranna- og viðskiptalöndum okkar. En því miður er sannleikurinn sá, að engri ríkisstjórn á Íslandi hefur mistekist stjórn efnahagsmála jafn herfilega og sjálf mjög áþreifanlega, en þau hafa nær þrefaldast á þessu valdatímabili, sem er 21/2 ár. Hæstv. fjmrh. hefur sagt, að fjárlögin séu spegilmynd af efnahagsstefnu viðkomandi ríkisstj., og svo sannarlega sjáum við í spegilinn, og myndin er ótvíræð.

Í nál. meiri hl. er sagt, að markvisst hafi verið unnið að því að tryggja afkomu þjóðarbúsins. Vel væri, ef rétt væri frá sagt. En því miður er afkoma þjóðarbúsins ekki jafntrygg og góðærið gefur til kynna, eins og ég hef nokkuð fjallað hér um að framan, og almenningur í landinu er þess fullmeðvitandi, að mjög mikil óvissa ríkir um afkomu margra þátta í atvinnulífinu. Hins vegar er hið háa verðlag á útflutningsafurðum okkar þess valdandi, að margir launþegahópar hafa sett fram óvenjulega háar launakröfur í dag og telja, að atvinnulífið geti með góðu móti mætt kröfum þeirra. Þeim er að ýmsu leyti vorkunn. Þeim er ekki ljóst, að verðþenslan er svo gífurleg á öllum sviðum, að afkoman er ekki trygg þrátt fyrir hið margrómaða góðæri, sem ríkir. Því hefur verið haldið mjög á lofti, að kaupmáttaraukning hafi verið hér mjög mikil, og til þess notaðar ýmsar kúnstir að sanna þá staðhæfingu. En væri nú ekki rétt að búa til sæmilegan lista yfir helstu neysluvörur: mjólk, smjör, ost, kjöt, sykur, hveiti, brauðtegundir, hinar algengustu, og jafnvel eitthvað meira og bera það saman s. l. 3 ár og láta það tala út af fyrir sig? Þennan lista á að birta. Það er ekki hægt að fara nákvæmlega út í það hér, það yrði allt of langt mál, en þetta er það, sem snýr að húsmóðurinni. Þetta er það, sem snýr að hinum almenna neytanda. Ég vil aðeins minna á: Hvað kostaði mjólkurlítrinn, þegar ríkisstj. tók við völdum? 12.60 kr. En hvað kostar hann í dag? 25.30 kr. Hækkunin er 100%. Það er ekki langt frá því, að svipuð hreyfing eigi sér stað varðandi kjötið.

Margvísleg önnur þjónusta hefur hækkað um 50% eða meir. Það er ekki nóg að reikna með, að stytting vinnutímans gefi mönnum svo og svo mikið í kaupmáttaraukningu. Það, sem launþeginn finnur og skattþegninn gerir sér grein fyrir, er það verðmæti til þarfafullnæginga, sem ákveðin krónutala veitir honum frá ári til árs. Það metur hann sem sína kjarabót og sína kaupmáttaraukningu, annað ekki.

Sú var tíðin, að forsvarsmenn Alþb. töluðu mjög um það, að spara mætti í bankakerfinu, þar mætti endurskipuleggja, þar mætti hirða margs konar gróða, sem bankaauðvaldið myndaði á Íslandi. Almenningur hefur nú beðið spenntur eftir því að sjá eitthvað gert eða aðhafst í þessum efnum til hagsbóta og til skynsamlegrar úrlausnar. En hvað hefur skeð? Bókstaflega ekki neitt. Og það eina, sem maður hefur spurnir af, er, að nú sé verið að semja um það, að Alþb. tryggi sér nýjan bankastjóra í einum ríkisbankanna. Nú er ekki talað um endurskipulagningu. Nú er ekki talað um samdrátt í bankakerfinu. Nú þarf aðeins að tryggja það, að einn úrvalsmaður í flokknum fái aukin völd, heppilega stöðu. Þetta eru allar efndirnar á því sviði.

Undirnefnd fjvn. hefur starfað nokkuð í sumar og farið yfir vandamál vissra ríkisfyrirtækja og fengið skýrslur frá viðkomandi forstjórum.

Þar hefur verið rætt ítarlega um margvíslegan sparnað og endurskipulagningu. Þetta er verk, sem gengur of seint að mínu mati, og ég undirstrikaði það í ræðu minni hér í fyrra, að raunverulega þyrfti að ákvarða, hvað mikið valdsvið undirnefnd fjvn. gæti fengið, svo að hún gæti ýtt meira á um endurskipulagningu og gert tillögur til fjmrh., sem hægt væri að framfylgja á sem skemmstum tíma, um aðhald og sparnað í ríkisrekstrinum. Ég vil taka það fram, að sumir forstjórar ríkisstofnana, sem nefndin hefur talað við, eru mjög opnir fyrir því að endurskipuleggja og gæta hófs í rekstri sinna stofnana, og er það mjög þakkarvert. Hins vegar verðum við líka varir við það í undirnefnd, að nokkurt tregðulögmál ríkir í sumum þessara stóru ríkisstofnana, og það hefur verið nefnt „smákóngaveldi“. Þessu þarf að breyta.

Í athugun er nú rekstur vissra stórra ríkisstofnana, og verður að vænta þess, að nokkur árangur náist á því sviði. Ég mun ekki fara út í það hér nú, þar sem hún er svo skammt á veg komin og form. fjvn. hefur þegar vikið að henni, en það er von mín, að hæstv. fjmrh. stuðli að því, þar sem hann hefur sýnt í því efni lofsverðan skilning, að margar ríkisstofnanir verði teknar til gaumgæfilegrar endurskoðunar varðandi rekstur og jafnvel sameiningu vissra þjónustuþátta og þar fram eftir götunum. Fyrir þetta vil ég persónulega þakka honum og einnig meta að verðleikum framlag hagsýslunnar. Þaðan hefur undirnefnd fengið ítarleg gögn um margt úr ríkisrekstrinum og góðar hugmyndir um endurskipulagningu, sem að mínu mati mundi spara útgjöld verulega hjá vissum stofnunum. Þegar allir stjórnmálaflokkar eru sammála um, að hamla verður á móti þenslunni í ríkiskerfinu, ætti að vera leið til þess að draga úr þessari þenslu og sýna ákveðna viðleitni í þá átt að hamla á móti verðþenslunni, óðaverðbólgunni, sem hér ríkir. En vandamálið virðist mér vera það að fá menn til að vera það ábyrga, að þeir vilji standa saman Um ákveðnar tillögur, er jafnvel geti gengið svo langt, að allmörgum ríkisstarfsmönnum sé hreinlega sagt upp starfi, þar sem þjónustan eða framkvæmdin á vegum ríkisins er ekki nægilega vel framkvæmd. Einnig er hinn þátturinn, sem þarf að taka til gaumgæfilegrar athugunar, og það er sá framkvæmdahraði, sem ríkisvaldið verður að hafa á sínum framkvæmdum. Það hefur alltaf verið svo, og reyndar mun verða um óákveðin tíma, að þrýst er á, að sem mest fjármagn komi úr ríkissjóði í opinberar framkvæmdir, og þarf ekki að rekja það hér nánar. Við vitum allir, að í okkur þm. er kippt meira og minna, ef heimamenn í héraði eru óánægðir, og okkur er álasað fyrir sofandahátt, léleg vinnubrögð og þar fram eftir götunum. Þetta þola auðvitað þm. ekki til lengdar. Þeir hefjast handa og gera nokkra atlögu að ríkissjóði um meiri fjárútlát. En hér sem í mörgu öðru þarf að gæta samræmingar og meta og vega, hvað kemur þegnunum í heild að bestum notum.

Byggðastefnan á mikinn hljómgrunn meðal þjóðarinnar í dag, og er það vel út af fyrir sig. En ég vil aðeins segja frá einu dæmi hér, að erfitt getur verið að meta aðstæður á milli tveggja staða, þó að í sama landsfjórðungi sé. Það er varðandi hafnarframkvæmd, en samþykkt var að ráðast í framkvæmd, er nam milli 7 og 8 millj. kr. á öðrum staðnum, en hinn staðurinn, sem ég vil bera saman við, er allmiklu stærri, og ég tel, að hann eigi mikla og blómlega framtíð fyrir sér eftir vissa samgöngubót, sem nú er unnið að og verður búin á næsta ári. Þennan stað vanhagar um sjúkrahús og margt annað, og að mínu mati er miklu skynsamlegra að hjálpa þessum stað um stórfé, þó að á öðrum stað í viðkomandi landsfjórðungi sé, og heldur sætta sig við þessa hafnarframkvæmd á minni staðnum. En nú er þrýst á um tugmilljóna framkvæmd á minni staðnum í viðbót í hafnarframkvæmdir, og það er túlkað svo, að verði ekki látið undan, muni fólksflutningar eiga sér stað úr þessu litla plássi. Hvernig á að leysa svona hnút? Ég segi það hreinskilnislega, að þegar báðir staðirnir eru í sama landsfjórðungi, tel ég rétt á þessu stigi að veita í sjúkrahús og aðra lífsnauðsynlega fyrirgreiðslu á hinum stærri og örugglega miklu blómlegri stað í framtíðinni, en segja hinu fólkinu, að ekki sé svigrúm að sinni að ganga lengra en þegar hefur verið gert varðandi þá framkvæmd sem nú er nýlokið á hinum minni stað. Auðvitað er þetta erfitt verk, en við komumst ekki hjá því að meta og vega, hvað er hægt með skynsamlegu og góðu móti að gera. Þörfin fyrir opinbera aðstoð er hvarvetna mikil fyrir hendi.

Ég vil kalla það stjórnleysi í efnahagsmálum að láta svo víða undan, að ekki er einu sinni möguleiki á því að framkvæma fyrir það fé, sem fjárlög veita og innheimt er af skattborgurunum, þótt nú ríki hin mesta óðaverðbólga. Það eru allmörg dæmi þess, að nokkuð stórar upphæðir geymist á milli ára núna í röð, og m. a. má benda á, að í skólunum er rúmlega 100 milljónum óráðstafað frá s. l. ári, og ég veit ekki betur en bókstaflega hafi ekki verið svigrúm til þess að eyða þessu fjármagni. Þó vantar skóla mjög alvarlega á vissa staði á landinu, en það er í þéttbýli. Og ég sé ekki annað en þeim kröfum verði að mæta því sem næst að fullu.

Mikil uppbygging hefur átt sér stað í skólum á vissum svæðum úti um land, og það er út af fyrir sig gleðilegt. En það er ekki heldur verjandi, að hér á þéttbýlissvæðinu og t. d. í kjördæmi mínu skuli vanta svo hörmulega skólastofur nú, að jaðri við hreint neyðarástand á vissum stöðum. Meiri hluti fjvn. stillir upp í krónutölum talið fjárveitingu frá 1970 og til ársins 1974, og er undirstrikað, hversu aukningin er gífurlega mikil í krónum talið. En væri ekki nauðsynlegt að láta fylgja með, hvað hægt var að framkvæma fyrir hverja milljón í byggingu, svo sem í skólahúsnæði, talið í rúmmetrum eða einhverju öðru, sem er sambærilegt frá ári til árs? Það er hinn raunverulegi samanburður, sem almenningur vill fá. Þessi talnaleikur á milli áranna er um of notaður af okkur hv. þingmönnum. Við eigum að koma fram og segja nákvæmlega, hvað raunverulega er hægt að gera á viðkomandi ári, og leggja það fyrir dóm kjósenda.

Ég mun ekki rekja hér einstaka þætti frv., eða málaflokka. Það hefur þegar verið gert skilmerkilega af formanni fjvn., og yrði um mikla upptalningu að ræða af minni hálfu, ef ég gerði það nú. En eins og ég gat um hér að framan, höfum við ekki séð nýja áætlun um tekjuöflun ríkissjóðs fyrir árið 1974. Unnið er nú að því í hagrannsóknadeild Framkvæmdastofnunarinnar að gera nýja áætlun um tekjuhliðina við fjárlagafrv. Einnig er komið fram frv. um mikla tollalækkun, og verður því fróðlegt að sjá, hvernig hæstv. ríkisstj. hugsar sér að ná saman endum í tekjuöflun og útgjöldum, þegar það er viðurkennt, að ekki er hægt að ganga lengra í því efni að innheimta hærri beina skatta. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir hækkun á söluskatti. Söluskattsaukning einhliða mun ekki ná fram að ganga. Það er því ríkjandi alger óvissa, hvernig hæstv. ríkisstj. ætlar að komast í gegnum eðlilega tekjuöflun árið 1974. Ég get ekki vænst þess, að teknamegin séu áætlaðar tölur byggðar á þeirri tekjuaukningu, sem núverandi ár sýnir, og það síðan framreiknað til dæmis með 20%, 25% eða jafnvel 30% aukningu. Slíkt er óraunhæft, eins og ástand efnahagsmála er í dag, og afkoma atvinnuveganna er á þá lund, eins og ég hef áður rakið, að slíkt er engan veginn rökrétt. Þó er vitað, að reikna má með því, að viss fyrirtæki muni greiða verulega hærri skatta á næsta ári vegna góðrar afkomu í ár en verið hefur, en það mun hvergi nærri hrökkva til á móti hækkun útgjalda vegna verðbólgunnar. Reikna má með því, að áhrif frá erlendum verðhækkunum kunni að vera á næsta ári 13–15%, en það hefur verið metið á yfirstandandi ári allt að 12%. Hins vegar hefur verðbólgan hér nálgast 30% á yfirstandandi ári. Slík þróun áfram hlýtur fyrr eða síðar að setja allt efnahagslíf úr skorðum. Ekki þarf nema tiltölulega lítilfjörlega lækkun á afurðum okkar á erlendum markaði, svo að allt fari í strönd aftur og við blasi enn ein gengisfellingin. Það verður að gera þá kröfu til stjórnenda þjóðarbúsins í slíku góðæri og nú ríkir varðandi verðlag á afurðum okkar, að gengisfelling sé ekki á næsta leiti og ekki á þar næsta leiti heldur.

Því hefur verið haldið fram, að veruleg stefnubreyting hafi átt sér stað í þá átt, að nú séu framkvæmdir á vegum ríkisins í mun stærra mæli fjármagnaðar með samtímatekjum. Það er rétt, að nokkuð hefur miðað í þessa átt. En rétt er að undirstrika það, að nú munu erlend lán, löng og stutt, vera miklu hærri en nokkurn tíma áður í sögu okkar, eða yfir 20 milljarða. Mörg lán eru tekin til þess að standa fyrir óhjákvæmilegum framkvæmdum, langtíma fjárfestingarframkvæmdum, og er það eðlilegt út af fyrir sig. En fara verður varlega í þessu efni sem öðrum við ríkjandi aðstæður. Mér er ekki kunnugt um, hversu há tala er nú í erlendum skuldum á stuttum viðskiptalánum, en það væri fróðlegt að fá um það samanburð 2–3 ár aftur í tímann. Innflutningur á yfirstandandi ári gefur til kynna, að boginn sé spenntur til hins ítrasta í þessu efni, og er tæplega skynsamlegt eð auka þannig á neyslu í þjóðfélaginu við ríkjandi aðstæður. Hins vegar kemur það ríkissjóði mætavel að fá síhækkandi tolltekjur af svona miklum innflutningi, en talið er, eins og ég gat um hér að framan, að aukningin nemi um helming á yfirstandandi ári frá því, sem áætlað var.

Eitt mikilvægt atriði er gersamlega óleyst varðandi tekjuöflun ríkissjóðs. Það eru áhrif vísitölunnar í breyttu skattformi. Það hefur verið undirstrikað af hæstv. fjmrh., að nýir skattar mættu ekki koma að fullu inn í vísitöluna vegna sívaxandi áhrifa frá víxlhækkunum, og er þetta auðvitað laukrétt. Því miður hafa launþegasamtökin ekki náð samstöðu í þessu máli, en það er mikilvægt, að þau beri gæfu til þess að gera sér grein fyrir því, hver eru áhrif víxlhækkana á kaupgjaldsvísitölu og vinnulaun og neysluvöru sitt á hvað, eftir því, hvernig þessum málum er fyrir komið og hvernig hver þáttur verkar til skiptis til hækkunar og verðbólguhvetjandi. Við þá samningagerð um launakjör, sem framundan er og þegar er unnið að, vil ég láta þá ósk í ljós, að menn beri gæfu til þess að koma sér niður á betra kerfi en ríkt hefur um margra ára bil í þessum efnum. Það er, eins og ég nefndi hér að framan láglaunamanninum í óhag, að hér geisi verðbólga. Það er stóreignamaðurinn, sem hagnast mest á verðbólgunni, láglaunamaðurinn situr eftir eignalaus.

Sparifé, sem lagt er til hliðar, brennur upp, verður að engu. Sæmilegar fyrningar til elliáranna gufa upp, og enginn ræður neitt við neitt. Þetta ástand hefur varað í ísl. þjóðfélagi með mismunandi móti allt frá stríðsbyrjun. Ég tel, að það sé tími kominn til þess, að þeir, er spara og lifa hófsamlega og eru hinir mætustu þegnar varðandi skattgr. og ráðstöfun tekna sinna, fái viðurkenningu á þessu sviði með því, að ríkisstj. geri nú myndarlegt átak til þess, og raunar allir stjórnmálaflokkarnir, að dregið sé úr verðbólgunni, svo að sparifé landsmanna fái að ávaxtast í friði án þess að brenna upp og rýrna óeðlilega á verðbólgubálinu.

Herra forseti. Ég mun nú ekki lengja mál mitt miklu meira. Ég vil aðeins undirstrika það, að við í Alþfl. munum ekki koma með stórar tillögur til hækkunar útgjalda. Hins vegar áskiljum við okkur rétt til þess að flytja eða standa að smávægilegum breytingum til hækkunar eða lækkunar á frv., en tillöguflutningur af okkar hálfu, sem nemi útgjöldum upp á hundruð milljóna, verður ekki fyrir hendi. Við væntum þess, að takast megi að hefta verðbólguna. Við væntum þess, að launþegar geti tryggt kjör sín í komandi kjarasamningum. Við væntum þess, að athafnalíf og allur atvinnurekstur í landinu geti verið með eðlilegum hætti og vertíð geti hafist á venjulegum tíma á komandi ári. Við væntum þess, að almenningur í landinu gefi gaum að því, er kemur að næstu kosningum, hvernig tekist hefur í efnahagsmálum hjá hv. stjórnarsinnum við hinar bestu aðstæður, sem þjóðfélag okkar hefur átt við að búa varðandi ytri áhrif. Almenningi í landinu var lofað fastri stjórn, skipulegri stjórn á efnahagsmálum, nýjum úrræðum, betri úrræðum í kosningabaráttunni fyrir síðustu kosningar. Við væntum þess, að almenningur haldi svo vöku sinni, að hann meti úrræðaleysi núverandi stjórnarherra og hvíli þá við fyrsta tækifæri.