12.12.1973
Sameinað þing: 35. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1271 í B-deild Alþingistíðinda. (1128)

1. mál, fjárlög 1974

Fjmrh. (Halldór E. Sigurósson) :

Herra forseti. Ég vil byrja mál mitt með því að þakka formanni fjvn. og nm. öllum, bæði úr meiri og minni hl., fyrir ágætt starf, sem þeir hafa unnið við afgreiðslu þessa fjárlagafrv. til 2. umr. Mér er það ljóst og er því kunnugur, að það reynir mikið á starfsorku þeirra og dugnað við slíkan undirbúning sem þennan, og þeir hafa sýnt mikinn dugnað við það. Ekki síst þakka ég það, hvað nú er mikið af málefnaflokkum afgr. við 2. umr., en það hefur verið með ýmsu móti, hvað það hefur verið á hverjum tíma. Ég vil líka þakka hagsýslustjóra og starfsfólki hagsýslunnar fyrir þeirra vinnu í sambandi bæði við meðferð málsins, meðan það hefur verið hér á Alþ., og eins áður en frv. var lagt fram.

Það er ekki nema eðlilegt, að í sambandi við umr. um þetta frv. komi fram viss gagnrýni, og svo á að vera, og skal ég ekki fara langt út í það eða það, sem sagt hefur verið hér í umr., en hef þó löngun til þess að víkja að nokkrum atriðum eða til þess að leiðrétta það, sem mér finnst, að betur mætti fara.

Ég verð að segja það, að ég get glaðst yfir því, að þær ræður, sem ég flutti hér í stjórnarandstöðu áður fyrr, hafi verið nokkurs virði, því að þær eru uppistaðan í ræðu hv. stjórnarandstöðu núna og hafa verið nú á þremur þingum. Ég veit ekki, hvort þeirra ræður duga svo, þegar breyting verður á og þeir verða komnir í aðra aðstöðu en nú, sem vafalaust verður, að það verði hægt í þær að vitna, en vafalaust verður það líka reynt.

Hv. 2. þm. Vestf. sagði hér áðan, að hæstv. heilbrrh. væri fimleikamaður mikill, og ekkert efast ég um það, að hann kunni þar nokkuð til verka. En hv. 2. þm. Vestf. er það nú ekkert siður. Þegar hann t. d. ræddi hér um skattamálin og fór að tala um fjölda skattgreiðenda, þá gleymdi hann því, að nú er búið að fella inn í tekjuskattinn persónuskattana, sem á þessu fjárlagafrv. væru að fjárhæð upp á 1244 millj. kr., sjúkrasamlagsgjöld, sem væru líka á þessu fjárlagafrv. 1047 millj. kr., og framlag sveitarfélaga til almannatryggingakerfisins, sem væri 1050 millj. kr. Hér er um að ræða fjárhæðir, sem eru 3300 millj. kr. og rúmlega það, og ekki væri undarlegt, þó að eitthvað hefði breyst við það að taka þetta nú inn í tekjuskattinn, eins og gert hefur verið.

Ég hygg, að þegar ég lít á till. sjálfstæðismanna um tekjuskattinn, sem ég skal ekki fara að ræða að þessu sinni, þá sé það kannske eina leiðin, sem þeir hefðu til þess að lækka hann, svo sem þeir boða, að fara inn á þetta kerfi aftur. Þá væri hægt að lækka tekjuskattinn um 3300 millj., og þá vantaði þá ekki nema 1200 millj. í það, sem þeir ætla að skera niður.

Út af því, sem hv. þm. sagði um viðhaldsprósentuna og hann tengdi núv. skattalögum, þá er það á misskilningi byggt. Ákvörðunin um að fella niður viðhaldið hjá húseigendum er ekkert tengd þessum skattalögum, því að hún var tekin samkv. eldri lögum, áður en þessi lög urðu til. Hún var byggð á reynslu skattstjóra um margs konar erfiðleika við sönnunargögn í sambandi við þetta, og þetta var talin sanngjörn leið í þessu skyni. Hins vegar skal það játað, að þessi leið hefur ókosti, og ber að lita á það nú, þegar reynslan hefur sýnt það.

Hv. 2. þm. Vestf, talaði um fjölgun í ríkiskerfinu og ástæðuna til þess, að ekki væri starfsmannaskrá með fjárlagafrv. Ástæðan til þess, að ekki er starfsmannaskrá með fjárlagafrv. nú, er sú, að þegar farið var að prófa þessa starfsmannaskrá, þá kom það á daginn, að hún var ekki svo raunhæf sem haldið var, og m. a. var hún fyrst og fremst byggð á því, sem greitt hafði verið út í launadeild fjmrn. Nú hefur það hins vegar gerst á síðari árum með stórar stofnanir eins og Tryggingastofnun ríkisins, Póst og síma og fleiri slíkar stofnanir, að þeirra laun eru nú greidd í launadeildinni, og það var ekki nein fjölgun á starfsmönnum í sambandi við þá breytingu. Það var því ákveðið í haust að reyna að gera þessa starfsmannaskrá þannig, að hún væri í samræmi við fjárlagafrv., og að því er unnið, en það er þó nokkurt verk, en ég get hins vegar gefið hv. alþm. yfirlit yfir það, hvað hefur verið samþykkt í bremsunefndinni svokölluðu um starfsmannafjölgun á yfirstandandi ári. Það eru í Háskóla Íslands 24 stöður, hjá Pósti og síma 21, Vegagerð ríkisins 14, fangelsi við Síðumúla 10, Rafmagnsveitum ríkisins 5, dómaraembættið við rannsóknardeildina í fíkniefnamálum 5, Bifreiðaeftirlitið 9 og aðrar stofnanir 49, eða alls 137 manns. Þetta er það, sem hefur verið afgreitt í bremsunefndinni og gefur því rétta frásögn um það, sem þar að snýr.

Út af því, sem hv. 2. þm. Vestf. var að tala um heildarútgjöldin af skattprósentunni, þá er eðlilegt að taka það í einu lagi, bæði h,já ríki og bæjarfélögum, og þegar er verið að tala um mikla eyðslu og stjórnleysi í sambandi við fjárlagafrv., þá þykir mér rétt að vekja athygli á því, að borgarstjórinn í Reykjavík sagði frá því nú í sjónvarpi fyrir tveimur dögum, hvað þeirra væntanlegu fjárlög hækkuðu, og það var um 34% eða nokkrum prósentum hærra en fjárlagafrv., sem við erum nú að fást við, svo að viða er þá í landi pottur brotinn, ef á að færa það undir þennan lið, að um stjórnleysi sé að ræða. Ég vil líka vekja athygli á því, að heildarskatttekjur hins opinbera eru þær sömu á árinu 1973, miðað við verð þjóðarframleiðslu, 33.5% og 1972 voru þær þetta líka, 1971 31.8% og 1970 aftur 30%. En hækkunin á milli áranna 1970–1971 var meiri heldur en á milli áranna 1971 og 1972.

Það er oft talað um það hér á hv. Alþ., var rætt um það í gær, hvað fjárlög væru seint á ferðinni. Ég hef í því sambandi athugað afgreiðslu fjárl. allt frá 1960 og fram til þessa dags. Þá kemur á daginn, að af þeim 13 fjárlagafrv., sem hafa verið til meðferðar á þessu tímabili, eru 8, sem 2. umr. hefur farið fram um 13. og 14. des. Svo er eitt, þar sem umr. hefur farið fram 12, des. og 11. des., tvö 9. des., og umr. um aðeins tvö hafa farið fram 2. des., það var 1966 og 1967, en afgreiðslan fór þá fram 14. og 15. des., svo að það var nærri hálfur mánuður á milli, og afgreiðsla á fjárl. hefur verið venjulega 17.–22. des. Þetta er ekkert sérstakt, sem hér er á ferðinni, heldur það venjulega um meðferð málsins, enda ekki undarlegt, því að vinna í fjvn. er það mikil að það veitir ekki af tímanum frá 10. okt. fram yfir miðjan des. eða fram að miðjum des. til þess að koma þessum málum áfram. Þetta vildi ég nú segja í sambandi við þá aths. og hef ekki frekar orð þar um.

Ég vil svo segja frá því, sem hefur komið fram í ræðum framsögumannanna hér í dag, að hagrannsóknastjóri ásamt starfsmanni sínum gekk á fund n. um það leyti, sem þeir voru að skila og ljúka störfum til undirbúnings 2. umr. hér í hv. fjvn., og gerði þeim grein fyrir afkomu ársins 1973, eins og hún er sjáanleg nú í nóvemberlok. Það, sem þar um er hægt að segja, er það, að tekjur til nóvemberloka eru orðnar um 95% af áætluðum tekjum fjárl. á þessu ári. Hann gerði í því sambandi grein fyrir því, sem vitað var, að fjárlagafrv. var byggt upp á septembervísitölu, og bæði tekjur og gjöld voru miðuð við þær áætlanir, sem þá var reiknað með um afkomu ársins 1973, og enn fremur byggt á þeirri vísitölu, sem þá var þekkt. Það, að fjárlagafrv. verður nú endanlega byggt upp á vísitölu des., þýðir bæði hækkun á tekjum og gjöldum, og enn fremur þýðir það, að tillit verður tekið til teknanna á þessu ári við endanlega ákvörðun í sambandi við tekjuáætlun fjárl. Þær breytingar, sem eiga eftir að koma fram á útgjöldum fjárlagafrv. út frá þessum verðlagsbreytingum, eru hækkun á launum, hækkun á lífeyristryggingum og sjúkratryggingum. Hér er um allverulega hækkun að ræða, svo að það er gert ráð fyrir því, að það geti verið um einn milljarð, sem þetta kostar út af fyrir sig, þessar hækkanir, sem þannig koma til. Það má því reikna með því, að hækkun fjárlagafrv. í heild að viðbættu því, sem kemur frá fjvn., geti orðið um 1700–1800 millj. kr.

Ég vil geta þess í sambandi við þessa umr., að sú hugsun ríkisstj. að hækka tekjurnar með álögðum söluskatti um 2% var í fyrsta lagi hugsuð til þess, að önnur söluskattsprósentan gengi til þess að mæta þeirri tollalækkun, sem boðuð er í því tollskrárfrv., sem lagt hefur verið fram. Það mun verða reynt á það síðar, hvort það fæst samstaða um það hér á Alþ. að tengja þetta tvennt saman, og er tollalækkunin bundin því skilyrði. Á annan hátt er hún ekki framkvæmanleg. Að hinu leytinu mun ríkisstj, ekki afla tekna með auknum söluskatti vegna ríkissjóðs.

Hagrannsóknadeild Framkvæmdastofnunarinnar vinnur nú að endurmati á tekjum ríkissjóðs út frá þeim þekktu stærðum, sem hún vinnur nú við. Ég veit, að í alvöru dettur engum í hug, að frá henni komi annað þar um heldur en hún sjálf álítur vera rétt að meta við þær aðstæður, sem nú er metið. Það er jafnframt víst, að það verður veruleg hækkun á tekjunum frá því, sem fjárlagafrv. gerði ráð fyrir, á þeim tekjustofnum, sem í því eru. Hins vegar er það líka ljóst, að það mun ekki nægja til þess að gera fjárlagafrv. greiðsluhallalaust, ekki síst þegar tekið er tillit til þess, sem eftir á að koma í sambandi við hugsanlegar launabreytingar. Þess vegna verður við 3. umr. komið með þær till., sem munu nægja, til þess að tekjur og gjöld fái staðist. Ég mun því ekki fara frekar út í það, en vildi við þessa umr. gefa þessa yfirlýsingu um málin, eins og þau liggja nú fyrir og að er stefnt með þeim. Ég kann ekki heldur að segja það með vissu, hverjar umframtekjur verða á árinu 1973. Mér sýnist líklegt, að þær geti orðið 8–10%, og ég býst við því, að hagrannsóknastjóri hafi reiknað með eitthvað á því bili, því að nóvembertölurnar gefa tilefni til þess. Hins vegar verður að segja, að það hefur farið sem fyrr, að auknum tekjum fylgja líka aukin útgjöld, enda er sumt af þessu tengt saman, eins og ég nefndi dæmi um hér að framan. Það eru mörg dæmi um það, að tekjur hafi farið verulega fram úr fjárl. T. d. var það svo á árinu 1961, að þá fóru tekjur 23.3% fram úr fjárl., 1962 um 17.3% og 1970 um 16.7%. Útgjöld fóru að sjálfsögðu líka fram úr fjárl. þessi ár, en það er afar erfitt að bera saman útgjaldahliðina og raunar eldri fjárlög við uppgjörið á ríkisreikningnum, eins og hann hefur verið gerður upp síðan 1968.

Í framhaldi af þessu vil ég víkja nokkuð að því, sem fram hefur komið hér í dag í umr. um stöðu íslensku þjóðarinnar gagnvart útlöndum, og þeim áhyggjum, sem hv. þm. hafa lýst þar að lútandi. Þær upplýsingar, sem ég hef hér um, eru fengnar í dag, og þær eru miðaðar flestar við októberlok. Reiknað er með, að erlendar skuldir verði í árslok um 20 milljarðar 470 millj. kr. Þá er reiknað með árslokum. En við það er það að athuga, að gjaldeyrisstaðan út á við hefur breyst verulega, og þann 31. okt. s. l. var gjaldeyrissjóðurinn 7 milljarðar 659 millj. kr. Hygg ég, að það sé hæsta staða á gjaldeyrissjóði, sem verið hefur. Í júnímánaðarlok 1971 var hann 4 milljarðar 86 millj. kr. Hækkun á skuldunum frá 1971 til ársloka núna, eins og áætlað er, er um 6 milljarðar, því að þær voru 14 milljarðar 445 millj. 1971. Þegar dregin er frá mismunurinn á gjaldeyriseigninni núna og þá, hefur gjaldeyriseignin aukist um 3 milljarða 573 millj. kr., og birgðabreytingin, — eins og talið er, að birgðir muni verða í árslok 1973 og eins og þær voru í árslok 1971, — hefur hækkað um 1600 millj. kr. Hér er því um að ræða fjárhæð, sem nemur 5229 millj. kr. Og þegar þetta er dregið frá 6000 millj. kr. skuldaaukningu, þá er mismunurinn, nettóskuldaaukning, á þessu tímabili 771 millj. kr. Þegar á það er litið, held ég, að enginn þurfi að undrast eða óttast, að með gáleysi hafi verið siglt, því að reynslan sýnir það, að greiðslubyrði erlendra lána í hlutfalli við tekjur af vörum og þjónustu var, eins og hv. 2. þm. Vestf. upplýsti hér áðan, 1970 11.2%, 1971 10%, 1972 11.4%, en 1973 9.7%. Þessar upplýsingar hef ég fengið frá Seðlabankanum í dag, svo að af þessu má sjá, að það er langt frá því, að staða okkar út á við sé slæm, nema síður sé, því að hún er mjög hagkvæm. Þessi lán, sem við höfum fengið, eru fyrst og fremst lán vegna framkvæmda okkar í virkjunum, vegna skipakaupa og annarra slíkra nauðsynlegra hluta. Við höfum á síðustu árum verið með Laxárvirkjun, Lagarfossvirkjun og Mjólkárvirkjun, og til þessara virkjanaframkvæmda höfum við fengið erlend lán og einnig á þessu tímabili til Búrfellsvirkjunar. Skipakaup hafa líka verið nokkur á þessum árum og verið fengin til þeirra sérstök lán.

Þá vil ég geta þess, að á þessu ári hefur innstæða hjá innlánsstofnunum aukist í spariinnlánum um 3847 millj. kr. eða 20.6% frá 1. jan. til 31. okt. og í veltuinnlánum um 1910 millj. kr. eða 39.4% Alls er aukningin á þessu tímabili 5757 millj. kr., eða 24.5%.

Ég held, að þegar á þetta er litið, sé öllum ljóst, að hér er ekki um neinn vandræðabúskap að ræða, heldur er afkoma þjóðarinnar á þessu ári mjög góð og hagstæð, og þarf ekki undan því að kvarta. Þó er ekki því að neita, að þjóðin hefur orðið fyrir verulegum áföllum á þessu ári ekkert síður en önnur ár, svo sem ég kem síðar að. Ég vil vekja athygli á því, að atvinna og uppbygging til framtíðarinnar hefur verið geysimikil á yfirstandandi ári. Fiskiskipaflotinn hefur verið stórefldur, fiskiðjuverin hafa verið endurbætt og byggð ný, framkvæmdir í landbúnaði eru nú meiri en nokkru sinni fyrr, framkvæmdir á vegum ríkisins sömuleiðis og bæjar- og sveitarfélaga. Alls staðar hefur verið um mikla vinnu að ræða, og það má rétt vera, að það hafi sums staðar verið um fullmikla vinnu að ræða.

Það er talið, að á þessu ári hafi þjóðarframleiðslan aukist um 5% og þjóðartekjuaukningin sé 7.5%, enn fremur, að kaupmáttaraukningin sé í kringum 4%, einkaneyslan hafi aukist um 6% og á árunum 1971–1973 hafi ráðstöfunartekjur heimilanna vaxið um 35%, en þjóðarinnar um 28%. Greiðslujöfnuður mun á þessu ári verða hagstæður um 1550 millj., að spáð er, og mun batinn verða um 2000 millj. kr.

Því er ekki að neita, að það, sem hefur orðið okkur óhagstætt á þessu ári, er m. a. verðþróunin, bæði innanlands og erlendis. Helminginn af verðhækkunum, sem orðið hafa hér á landi á þessu ári, má rekja til innfluttra vara. Það er talið, að verðhækkunin á innfluttum vörum sé um 12%, og þarf engan að undra, þó að byggingarkostnaður hafi hækkað verulega hér á landi, þegar byggingarefni, eins og steypustyrktarjárn og járn yfirleitt, hefur hækkað um eða yfir 100%, timbur yfir 50% og aðrar byggingarvörur eftir því. Ekki getur hjá því farið, að byggingarvísitalan hlýtur að hækka mikið, þegar slíkar erlendar hækkanir eiga sér stað, ekki síst hjá þjóð, sem er jafnháð innflutningi og íslenska þjóðin er. Ég vil t. d. vekja athygli á því í sambandi við þetta, að á áratugnum 1960–1970 bættust ekki á verðlagskerfið hér neinar innfluttar verðhækkanir. Það voru þá ekki þær verðhækkanir í viðskiptalöndum okkar, sem hafa verið nú, sem gerðu verðhækkunina hér. Þegar þetta er borið saman, þá hygg ég, að hv. alþm. sé það ljóst, að innlendar verðhækkanir eru ekki meiri á þessu ári en þær hafa verið á undanförnum árum. Ég vil t.d. vekja athygli á því, að á árinu 1969, þrátt fyrir það að ekki væri um innfluttar verðhækkanir að ræða, var verðhækkunin hér á landi um 24%. Það þarf ekki heldur neinn að draga það í efa, sem til þekkir, að hagkerfinu hér berast utan frá miklu meiri hækkanir heldur en hagkerfi annarra landa. Þá getur ekki hjá því farið, að Vestmannaeyjagosið hefur haft veruleg áhrif, ekki síst á sviði verðbólgunnar, því að þær framkvæmdir, sem fóru fram til þess að bæta úr t. d. húsnæðisvandræðum Vestmanneyinga, fóru fyrst og fremst fram hér á því svæði, þar sem vinnumarkaðurinn var mettaður fyrir. Þetta hlaut að leiða til þess, að þenslan varð meiri í hagkerfinu heldur en að öðrum kosti hefði orðið, og það, að svo stórt áfall sem Vestmannaeyjagosið er þessari þjóð hafi ekki meiri áhrif á raunverulega afkomu þjóðarinnar heldur en það hefur gert, er að minni hyggju vel að verið.

Þá vil ég geta þess, að vísitölukerfi það, sem við búum við, hefur geysilega mikil áhrif í okkar verðlagskerfi, því að það mælir hverja hreyfingu í verðlaginu og mælir svo ört sem það gerir. T. d. er það munur eða hjá nágrönnum okkar, þar sem kerfið mælir ekki nema kannske einu sinni á ári eða annað hvort ár og það mælir ekki hreyfingar í tekjuöflun ríkissjóðs og fleiri slíkar hreyfingar, sem auðvitað hafa sín áhrif í þessu okkar verðlagsvísitölukerfi. Ég held, að það sé því ljóst, að ef á að verða breyting hér á í sambandi við verðbólguna, þá þurfi að nást samkomulag milli launþega og ríkisvaldsins um verðlagskerfi vísitölunnar. Að þessu hefur nokkuð verið unnið í sambandi við þau kjaramál, sem nú standa yfir, og verður haldið áfram að vinna að því. Ég vil líka segja það, að ég lít svo á, að það sé með öllu óforsvaranlegt að draga úr nauðsynlegum félagslegum umbótum á sviði ríkisvaldsins, ef einkafjármagnið og aðrir opinberir aðilar hafa takmarkalaust frelsi til sinna framkvæmda. Ef á að fara að takmarka hér framkvæmdafrelsi, þá verður það að vera víðtækara en það, að það nái bara til ríkisvaldsins.

Út af aðgerðum þeim, sem ríkisstj. hefur gert á þessu ári til þess að hamla á móti verðbólgunni, vil ég minna á þá gengishækkun um 13%, sem hún hefur komið áleiðis á þessu yfirstandandi ári. Þetta hefur lækkað innfluttar vörur um 4%, og það hefur gert gengið sveigjanlegra en áður hefur verið, auk þess sem binding á sparifjársöfnun á að verða til þess að draga úr þenslu, hvernig sem það hefur á annað borð verkað. Ég vil og segja það, að ég tel, að brýna nauðsyn beri til þess að ná samstarfi á milli ríkisvaldsins og lífeyrissjóðanna í sambandi við útlán þeirra. Ég tel að þetta eigi að gera með þeim hætti, að það eigi að fá fé til Byggingarsjóðs ríkisins og Framkvæmdasjóðs, sem að takmörkuðu leyti verði með verðtryggingu, og þá fái líka lífeyrissjóðirnir að nokkru leyti verðtryggt það fé, sem þeir hafa til umráða. Ég held, að það sé óhugsandi bæði vegna þeirra og vegna ríkisvaldsins að láta þetta fjármagn valsa í þjóðfélaginu alveg án afskipta og það sé líka hið mesta gáleysi að reyna ekki að verðtryggja það, til þess að það nýtist betur, þegar þarf á því að halda til þeirra, sem geyma sér það til elliára. Ég get líka vel látið mér það til hugar koma, að við gerðum meira að því að reyna að beita vísitölutryggingu í sambandi við útlán heldur en við höfum gert og þá með öðrum hætti, einmitt með þeim hætti, að einhver hluti fjárins væri vísitölutryggður, en ekki öll lánsfjárhæðin. Ég held, að þetta mundi geta haft áhrif til þess að draga úr okkar verðbólgu eða a. m. k. hægja eitthvað á ferðinni.

Það er ljóst, að enn berast okkur utanaðkomandi áhrif, sem eru verðbólguvaldandi, og það er hækkun á olíuverðinu, sem ekki verður umflúið frekar en þær hækkanir, sem hafa borist til okkar nú á yfirstandandi ári. Frammi fyrir þessu stöndum við og við ráðum ekki við það, þetta verður inn í okkar kerfi að ganga og við verðum að meta út frá því.

Ég vil segja það í sambandi við verðbólguna, að ég tel hina mestu nauðsyn, enda stefnir ríkisstj. að því, að finna leið til úrbóta þar um, — ég vil nú ekki segja til úrlausnar, þetta verður sífellt vandamál, hvaða ríkisstj. sem er, — eftir áramótin og leita um það samstöðu hér á hv. Alþ., en ég vil þó segja það, að betra er að hafa takmarkaðar verðhækkanir heldra en atvinnuleysi. Það hygg ég, að hv. þm. séu allir sammála um.

Mér er eins og öðrum ljóst, að nú ríkir nokkur óvissa í sambandi við okkar efnahagsmál og atvinnumál í sambandi við þær launadeilur, sem nú eru yfirstandandi í landinu. Ég vil þó segja það, að mér finnst, að enda þótt kröfur þær, sem settar voru fram, væru mjög háar, hafi raunin orðið sú, að þær hafi ekki verið sóttar með neinni hörku, þannig, að ég geri mér vonir um, að það fáist viðunandi lausn á þeim. Í sambandi við þau kjaramál hafa farið fram viðræður á milli ríkisstj. og deiluaðilanna: Alþýðusambandsins, Bandalags starfsmanna ríkis og bæja og Bandalags háskólamanna, um aðra þætti þjóðlífsins, eins og skattamálin, en ríkisstj. hefur áður lýst því yfir, að hún er reiðubúin til þess að breyta sínu skattakerfi með því móti, að hvorugt komi inn í vísitöluna, hvorki þeir beinu skattar, sem nú eru, né þeir óbeinu sem kæmu á móti þeim, sem frá yrði horfið. Það fórn fram umr. um þetta í fyrravetur, en strönduðu þá, eftir að Vestmannaeyjagosið kom upp. Þá var horfið frá því máli. Nú er það mál allt mikið betur undirbúið vegna þeirrar skýrslu, sem skattalaganefndin hefur unnið og er mikið og gott verk og betra að fást við málin, eftir að hún hefur komið fram. Hvort samkomulag tekst um þetta, skal ég ekki segja, en að því er unnið og verður unnið að því að reyna að leita eftir því samkomulagi til þess að gera þessi mál viðráðanlegri.

Eins og ég gat um áðan, hefur afkoma þjóðarinnar verið góð á þessu ári og verður svo áfram vonandi, nema utanaðkomandi áhrif kunni að hafa þar óheillavænleg áhrif á meira en nú verður séð. Hinu er ekki að neita, að áföll eins og Vestmannaeyjagosið og olíuverðlagið hafa náttúrlega geysimikil áhrif til óhagræðis og erfiðleika fyrir þjóðina í heild.

Þetta fjárlagafrv., sem hér liggur nú fyrir til 2. umr., ég gerði það vel grein fyrir því við 1. umr., að ég skal ekki fara langt út í það núna. Í raun og veru byggir þetta fjárlagafrv. á trú á landið, fólkið og framtíðina. Það er byggt á því að skila landinu betra í hendur þeirra, sem við taka, heldur en þegar við, sem nú förum með mál þess, tókum við því. Þess vegna er nú miklu varið til uppbyggingar til þess að bæta fyrir framtíðinni og leysa verkefni, sem hún yrði að öðrum kosti að leysa.

Það hefur komið fram í þessum umr., og ég hef séð það, að þetta fjárlagafrv. væri hið mesta óráðsíufjárlagafrv. Ég spyr: Er þá byggðastefnan, sem hv. frsm. báðir hafa vikið þannig að, að hefði vaxandi fylgi, — er hún óráðsía? Þetta fjárlagafrv. einkennist af henni. Er það óráðsía að veita meira fé til framkvæmda í höfnum heldur en nokkru sinni fyrr? Er það óráðsía að veita meira fé til framkvæmda í skólum en verið hefur?

Er það óráðsía að veita meira fé til framkvæmda í flugvöllum en áður hefur verið? Er það óráðsía að veita nú aukið fé til þess að byggja upp heilbrigðiskerfið, sem mjög skortir á, að hafi verið byggt upp hér á landi? Sama er að segja um starfsemi eins og Íþróttasjóður annast, almannatryggingar, elli- og dagvistunarheimili. Er óráðsía að veita fé til þess alls? Það eru einmitt þessir þættir, sem hækka útgjöld fjárlagafrv., því að rekstrarútgjöld fjárlagafrv. eru ekki hærri hlutfallslega, heldur lægri en var 1971. Það er því ekki það, sem hefur gerst, þrátt fyrir það að launasamningarnir 1970 höfðu sín áhrif, og þau auknu útgjöld, sem ríkissjóður hefur tekið við af sveitarfélögunum, hafa einnig valdið ríkissjóði auknum útgjöldum á rekstrarreikningi. En það, sem sker úr um hækkun fjárl., er félagsleg uppbygging, byggðastefna, sem er einkenni á þessu fjárlagafrv. Ég er sannfærður um það, að þó að hv. alþm. í ræðu eða blöðum noti orðið óráðsíu í sambandi við fjárlagafrv., þá eru þeir innst inni sammála því, að að slíku fjárlagafrv. vilji þeir standa.